17. janúar 2013

Skáldskapur um skáldskap: Undantekningin eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Undantekningin ‒ de arte poetica er fjórða skáldsaga Auðar Övu og segir frá fáeinum vikum í lífi Maríu, aðalpersónu sögunnar og vitundarmiðju, í kjölfar þess að eiginmaðurinn til ellefu ára tilkynnir henni að hún hafi, sem kona, verið undantekningin í lífi hans og hann hyggist nú yfirgefa hana fyrir karlmann.

Sjálf hef ég ekki lesið aðrar bækur Auðar Övu en skilst að þessi höfði til margra sem kunnu að meta hinar fyrri. Sagan er vel skrifuð, flæðið gott og myndmálið sérlega safaríkt. Líkt og undirtitill sögunnar, sóttur í samnefnt rit Aristótelesar; de arte poetica eða um skáldskaparlistina vísar til er meginþema hennar form og eðli skáldskaparins, og er þeim pælingum fundinn farvegur og rödd í persónunni Perlu, rithöfundi, hjónabandsráðgjafa og grannkonu Maríu í kjallaraíbúðinni: „Það eru margir sem eru alla ævi að velta fyrir sér hvenær sé rétta augnablikið fyrir stund sannleikans. Sumir komast aldrei að niðurstöðu. Það er eins og í skáldskapnum, maður er stöðugt að glíma við það hvenær eigi að hægja á frásögn og hvenær hraða. [...] Munur á lífi og skáldskap er aðallega sá að í lífinu getur verið erfitt að tímasetja nákvæmlega hvenær eitthvað byrjar að eiga sér stað.“ (35)
Þessarar meðvitundar um skáldskapinn sem slíkan sér einnig stað í ýmiskonar táknum, til dæmis merkingarbærum nöfnum persóna. Þannig er María, nafna guðsmóðurinnar, ekki aðeins eigin börnum umhyggjusöm móðir heldur hefur hún helgað starfsævi sína hjálparstarfi með börnum í stríðshrjáðum löndum. Nafn heimiliskattarins Bíbíar öðlast merkingu þegar hann verður Maríu tilefni til samskipta við unga manninn í næsta húsi, sem reynist vera fuglafræðingur, en ýmsir fuglar birtast Maríu í sögunni og einkum hrafnar: „Venjulega eru þeir tveir saman ‒ hrafnaparið ‒ en í þetta sinn er fuglinn einsamall og mér þykir hann undarlega þungur, eins og gömul herflugvél.“ (7) Þetta er í blábyrjun sögunnar og rétt áður en Flóki, eiginmaður Maríu, segir henni frá ástarsambandinu við kollega sinn sem einnig heitir Flóki. Báðir eru þeir stærðfræðingar og sérfræðingar í óreiðukenningunni ‒ reyna að „skilja eðli hins ófyrirsjáanlega“ (52) ‒ en eins og Perla bendir á er mannleg hegðun „tilviljunarkennd, duttlungafull og ófyrirsjáanleg [...] útkomurnar verða óendanlega margar.“ (37)

Flókanafnið hefur augljósa tengingu við hrafnsfuglinn gegnum Hrafna-Flóka, sem einnig getur staðið fyrir áttavillu mannfólksins og leit að þurru landi í mis-eiginlegri merkingu. Hrafninn er stundum talinn boða illt þó að í þjóðsögunum birtist hann einnig sem bjargvættur en er líklega í flestum tilvikum fyrirboði breytinga af einhverju tagi. Hann tilheyrir líka Óðni og er þannig nátengdur uppsprettum skáldskaparins, en í pælingum Perlu um samspil skáldskapar og veruleika er bent á hversu miklu óreiðukenndari og ófyrirsjáanlegri veruleikinn sé af þessum tveimur: „Ef við tökum sem dæmi það sem gerst hefur í lífi þínu undanfarnar vikur, María, þá sé ég ekki fyrir mér að það sé hægt að koma böndum á óreiðuna og troða inn í ramma tvö hundruð áttatíu og fimm blaðsíðna bókar.“ (231) Það þarf svo ekki að koma á óvart að Undantekningin er einmitt nákvæmlega 285 blaðsíðna löng, en ítrekað er ýjað að því að Perla (sem hallast æ meir að skáldskapnum í stað hjónabandsráðgjafarinnar ‒ þar er hún nefnilega fær um að uppfylla óskir viðskiptavinanna um að skapa fólki nýja maka) sé að skrifa sögu innaní sögu og jafnvel einmitt söguna um Maríu: „Ef líf þitt væri skáldsaga, þá þætti slíkt ofhlæði dramatískra atburða ekki sannfærandi. [...] Hitt sé svo annað mál að jafn undarlega og það kunni að hljóma þá minni atburðarásin skuggalega mikið á uppkast bókar sem [Perla] hafi þegar rissað upp útlínur að. [ . . . ]Hugmyndin er sú að sagan spegli eigin tilurð og að höfundurinn sé sjálfur ein af persónum sögunnar.“ (172‒3, 276) Auk skáldsögu er Perla með handbók um hjónabandið í smíðum og því sérlega áhugasöm um aðstæður Maríu og Flóka. Hún veltir fyrir sér að nefna hjónabandsbókina Svanir skilja ekki, því svanir velji sér lífstíðarmaka, en hverfur frá þeim titli eftir að hafa heyrt af undantekningu frá reglunni. Enn ein undantekningin og frávikið í sögunni er síðan Perla sjálf, sem vill svo til að er dvergur á vöxt.

Annað sterkt þema í textanum er fjarvera blóðfeðra aðalpersónanna, í það minnsta á líkamlega sviðinu þótt andleg nærvera þeirra geti vissulega verið sterk. María er uppalin af móður og fósturföður og barnsfaðir hennar flytur út frá henni og tvíburunum þeirra. Henni stendur það í fersku minni að kvöldið sem tvíburarnir voru getnir var mynd um ævi Krists í gangi í sjónvarpinu; sonar Maríu nöfnu hennar og hins últímat fjarstadda (en þó eilíflega yfirvomandi) föður á himnum. Perla þekkti aldrei föður sinn, en vill síst meina að fjarvera hans hafi plagað sig: „Ég þarf ekki föður til að komast að því hver ég er enda er fátt meiri skáldskapur en ævisaga manns og minningar hápunktur skáldskaparlistarinnar...“ (142) Líffræðilegur faðir Maríu, sem leitar fundar dóttur sinnar í fyrsta sinn rétt í þann mund sem faðir barnanna er að renna henni úr greipum, reynist einmitt vera lífeðlisfræðingur og sérfræðingur í minninu. Hverfulleiki og mis-meðvituð valkvæðni minnisins, þar sem jafnvel er skáldað í eyður af einhverjum hvötum, kemur svo skýrt fram í tvísaga frásögnum barnanna af helgarheimsókn: „Það er ljóst að þau hafi farið í húsdýragarð og séð sel og þau hafa líka farið í sund og annaðhvort á bókasafn eða listasafn. [...] Bambi segist ekki hafa farið að gráta þegar pabbi fór en Bergþóra segir að hún og amma hafi huggað hann.“ (218)

Sinnaskipti Flóka koma Maríu í fyrstu í opna skjöldu. Hún hafði talið sig eiga fullkomið hjónaband með manninum sem hún nánast klifar á við sjálfa sig og aðra að hafi verið „maðurinn í lífi hennar“ ‒ engu líkara en hún eigi erfitt með að meðtaka að líf hennar stefni ekki lengur að farsælum endi að hætti rómantískra skáldsagna og kvikmynda ‒ en í endurliti tekur hún smám saman eftir ýmsu sem kannski hefði átt að vekja grunsemdir hennar fyrr; hversu oft hann þurfti að vinna frameftir, lagði sig í vinnunni yfir nótt og úr minni sínu rifjar hún upp dularfullar símhringingar á undarlegustu tímum og hin og þessi augnablik sem Flóki hafi sést tala við aðra karlmenn í grunsamlega miklum trúnaði. Þótt hjónabandið hafi þannig misheppnast virðist María sannarlega vera hin fullkomna eiginkona, eða að minnsta kosti í einhverjum skilningi fullkomin kona, móðir og húsmóðir. Oftar en einu sinni er nefnt að hún líti út eins og kvikmyndastjarna, sé fallegasta kona sem hinn eða þessi hafi séð, þótt sjálf virðist hún síst upptekin af útlitinu og ekkert gera til að rækta það sérstaklega. Hún reiðir fram heimalagað tíramísú og hindberjaís og bakar lifrarkæfu eins og ekkert sé og hefur helgað sig hjálparstarfi með bágstöddum börnum á jarðsprengjusvæðum. Þessi allt að því leiðigjarna fullkomnun var reyndar byrjuð að fara töluvert í taugarnar á mér við lesturinn, en eftir á að hyggja dettur mér helst í hug að það hafi einmitt verið með ráðum gert af hálfu höfundar að hafa Maríu eins gallalausa og góða (og þannig óhjákvæmilega ekki allsendis „raunverulega“) og aðeins skáldsagnapersónur geta verið ‒ þá því til áréttingar að auk þess að vera sögupersóna í Undantekningunni eftir Auði Övu Ólafsdóttur sé hún jafnframt sögupersóna í (samnefndri?) skáldsögu innaní skáldsögu eftir sögupersónuna Perlu D. Sigríðardóttur (sem mér fannst reyndar besta persóna bókarinnar og ekki hið minnsta leiðinleg eða fyrirsjáanleg): „Þú ert það næsta sem ég hef komist því að eignast vinkonu, heyri ég að [Perla] segir og snýr í mig baki. Það getur oft verið einmanalegt að deila lífi með fólki sem maður hefur mestmegnis fundið upp sjálfur.“ (232)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála því að þetta er mjög vel skrifuð bók, en það var ekkert annað en hræðilega pirrandi að lesa um þessa fullkomnu konu og algert gagnrýnisleysi hennar á ömurlega framkomu annarra í hennar garð, bæði hvað varðaði hjónaband hennar og samband hennar við blóðföður sinn. Mig var farið að langa til að lemja hana í hausinn með sjálfri bókinni.

Ragnhildur.

Kristin Gunarsdóttir sagði...

Þetta tek ég undir. Það er greinilegt að það hefur verið virkilega vandað til verks við vinnslu þessarat bókar. Textinn er óneitanlega fallegur - en hann heillaði mig ekki neitt. Hann varð tilgerðarlegur. Ég beið alltaf eftir því að hulunni yrði svipt af fullkomnu konunni Maríu. Það að hun hafi átt að vera skálduð er ekki nóg til að afsaka blaðsíðu eftir blaðsíðu af lýsingum á fallegum undirklæðum hennar, klassískum kjólum, kvenlegum vexti og dýrindis rjúpapatéi.

Nafnlaus sagði...

Fer framhjá ykkur hvað sagan er fyndin? Lymskulegur stíllinn er óborganlegur á köflum.

Nafnlaus sagði...

Jú jú, ég tek undir að stíllin er ekki bara fallegur heldur líka gamansamur, og bara í alla staði óvenju vel heppnaður. Þetta er samt einfaldlega ekki bók sem ég mun koma til með að lesa aftur, ólíkt öðrum bókum eftir sama höfund.

Ragnhildur.