
Mörg börn og foreldrar þekkja bækurnar um the Gruffalo, sem í skemmtilegri þýðingu Þórarins Eldjárn heitir Greppikló. Greppikló er skrítið og skemmtilegt skrímsli sem kemst í kynni við brögðótta mús. Eftir fyrri bókinni hefur verið gerð teiknimynd sem var sýnd í íslensku sjónvarpi fyrir einhverjum jólum síðan; ekki veit ég hvort myndin eftir seinni bókinni hefur verið sýnd hér en hún er allavega líka til.
![]() |
Greppikló hefur líka komið út á rússnesku |
Skosku, eða Scots, má ekki rugla saman við skoska gelísku, sem er keltneskt tungumál sem u.þ.b. eitt prósent skosku þjóðarinnar talar. Scots er ýmist flokkað sem tungumál eða sem mállýska/afbrigði af ensku, sumsé skosk enska. Talið er að einn af hverjum þremur Skotum hafi vald á að tala skosku en mun fleiri skilja hana. Innan skoskunnar er svo hellingur af mállýskum og svæðisbundnum sérkennum. Eitthvað er enn gefið út af bókum á skosku og margir nútímahöfundar sem skrifa á ensku nota eitthvað úr skoskunni. Þegar leikrit eftir undirritaða var sett upp með skoskum leikurum var til dæmis önnur persónan þýdd yfir á skoska mállýsku á meðan hin talar "flatari" ensku. Í skosku (og skoskri ensku almennt) er fullt af orðum sem eiga meira skylt við íslensku og norræn mál en enskuna. Mér reyndist oft auðveldara að skilja skosku orðin heldur en enskum og bandarískum vinum mínum. Skoska er blæbrigðarík og það er einhver innbyggður húmor í málinu; ég á mjög skemmtilega bók þar sem safnað hefur verið saman vísum og leikjaþulum frá Skotlandi þar sem smellið rím og óvænt málnotkun eru á hverju strái.