1. desember 2019

Glæpir menningarmafíunnar

Matilda Gustavsson
Á föstudaginn fyrir rúmri viku kom bókin Klubben, eftir Matildu Gustavsson, út í Svíþjóð (hún kemur líka út á ensku með titilinn The Club: A Chronicle of Power and Abuse at the Heart of the Nobel Scandal). Matilda (f. 1987) fékk virt blaðamannaverðlaun 2018 fyrir að fletta ofan af nauðgunum, ofbeldi og fleiri glæpum sem viðgengust áratugum saman í kreðsum nátengdum Sænsku akademíunni og urðu til þess að Nóbelsverðlaunin í bókmenntum voru ekki veitt árið 2018. Ég fylgdist með afhjúpuninni í dagblöðum svo ég vissi töluvert um þetta mál, en engu að síður gleypti ég bókina í mig í gær og finnst hún alveg stórmerkileg lesning sem setur kvenfyrirlitninguna, menningarsnobbið og þöggunina í enn skýrara samhengi.

Inngangurinn í
menningarklúbbinn Forum
Í Klubben segir Matilda Gustavsson frá því hvernig hún fletti ofan af Jean-Claude Arnault sem gekk undir nafninu Kulturprofilen áður en hann var dæmdur fyrir nauðgun og nafngeindur opinberlega. Jean-Claude er eiginmaður skáldsins Katarinu Frostenson, sem sat í stól númer 18 í sænsku akademíunni frá 1992 og þar til fyrr á þessu ári, þegar henni var ýtt út, en hún fær engu að síður ævilangar mánaðargreiðslur frá Akademíunni og má að auki búa í íbúð á besta stað í eigu þeirrar menningarstofnunar. Kynferðisleg áreitni Jeans-Claudes Arnaults var fyrst til umfjöllunar opinberlega fyrir síðustu aldamót. Þá var skrifuð blaðagrein og fólk í ýmsum stofnunum fékk bréf frá konum sem upplýstu um hegðun hans, en allt var þaggað niður, það þurfti #metoo og mál Harvey Weinsteins til að eitthvað gerðist og þá kom í ljós að margt fólk var aldeilis til í að verja margfaldan nauðgara og konuna hans sem tók þátt í öllu saman beint og óbeint.


Klúbburinn Forum sem var rekinn í Stokkhólmi í um þrjátíu ár þótti vera með því fínasta í sænsku menningarlífi. Um var að ræða lókal í stórum kjallara, þar voru haldin bókmenntakvöld, tónlistarviðburðir og ýmsir aðrir menningarviðburðir og þátttakendur voru þekkt og frægt fólk, ekki bara Svíar heldur einnig stórstjörnur á borð við Joan Didion og Svetlönu Aleksijevitj. Jean-Claude Arnault var að eigin sögn fjölmenntaður Frakki sem hafði unnið með mörgum heimsfrægum frönskum listamönnum, hann fékk styrki til rekstrarins úr ýmsum opinberum sjóðum og frá Akademíunni (þar sem konan hans var hinum megin borðsins) en Matilda Gustavsson fletti ofan af því að hann er í raun menntaður rafvirki, hann er ekki með stúdentspróf og hefur aldrei gengið í neinn háskóla. Arnault laug alveg botnlaust, bæði um fjölskyldu sína og velgengni í gamla heimalandinu, þar sem ekkert af því fólki sem hann gortaði sig af því að þekkja, kannaðist við hann þegar það var spurt. Í skjóli stöðu sinnar sem eiginmaður valdamikillar kúltúrdrottningar nauðgaði Jean-Claude ungum konum og áreitti kynferðislega á opinberum stöðum og í íbúð sem hann hafði til umráða og er í eigu Akademíunnar. Eiginkonan og fólk sem horfði upp á þetta eða var upplýst um hegðun hans leit í hina áttina eða fannst hann bara sniðugur gaur. Það er varla hægt að segja að maðurinn hafi leikið tveimur skjöldum, þetta var allan tímann býsna augljóst, fólk valdi að loka augunum. Árið 1997 birti dagblaðið Expressen líka grein um að menningarmaður með tengsl inn í Akademíunna hefði verið ásakaður um kynferðislega áreitni, málið var snarlega þaggað og þáverandi ritari Akademíunnar stakk bréfum sem hann fékk frá einu af fórnarlömbum Arnaults undir stól.

Nóbelsverðlaun Peters Handke
sett í samhengi
Fyrir utan að kóað var með þeim Arnault/Frostenson-hjónum var menningarsnobbið og samkomulagið um hvað væri góð list svo gríðarlegt að ekki var leyfilegt að gagnrýna verk skáldkonunnar. Blaðakona ein skrifaði árið 1998 að óperutexti Katarinu Frostenson, sem pantaður var sérstaklega og var hluti af fínustu uppákomu Stokkhólmsborgar það árið, væri kryptískt drasl. Henni var andmælt kröftuglega og meðal annars hélt bókmenntaprófessorinn Ebba Witt-Brattström, sem þá var gift Horace Engdahl, besta vini Arnaults, sem í tíu ár var ritari Akademíunnar, sérstakt námskeið um libretto Frostenson til að hrekja gagnrýnina, það mátti alls ekki segja annað en að allt sem Katarina Frostenson léti frá sér væri stórkostleg list. Gagnrýnandinn segir í grein sem hún birti fyrir nokkrum dögum að hún hafi í kjölfar þessarar gagnrýni fengið skýr skilaboð um að það væri ekki liðið að gefa sumum höfundum annað en fimm stjörnur.

Það er margt svakalega áhugavert sem kemur fram í Klubben sem ég get ekki hætt að hugsa um. Til dæmis hvernig konurnar sem Arnault misnotaði og nauðgaði ásaka sjálfar sig, hvernig þær sem risu upp og sögðu frá voru sakaðar um lygi og sumar bældu nauðganir og áreitni og héldu áfram að umgangast Arnault, einhverjar gátu hreinlega ekki annað því þær voru í þannig störfum og þannig staðsettar að það var of erfitt að sniðganga hann. Matilda Gustavsson lýsir því líka hvernig margir telja hana vera strengjabrúðu einhverra illra afla, kvenna sem hata karlmenn eða ljóðskálda sem vilja steypa Katarinu Frostenson úr hásæti sænsku ljóðasenunnar. Um síðustu helgi var Matilda í viðtali í sænska bókmenntaþættinum Babel, þar var hún spurð að því hvort ekki hefði verið erfitt að fá Horace Engdahl, sem enn ver vin sinn þrátt fyrir nauðgunardóm, í viðtal en hún sagði að svo hefði ekki verið. Hann er svo sannfærður um að hún sé bara einhver stelpa sem er verkfæri vondra öfgafeminista sem hata menningarkarla og Katarinu Frostenson og þess vegna fannst honum allt í lagi að tala við hana. Engdahl flutti fjögurra tíma eintal fyrir Matildu (samtöl hans eru oft eintöl) þar sem hann sagðist auðvitað vita að öfundarkonur væru að nota hana til að ausa skít yfir vandað menningarfólk. Katarina Frostenson, sem hefur verið viðstödd þegar maðurinn hennar hefur áreitt konur, lýsir því líka blákalt yfir að hann sé fórnarlamb rasisma (hann er franskur gyðingur) og góður maður.


Bókabloggarinn talar við Frostenson
í Norræna húsinu fyrir nokkrum árum

Í áratugi var slúðrað um Jean-Claude Arnault, hann var uppnefndur og kallaður subbukall en það var ekki fyrr en haustið 2017 sem einhver tók sögusagnirnar alvarlega og kafaði í málin. Það var Matilda Gustavsson, nýráðin blaðakona hjá Dagens Nyheter. Hún hafði uppi á fjölda kvenna sem sögðu henni frá samskiptum sínum við menningarmanninn sem hafði fengið fínustu orðu Svíþjóðar og verið haldið uppi af almannafé áratugum saman. Hún kynnti sér aðferðirnar sem blaðamenn sem afhjúpuðu Harvey Weinstein notuðu, fékk að skoða dagbækur og tölvupósta fórnarlambanna og tók fjölda viðtala við fólk sem hafði verið í samskiptum við Arnault eða unnið í sömu kreðsum og hann.

Það er svo margt sem hægt er að segja um þetta mál og ég á eftir að hugsa mikið um það sem stendur í Klubben næstu daga. Það er líka óhjákvæmilegt eftir lesturinn að bera menningarkima Svíþjóðar saman við menningarkima Íslands og velta fyrir sér hvort og þá hvað sé sameiginlegt og ólíkt í löndunum. Bókin kemur út á ensku fljótlega (ef hún er ekki þegar komin út) og örugglega á fleiri málum í kjölfarið, ég mæli gríðarlega mikið með henni.