Matilda Gustavsson |
Inngangurinn í menningarklúbbinn Forum |
Klúbburinn Forum sem var rekinn í Stokkhólmi í um þrjátíu ár þótti vera með því fínasta í sænsku menningarlífi. Um var að ræða lókal í stórum kjallara, þar voru haldin bókmenntakvöld, tónlistarviðburðir og ýmsir aðrir menningarviðburðir og þátttakendur voru þekkt og frægt fólk, ekki bara Svíar heldur einnig stórstjörnur á borð við Joan Didion og Svetlönu Aleksijevitj. Jean-Claude Arnault var að eigin sögn fjölmenntaður Frakki sem hafði unnið með mörgum heimsfrægum frönskum listamönnum, hann fékk styrki til rekstrarins úr ýmsum opinberum sjóðum og frá Akademíunni (þar sem konan hans var hinum megin borðsins) en Matilda Gustavsson fletti ofan af því að hann er í raun menntaður rafvirki, hann er ekki með stúdentspróf og hefur aldrei gengið í neinn háskóla. Arnault laug alveg botnlaust, bæði um fjölskyldu sína og velgengni í gamla heimalandinu, þar sem ekkert af því fólki sem hann gortaði sig af því að þekkja, kannaðist við hann þegar það var spurt. Í skjóli stöðu sinnar sem eiginmaður valdamikillar kúltúrdrottningar nauðgaði Jean-Claude ungum konum og áreitti kynferðislega á opinberum stöðum og í íbúð sem hann hafði til umráða og er í eigu Akademíunnar. Eiginkonan og fólk sem horfði upp á þetta eða var upplýst um hegðun hans leit í hina áttina eða fannst hann bara sniðugur gaur. Það er varla hægt að segja að maðurinn hafi leikið tveimur skjöldum, þetta var allan tímann býsna augljóst, fólk valdi að loka augunum. Árið 1997 birti dagblaðið Expressen líka grein um að menningarmaður með tengsl inn í Akademíunna hefði verið ásakaður um kynferðislega áreitni, málið var snarlega þaggað og þáverandi ritari Akademíunnar stakk bréfum sem hann fékk frá einu af fórnarlömbum Arnaults undir stól.
Nóbelsverðlaun Peters Handke sett í samhengi |
Það er margt svakalega áhugavert sem kemur fram í Klubben sem ég get ekki hætt að hugsa um. Til dæmis hvernig konurnar sem Arnault misnotaði og nauðgaði ásaka sjálfar sig, hvernig þær sem risu upp og sögðu frá voru sakaðar um lygi og sumar bældu nauðganir og áreitni og héldu áfram að umgangast Arnault, einhverjar gátu hreinlega ekki annað því þær voru í þannig störfum og þannig staðsettar að það var of erfitt að sniðganga hann. Matilda Gustavsson lýsir því líka hvernig margir telja hana vera strengjabrúðu einhverra illra afla, kvenna sem hata karlmenn eða ljóðskálda sem vilja steypa Katarinu Frostenson úr hásæti sænsku ljóðasenunnar. Um síðustu helgi var Matilda í viðtali í sænska bókmenntaþættinum Babel, þar var hún spurð að því hvort ekki hefði verið erfitt að fá Horace Engdahl, sem enn ver vin sinn þrátt fyrir nauðgunardóm, í viðtal en hún sagði að svo hefði ekki verið. Hann er svo sannfærður um að hún sé bara einhver stelpa sem er verkfæri vondra öfgafeminista sem hata menningarkarla og Katarinu Frostenson og þess vegna fannst honum allt í lagi að tala við hana. Engdahl flutti fjögurra tíma eintal fyrir Matildu (samtöl hans eru oft eintöl) þar sem hann sagðist auðvitað vita að öfundarkonur væru að nota hana til að ausa skít yfir vandað menningarfólk. Katarina Frostenson, sem hefur verið viðstödd þegar maðurinn hennar hefur áreitt konur, lýsir því líka blákalt yfir að hann sé fórnarlamb rasisma (hann er franskur gyðingur) og góður maður.
Bókabloggarinn talar við Frostenson í Norræna húsinu fyrir nokkrum árum |
Það er svo margt sem hægt er að segja um þetta mál og ég á eftir að hugsa mikið um það sem stendur í Klubben næstu daga. Það er líka óhjákvæmilegt eftir lesturinn að bera menningarkima Svíþjóðar saman við menningarkima Íslands og velta fyrir sér hvort og þá hvað sé sameiginlegt og ólíkt í löndunum. Bókin kemur út á ensku fljótlega (ef hún er ekki þegar komin út) og örugglega á fleiri málum í kjölfarið, ég mæli gríðarlega mikið með henni.
2 ummæli:
شركة تنظيف منازل بالدمام
شركة تنظيف سجاد وموكيت بالدمام
شركة تنظيف الخزانات بالدمام
شركة رش مبيدات بالدمام
شركة مكافحة حشرات بالدمام
شركة تنظيف واجهات زجاج بالرياض
شركة تنظيف واجهات بالرياض
تنظيف واجهات زجاج بالرياض
Skrifa ummæli