8. mars 2019

Endalokin og ástin á lífríki jarðar

Í tilefni þess að þriðja loftslagsverkfallið fór fram á Austurvelli fyrr í dag datt mér í hug að það væri upplagt að henda í blogg um eina eftirminnilegustu bókina sem ég las á síðasta ári, sænsku unglingabókina Slutet (sem þýða mætti sem Endalokin) eftir Mats Strandberg. Mats er íslenskum unglingabókaaðdáendum að góðu kunnur frá því hann skrifaði Cirkeln-þríleikinn ásamt Söru Bergmark Elfgren. Fyrstu bækurnar tvær, Hringurinn og Eldur, komu út í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur en þriðja bókin, sem hefði með öllu réttu átt að heita Lykillinn á íslensku, var því miður aldrei gefin út. (Spældum bendi ég á að bókin er til í enskri þýðingu sem er hægt að fá lánaða á Borgarbókasafninu eða kaupa á Amazon.)

Slutet segir frá síðustu vikunum í lífi unglinganna Simonar og Lucindu en þau segja söguna til skiptis. Formáli hennar gerist síðla vors þegar þær fréttir berast að hinn gríðarstóri loftsteinn Foxworth stefni á jörðina, muni lenda á henni á tilteknum degi í byrjun hausts og eyða þar öllu lífi á örfáum mínútum. Hin eiginlega saga hefst svo þegar það eru 4 vikur og 5 dagar í heimsendi. Kærasta Simonar, Tilda, hefur sagt honum upp þar sem hún vill ekki vera í sambandi þessa síðustu mánuði og hann er í ástarsorg. Milli þess sem við fylgjumst með villtu líferni Simonar, sem fer eins og flestir aðrir unglingar í partý öll kvöld, lesum við skilaboð sem Lucinda sendir út í geiminn í gegnum appið #TellUs, forrit sem var sett upp í von um að einhvern tímann í framtíðinni verði til einhverjar lífverur sem muni uppgötva skilaboðin og geti þannig fræðst um lífið fyrir Foxworth.



Þegar um 4 vikur eru í heimsendi hverfur Tilda og finnst síðar látin með áverka á höfði sem benda til þess að hún hafi verið myrt. Þar sem fæstar samfélagsstofnanir virka á þessum tíma – það vilja jú fáir eyða vikunum áður en heimurinn ferst í vinnunni – þykir ólíklegt að það náist að upplýsa málið. Grunur beinist þó að Simoni enda var hann bæði sá sem hafði síðast séð Tildu og þykir hafa haft ástæðu til að drepa hana þar sem hún eldurgalt ekki ást hans. Flestir í bænum snúast gegn honum, vinir hans þar á meðal, og ásakanir í hans garð flæða um samfélagsmiðla. Simon sér fljótlega að hann verði sjálfur að leysa gátuna til að hreinsa nafn sitt. Þegar leiðir hans og Lucindu, gamallar vinkonu Tildu, liggja óvænt saman ákveður hún að taka þátt í leit hans að sannleikanum.

Í raun má skipta frásögninni upp í tvennt. Annars vegar er það glæpasagan um hver hafi myrt Tildu og hins vegar rammafrásögnin um yfirvofandi endalok heimsins. Glæpasagan er því miður ekki nógu vel unnin. Hún er allt of einföld og plottið minnir á köflum meira á söguþráðinn í bók fyrir 10–12 ára. Simon og Lucinda fara og tala við fólk og allir gefa þeim upplýsingar nokkurn veginn mótstöðulaust. Þannig púsla þau saman nýrri mynd af lífi Tildu og komast að ýmsu um hana sem þau ekki vissu áður – sem reynist þó á endanum ekki hafa neitt með dauða hennar að gera. Að lokum kemur lausnin upp í hendurnar á þeim á algjörlega átakalausan hátt og án nokkurrar spennu. Í þessum hluta sögunnar þvælist frásagnarformið líka svolítið fyrir. Sögumennirnir, Simon og Lucinda, eyða þarna miklum tíma saman og eru því oft að segja frá sömu atburðum sem verður dálítið endurtekningasamt og þreytandi.

Rammafrásögnin er aftur á móti afar vel unnin og áhrifarík. Þar er dregin upp sannfærandi mynd af samfélagi í upplausn og lífi á heljarþröm þrátt fyrir að tæknilega sé allt eins og áður, sólin skíni og fuglarnir syngi. Í gegnum þennan hluta sögunnar er varpað fram mikilvægum spurningum um tilgang lífsins og hvers virði lífið sé þegar við munum hvort eð er öll deyja. Um leið er þessi hluti líka alveg skelfilegur aflestrar og ég ímynda mér að fleiri en ég upplifi djúpstæðan kvíða við að lesa um yfirvofandi heimsendi þar sem allir einstaklingar á jörðinni vita nákvæmlega hvaða dag og jafnvel klukkan hvað þeir muni deyja.

Hugtakið cli-fi kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2013 en það er notað yfir þær bækur sem fjalla með einhverjum hætti um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Eins og glöggir átta sig sjálfsagt á er það samsett úr orðunum climate (loftslag) og sci-fi (vísindaskáldsaga). Sennilega er einfaldast að tala bara um loftslagsbókmenntir á íslensku – þótt mér hafi reyndar fundist ég ógeðslega sniðug þegar ég bjó til þýðinguna hlýsindaskáldsaga (hlýnun jarðar + vísindaskáldsaga). Samkvæmt skilgreiningunni er Slutet ekki loftslagsbók því það er alveg ljóst að loftsteinninn Foxworth er ekki á nokkurn hátt á ábyrgð mannkynsins. Engu að síður dylst sennilega fæstum lesendum bókarinnar að markmið hennar er að endurspegla umræðuna um hlýnun jarðar. Það er reyndar bara einu sinni minnst á loftslagsbreytingar í bókinni en þá á svo áhrifamikinn hátt að sjálf upplifði ég það eins og blauta tusku í andlitið. Þar segir (í lauslegri þýðingu undirritaðrar):

„Plánetan okkar er í betra ásigkomulagi núna en hún hefur lengi verið. Við erum hætt að senda mat og hluti yfir jörðina þvera og endilanga. Verksmiðjum sem heimtuðu orku og ældu út mengun [...] hefur verið lokað. Við erum hætt að fljúga og keyrum bíl sjaldnar, notum bara brotabrot af því rafmagni sem við þörfnuðumst áður.

Við hefðum kannski getað bjargað umhverfinu ef við hefðum gert þetta fyrr.

Það sem þurfti til var sem sagt loftsteinn.“ (s. 126)

Mats Strandberg hefur sjálfur útskýrt að bókin hafi verið hans leið til að takast á við loftslagskvíða. Í viðtali við tímaritið Metro sagði hann meðal annars: „Vandinn við loftslagsvána er að hún er svo abstrakt og stór og ferlið tekur svo langan tíma. Það er auðvelt að loka augunum fyrir henni. Ég vildi gera hugsunina um endalok heimsins áþreifanlega.“

Ég held að það sé óhætt að segja að það hafi heppnast. Sjálfri hefur mér alla vega aldrei liðið svona illa af að lesa bók og ég var oft ekki alveg viss um að ég myndi komast í gegnum hana. Eftir að hafa lesið lokakaflann – sem endar á því að Simon, Lucinda og fjöldi annarra bæjarbúa ganga út úr kirkjunni eftir næturlanga samveru, út í hvíta birtuna frá loftsteininum, og bíða þess sem verða vill – þurfti ég fyrst að liggja í svona hálftíma uppi í rúmi og gráta og svo að fara í langan göngutúr til að reyna að hreinsa hugann og minna mig á að í raunveruleikanum stefndi enginn loftsteinn á jörðina. Mesta óhugnaðinn hristi ég af mér á nokkrum dögum en ýmsar aðrar tilfinningar sitja enn eftir nú nokkrum mánuðum síðar. Eftir að ég las Slutet hef ég nefnilega verið gagntekin af ást á jörðinni, á öllum dýrunum sem hér búa, plöntunum sem spretta að því er virðist af sjálfu sér, öllum þessum ótrúlegu vistkerfum sem eru undirstaða alls lífs á þessari stórfenglegu plánetu. Ég áttaði mig nefnilega á því þegar ég las bókina að minn eigin dauði er í raun afskaplega ómerkilegur í hinu stóra samhengi hlutanna. Og kannski eigum við, þetta gráðuga, skammsýna mannkyn, ekkert betra skilið en að þurrkast út. En ekkert dýr og engin planta verðskuldar þau örlög. Hvalirnir eiga skilið að fá að halda áfram að hringsóla um höfin, býflugurnar að flögra suðandi milli blóma með frjókorn á loðnu bakinu og sveppirnir að teygja hatta sína upp úr skógarbotninum. Það skiptir öllu máli.

Við erum svo ótrúlega heppin að það skuli ekki loftsteinn stefna á jörðina, að við höfum í raun og veru nokkur ár til að afstýra því stórslysi sem frekari hlýnun jarðar mun valda. Getum við plís bara reddað þessu?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bókin er væntanleg á íslensku í haust.