Fyrir sex árum síðan (ó, hvað tíminn flýgur) las ég og bloggaði hér um ævisögu sem hefur orðið mér óvenju eftirminnileg: Secret Historian. The Life and Times of Samuel Steward, Professor, Tattoo Artist, and Sexual Renegade eftir Justin Spring. Fyrir manneskju sem er veik fyrir bókmenntasögu, hinsegin sögu, skráningarsögu, klámsögu, húðflúrum og trega er Samuel Steward ómótstæðileg týpa; þessi maður sem var víðlesinn bókmenntaprófessor í Ohio og Chicago, gerðist svo húðflúrlistamaður á vesturströndinni, stundaði mikið kynlíf með mörgum mönnum og hélt því öllu til haga í sérstakri spjaldskrá sem kynlífsrannsakandinn Kinsey tók fagnandi (gott ef hann fékk ekki að vera fluga á vegg í einhverjum orgíum líka), og fór svo á endanum að skrifa hommaklám undir hinu lærða grískættaða höfundarnafni Phil Andros (philia = ást, andro = karlmaður).
Ég náði mér í nokkrar bækur eftir Phil Andros í Samtökunum ´78 í fyrra, þegar verið var að selja bækur af bókasafni félagsins sem var leyst upp árið 2014. Stór hluti safnsins er hins vegar kominn á Borgarbókasafn Reykjavíkur og uppi á 2. hæð á aðalsafninu í Grófinni er sérmerkt hilla með fjölbreyttu úrvali hinsegin bóka. Fyrir tveimur vikum sá ég þar aðra bók eftir sama höfund – reyndar undir sínu rétta nafni, Samuel Steward – sem erfitt var að taka ekki eftir, svo gul er kápan og titillinn æpandi: MURDER IS MURDER IS MURDER. Hvaða bók var þetta? Jú, að sjálfsögðu var það leynilögreglusaga með Gertrude Stein í aðalhlutverki.