Sýnir færslur með efnisorðinu Boxarinn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Boxarinn. Sýna allar færslur

9. nóvember 2012

Saga föður

Nýlega las ég bókina Að endingu eftir Julian Barnes, skáldsögu sem býður upp á vangaveltur um minningar. Þar neyðist eldri maður, Tony, til að rifja upp atburði sem gerðust þegar hann var um tvítugt og hann veltir því fyrir sér hvort hann muni í raun allt sem átti sér stað, hann reynir að lesa í hegðun fólks sem sagði eða gerði eitthvað einhvern tíma fyrir löngu, túlkar það sem gerðist og veltir fyrir sér hvaða minningar séu hugsanlega uppspuni og hver raunveruleikinn sé. Eftir lesturinn veltir maður því fyrir sér hvort Tony dragi virkilega réttar ályktanir, hvort hann sé kannski að fegra eigin gjörðir og hvað hafi í raun átt sér stað.

Það fór vel á því að lesa nýja sögu Úlfars Þormóðssonar, Boxarann, rétt á eftir verðlaunabók Julian Barnes. Þær eru nefnilega hliðstæðar að því leyti að óljós fortíð er rifjuð upp og í báðum bókum má finna launbörn og vangaveltur um atburði sem eru þannig að síður en svo er augljóst hvort þeir hafi í raun gerst eins og flestir virðast halda, eins og sagt er frá þeim, já eða hvort menn rámi í eitthvað sem í raun gerðist einhvern veginn allt öðruvísi en talið er.

Í bók Úlfars er rifjað upp lífshlaup látins föður sem var rótlaus og margbrotinn maður sem sagði aldrei mikið frá sjálfum sér og nánustu ættingjum sínum, suma minntist hann bókstaflega aldrei á eða að hann hliðraði augljóslega atburðum. Púslað er upp í myndina með uppflettingum í ýmsar heimildir, sögusagnir eru rifjaðar upp og myndir skoðaðar. Undirtitill bókarinnar er „Saga“ - orð sem bendir til þess að höfundurinn telji sig ekki endilega vera að segja blákaldan sannleikann. Sannleiksleit er líklega nothæft hugtak; þarna er maður sem leitar sannleikans um föður sinn. Á þessari síðu hefur áður verið skrifað um sænskar pabbabækur en dánir og drykkfelldir feður  eru viðfangsefni þeirrar bókmenntagreinar. Nú sýnist mér sem þessi grein bókmenntanna sé komin til Íslands, Boxara Úlfars mætti vel flokka með pabbabókmenntum.