10. mars 2012

Léttir?

Í haust sótti ég námskeið þar sem verið var að fjalla um vændi og afleiðingar þess. Í fyrirlestri einum fjallaði þekktur íslenskur femínisti um sálarástand kvenna sem stunda vændi og lagði áherslu á að ekki þurfi að minna vændiskonur á skömmina sem vændinu fylgir og hún notaði samlíkingu við of feitar konur, eins og hún orðaði það. Konur sem eru of feitar vita nefnilega alveg að þær eru of feitar, það þarf ekki að minna þær á það og auka þannig við niðurlægingu þeirra.

Mér þótti þetta heldur ankannanleg samlíking, ekki síst í þessu samhengi,  en það er í raun stórmerkilegt hversu lítið hefur verið rætt um fordóma í garð feitra í feminísku samhengi hér á landi, þeir birtast á ólíklegustu stöðum, samanber þetta útspil femínistans. Og þessi samlíking kom upp í hugann þegar ég las nýútkomna bók eftir Jónínu Leósdóttur. Bókin heitir Léttir, og í henni birtast dagbókarskrif höfundarins á eins árs tímabili. Hún ákveður að fara í megrun og það ekki í fyrsta sinn, hún kallar sig harmónikkukonu, en slíkar konur léttast og þyngjast á víxl. Hún hefur sett sér markmið, ætlar að léttast um ákveðinn kílóafjölda og ákveður að fylgja átakinu eftir með skrifum, hún nóterar hjá sér ýmsar upplýsingar um offitu og átraskanir sem birtast í fjölmiðlum á tímabilinu og segir frá ýmsum misgáfulegum megrunarráðum sem hún fréttir af og tekur stundum afstöðu til þeirra, annaðhvort í gríni eða í alvöru.


Þess á milli birtast svo upplýsingar um þann kílóafjölda sem fokinn er en Jónína fylgist afar náið með vigtinni, ekki verður betur séð en hún vigti sig nánast daglega. Einnig fylgjast lesendur með breyttum fatastærðum, einstaka mataruppskrift fylgir með og ýmsar aðrar upplýsingar einnig. Bókin kynnir ekki til sögunnar ákveðinn megrunarkúr heldur er tilgangur hennar að styðja aðra sem eru í sömu sporum, ef ég skil hann rétt.

Það er greinilegt að Jónína hefur liðið töluvert fyrir útlit sitt, hún lýsir því oft hversu erfitt henni finnst að horfa á eigin líkama. Og hún telur einnig að aðrir feitir hljóti að hafa sömu tilfinningar gagnvart eigin útliti þó að afneitun sé algeng í þessu sambandi:

„Án þess að ég geti fært fyrir því vísindaleg rök held ég að fólk í yfirþyngd sé oft — kannski oftast — í ákveðinni afneitum gagnvart því hvernig það lítur út. Ég hef fundið þetta á sjálfri mér. Sérstaklega þegar ég hef verið á uppleið“. Þá verður hreinlega of sárt að horfast í augu við stöðuna. Dularfull móða færist því ósjálfrátt yfir augun þegar litið er í spegil. (Það er að segja þá sjaldan að það er gert!) Sjálf er ég líka sérfræðingur í að soga inn slatta af undirhökum — og að sjálfsögðu magann — þegar ég stend frammi fyrir spegli. Síðan er öllu draslinu sleppt lausu þegar ég neyðist ekki lengur til að horfa upp á sjálfa mig.“ (bls 31-32)

 Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Það er auðvitað hægt að vera of þungur og það er hægt að vera of léttur, það er hægt að borða of mikið, of lítið, of óhollan mat, of einhæfan, það er hægt að hreyfa sig of lítið og of mikið, það er hægt að gera rangar og óhentugar hreyfingar. Og maður getur verið sáttur við sjálfan sig eða ósáttur, maður getur fyrirlitið sjálfan sig eða verið stoltur af sjálfum sér, allt hefur þetta eitthvað með okkar eigin ákvarðanir að gera.

Það er ekkert einfalt í þessum efnum. Eins og Jónína bendir á segja sumar rannsóknir okkur að offita sé stórhættuleg en aðrar segja að svo sé ekki. Jónína bendir á nokkurn fjölda rannsókna í þessari bók en flestar rannsóknirnar sem hún vitnar til eru gerðar á vegum tísku- eða líkamsræktartímarita og persónulega finnst mér rannsóknir sem birtast í tímaritum sem beinlínis hafa tekjur sínar af líkamsfixeringum ekkert sérlega traustvekjandi. Allir geta eflaust verið sammála um gildi heilbrigðs lífernis, hollt og fjölbreytt mataræði er mikilvægt og það er hreyfing líka. En hinsvegar get ég ekki séð að sjálfshatrið og minnimáttarkenndin sem birtist í þessari bók sé nokkurri manneskju hollt veganesti og allra síst feitu fólki sem þarf margt að takast á við fordóma, eins og reyndar er bent á í bókinni.

Það er nefnilega bent á ýmislegt í þessari bók en það er hending hvort höfundurinn tengir hinar ýmsu rannsóknir og ráð við eigin vegferð. Hún veltir til dæmis fyrir sér hvort að ástæður fyrir ofáti geti verið sálrænar og kemst að því að svo geti verið og finnur dæmi úr eigin lífi þar sem hún tekst á við svik og trúnaðarbrest með ofáti. En svo er ekkert fjallað meira um það og maður veltir fyrir sér hvort hún sé raunverulega að takast á við sín vandamál.

Þetta virðist nefnilega allt snúast um viktina, buxnastærðir, hitaeiningar, kjörþyngd, BMI stuðul, ástand og umfang undirhökunnar en vangaveltur um ýmislegt í þessum dúr taka að skyggja á heilsuumfjöllun þegar líður á bókina. Í upphafi er ýjað að því að einhver möguleg heilsufarsvandamál höfundarins megi tengja yfirþyngd en sú umræða rennur út í sandinn og enginn botn fæst í það. Dagbókarfærslunar verða endurtekningarsamar í meira lagi og stíllinn einkennist líka af ákveðinni klifun, eiginkona Jónínu er alltaf kölluð
betri helmingurinn“, feitt fólk er nánast alltaf kallað fitubollur“ og verður þetta leiðigjarnt til lengdar, á líklegast að vera fyndið en virkaði ekki fyrir mig.

Það er eins og höfundurinn taki ekki á nokkrum sköpuðum hlut í þessari bók og því veltir maður fyrir sér tilgangi hennar. Jónína léttist vissulega en það er ekkert sem gefur til kynna að neitt hafi í raun breyst. Sjálf bendir Jónína á í fyrstu málsgrein bókarinnar að kjörþyngd sé ekki lykillinn að lífshamingju en hér er komin ein af fjölmörgum mótsögnum í þessu verki því að kjörþyngdin virðist einmitt skipta öllu máli fyrir líkamlega og andlega heilsu. Vissulega fjallar bókin ekki um önnur svið í lífi höfundarins og kannski hefði einmitt verið gott að fá að heyra meira af því í bókinni.

Ég verð að viðurkenna að ég fylltist fyrst og fremst sorg yfir lestri þessarar bókar og sum viðhorfin eru beinlínis óhugnanleg. Í saumaklúbb Jónínu berst talið að könnun sem bendir til þess að 20% barna telji að þau séu of feit.
En getur ekki verið að þetta sé bláköld staðreynd og að flestir af þessum krökkum séu hreinlega of feitir? Og er þá ekki betra að börnin séu meðvituð um stöðuna fremur en að þau lifi í sjálfsblekkingu?“ (bls. 146). Hvað er verið að segja hér? Að börn eigi að hafa áhyggjur af eigin útliti og fyllast minnimáttarkennd og sjálfshatri, rétt eins og Jónína sjálf? Eflaust ekki, en hér hefði tilgangurinn mátt vera miklu skýrari.

Einnig er sláandi hvernig Jónínu tekst að skauta framhjá knýjandi spurningum um átröskun sem koma óneitanlega upp í hugann við lestur þessarar bókar:
Það er eflaust hárrétt að tengsl séu milli átröskunarsjúkdóma og umræðu um offitu. Ég held þó að ýmsir aðrir áhrifavaldar komi einnig við sögu. En þetta er fremur flókið og vandmeðfarið, eins og svo margt annað í veröldinni. Ekki er hægt að snarhætta að tala um offitu – ástand sem dregur eflaust fleiri til dauða en átröskun“ (bls. 116).  Þetta segir auðvitað nákvæmlega ekki neitt en kaloríu- og kílóafjölda áráttur, eins og þær sem birtast í þessari bók, eru oft undanfari alvarlegra átröskunarsjúkdóma, það vita allir sem lent hafa í slíku.

Jónína Leósdóttir hefur skrifað margar ágætar bækur, bæði fyrir unglinga og fullorðna, sem vafalaust hafa ekki allar notið þeirrar athygli sem þær eiga skilið og því er athyglisvert að einmitt þessi bók skuli fá mun meiri athygli en bækur hennar til þessa, ég get að minnsta kosti ekki betur séð. En hér hefði þurft miklu betri ritstjórn, meiri yfirlegu og mér finnst hreinlega vanta ábyrgðartilfinningu í þessi skrif, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Það fylgir nefnilega mikil ábyrgð þeirri staðhæfingu að þeir sem séu feitir og jafnframt ánægðir með sig og sitt líf hljóti að vera haldnir sjálfsblekkingu á háu stigi. Það er gott að tala fyrir bættri heilsu en hana öðlast maður seint ef maður fyrirlítur sjálfan sig.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er þetta ekki svolítill oflestur á þessari bók sem er bara hugleiðingar konu í megrun um megrunina? Ég tók henni allavega þannig og finnst skorta skilning í þessum pistli.
Ég var ósammála sumu í bókinni en sammála öðru, bara eins og gengur. Var t.d. ósammála höfundi að kalla það meðvirkni þegar fólk af kurteisi sinni minntist ekki á það við höfund þegar hún hafði fitnað (eins og hún vissi það ekki sjálf). En mér fannst þetta ágæt bók og skrifuð af einlægni og hugrekki.

Margrét sagði...

Ég hef lesið nokkrar bækur eftir Jónínu og líkað ágætlega, en þessari ætla ég að sneiða hjá. Ég er nefnilega viss um að sjálfsfyrirlitning er mun óhollari fyrir bæði líkama og sál heldur en offita nokkurn tíma.