7. janúar 2010

Margt skrítið í kýrhausnum...

bok_handbok_um_hugarfar_kuaMilli jóla og nýárs rak á fjörur mínar Handbók um hugarfar kúa eftir Bergsvein Birgisson. Þar fléttar höfundar saman persónulegri sögu ungs manns sem kemur heim úr námi erlendis frá og sögu kýrinnar í sögulegu samhengi. Gestur, sem er nýbakaður doktor í menningarfræðum, fær nefnilega ekkert að gera við sitt hæfi í markaðsbrjálæði hins íslenska nútíma og tekur því að sér að skrifa handrit að heimildarmynd sem Bændasamtökin ætla að gera um íslensku kúna. Við lesum sögu doktorsins samfara því sem við lesum skrif hans um kúna og frásagnirnar fléttast saman þar til saga doktorsins er orðin saga kýrinnar...eða öfugt.

Hugmyndin er frumleg og skemmtileg og margt tekst ágætlega - á köflum er bókin mjög fyndin og varpar fram áhugaverðum spurningum um tengsl kýrinnar við mannkynið - menningu þess og trúarbrögð. Höfundur teygir sig langt í lýsingum á kúm Íslandssögunnar og ég gat ekki annað en fylgt honum eftir - frá heiðnum og heilögum kúm á landnámstímum að hinni óhugnanlegu hormónakú nútímans (sem í mjólkurbúslegu samhengi hófst að sjálfsögðu með gerilsneyðingunni!) Hér er á ferðinni skemmtileg söguskýring og hreinlega lýsing á þróun menningarsögu Íslendinga samfara breytingum í ræktun kúa.

En bókin er líka saga Gests og veraldleg og andleg vandræði hans taka heilmikið pláss og þar dapraðist stundum áhugi minn. Hinn skemmtilegi texti um kýrnar er þá nýttur til að sýna vaxandi geðsýki hans og verður um leið þyngri aflestrar - því það er erfitt að fylgja manni í maníukasti. Þessi saga Gests náði því miður ekki að grípa mig á sama hátt og vangavelturnar um kýrnar, en það segir kannski meira um mig en bókina að mér tókst aldrei almennilega að gíra upp samúð með aðalsöguhetjunni - mér fannst kýrnar hreinlega áhugaverðari.

Hvað sem því líður þá er ég eftir lestur bókarinnar gjörsamlega á þeirri skoðun að íslensku kýrnar (sem reynast sem betur fer ekki vera hreinræktaðari en hin en margblandaða íslenska þjóð) verði að vernda fyrir innflutningi hormónabættra fósturvísa. Doktornum tókst að sannfæra mig um að það yrði mögulega endir á mennsku okkar og menningu!

Maríanna Clara

Engin ummæli: