19. febrúar 2011

Ylur útí hversdaginn

Þar eð seint ku vera betra en aldrei dreif ég loks í að skrifa um Síðdegi, níundu ljóðabók Vilborgar Dagbjartsdóttur, sem einhverntímann fyrir ekki svo alltof löngu síðan hefði mátt skoðast hér sem jólabókarfærsla - en, og enda er það einn hinna áþreifanlegri efnisþráða bókarinnar: tíminn líður.

Síðdegi olli mér engum vonbrigðum og staðfesti Vilborgu jafnvel enn frekar í þeim uppáhaldsessi sem ég hef haldið hana síðan hún kenndi mér í Austurbæjarskólanum í fjórða bekk (en námsgreinin sú nefndist einfaldlega „Ljóð“ í stundaskránni). Eins og oft áður eru konur henni hugleikið yrkisefni, einnig náttúran og á stundum þetta tvennt samfléttað: fyrsta ljóðið er helgað fjallkonum af ýmsum toga, í öðru er hauströkkrið persónugert í líki „gamallar ömmu“, þ.e. frá gömlum tíma, stígandi rokkinn taktfast í horni sínu. Í ljóðinu „Furða“ má greina bergmál af ljóði Ingibjargar Haraldsdóttur, „Kona“ - þar ráða karlar ráðum sínum í reykmettuðum vistarverum en skortir sýn á konurnar í bakgrunninum, þótt þeir hafi löngu vanist óskýrri heildarmynd þess sama bakgrunns og gætu síst án hans verið.
Einnig er málfræðispekúlerað í ástamál Laxdælu (var Guðrún „þeim“ verst í ein- eða fleirtölu?).

Þetta er bók um lífið og undrin, bernskuna og ellina, fjöllin fyrir austan og sorgina sem safnast upp á lífsleið en einnig þá sátt sem finna má og er nauðsyn meðfram sorginni, og sem höfundi virðist sjálfri hafa ratast á. Bókin er fyrirferðarlítil, 55 síður. Ljóðin, mörg hver, eru sömuleiðis af því taginu að láta lítið yfir sér, en ná samt alltaf nægilega djúpt. Einstaklega notaleg lesning á Þorraþræl og hvenær annars sem þörf kann að vera á smávegis auka yl útí hversdaginn.

Erla

Engin ummæli: