1. apríl 2011

Línudans í Sovétkerfinu

Mig langar til þess að hoppa á vagn þessara skyndilegu afkasta Druslubókakvenda og mæla með ofsalega fínni bók sem ég las fyrir tæpum mánuði. Hún heitir Málamiðlunin, The Compromise í ensku þýðingunni sem ég las, en titilinn kann ég ekki að hafa yfir á upprunalega málinu; hún er eftir rússneska höfundinn Sergei Dovlatov (fæddur 1941, dáinn 1990).

Sögumaður bókarinnar er samnefndur höfundi, blaðamaðurinn Sergei Dovlatov sem vinnur á dagblaði í Tallinn á Sovéttímanum. Hver kafli fjallar um eitt verkefni sem Dovlatov fær í hendurnar og titillinn á bókinni er viðeigandi; sögurnar lýsa ekki síst sífelldum málamiðlunum blaðamannsins, línudansi hans við allar þær fáránlegu aðstæður sem sovétkerfið býður upp á. Einn fyndnasti kafli bókarinnar segir til dæmis frá því þegar stjórnvöld ákveða að fjögurhundruðasti íbúi Tallinn muni fæðast á ákveðnum degi og Dovlatov er sendur á sjúkrahúsið til að finna heppilegan fjögurhundruðasta íbúa. Barn og foreldrar verða auðvitað að vera flekklausir þegnar, sem reynist þrautin þyngri að finna, og þegar Dovlatov loksins dettur niður á hentugt barn (eftir að hafa bandað frá sér einu gyðingabarni og einu sem átti þeldökkan föður) þarf hann að reyna að sannfæra nýbakaða föðurinn um að varpa fyrir róða nafninu sem foreldrarnir höfðu valið á soninn en velja annað og þjóðlegra í staðinn. Í þeim tilgangi fer hann að sjálfsögðu með pabbann á barinn og hellir í hann vodka, sem er ekki óalgeng niðurstaða í sögunum, þar sem fólk bregst ósjaldan við þrúgandi aðstæðum sínum með því að verða dauðadrukkið.

Allur þessi stofnanabundni fáránleiki, hræsni og tvöfeldni hins daglega lífs innan kerfisins og sú passíva vodkaþrungna þrjóska sem blaðamaðurinn ræktar með sér eru auðvitað tragikómísk, en bókarhöfundurinn dansar þann línudans mjög fimlega og tónninn er alveg ómóralskur. Stíllinn er blátt áfram og látlaus en hittir naglann alltaf á höfuðið og bókin er mjög fyndin og skemmtileg þrátt fyrir andlega niðurdrepandi aðstæður sögumannsins.

Þess má geta, ef einhver hugsjónaútgefandi les þessa færslu og ákveður í uppljómun sinni að það sé kominn tími til að Sergei Dovlatov verði gefinn út á íslensku, að nær tilbúin þýðing á annarri skáldsögu eftir hann, Ferðatöskunni, er til á íslensku óútgefin, gerð af einum fremsta Dovlatov-aðdáanda landsins, sem lánaði mér einmitt Málamiðlunina. Ég segi eins og sagt er á er.is: „Ef þú hefur áhuga, sendu mér skiló.“ Þess má einnig geta, fyrir óbreytta áhugasama lesendur, að bæði Málamiðlunin og Ferðataskan eru til í enskri þýðingu á Þjóðarbókhlöðunni.

Kristín Svava

Engin ummæli: