1. september 2011

Þrúgandi bú(k)sorgir Anniku Bengtzon

Ég las einhvern tímann reyfara eftir Lizu Marklund, ætli ég hafi ekki verið svona fimmtán ára, og var vægast sagt lítið hrifin. Ég man ekkert hvaða bók þetta var en ég man að hún fjallaði um Anniku Bengtzon, aðalsöguhetju Marklund, og að það sem fór einna mest í taugarnar á mér voru endalausar grafískar lýsingar á líkamlegu ástandi söguhetjunnar. Það lak af henni svitinn (niður mjóbakið, blússan klístraðist við hana, dökkir blettir stækkuðu í handarkrikunum, hana klæjaði undan), hún var á túr (bleytan nuddaðist í klofinu á henni, það komu blettir í nærbuxurnar, hún fann fyrir nístandi verk í kviðnum), hún veiktist (ógleðin þrýsti matnum upp í kokið á henni, höfuðið á henni var að springa, horið lak stöðugt úr nefinu á henni svo sár mynduðust undan), og svo framvegis og svo framvegis. Þetta var meðan ég las aðallega þær próper og platónsku konur Agöthu Christie og P.D. James, og búksorgir Anniku Bengtzon fóru ekki vel í mig. Síðan þá hefur þol mitt gagnvart slíku smáaukist, enda sökkti ég mér á tímabili í Henning Mankell og það er nú ekki laust við að lögreglumaðurinn Kurt Wallander svitni stöðugt og finni kransæðarnar stíflast hægt.

Ég gerði aðra atrennu að Lizu Marklund á dögunum og það enga smá atrennu: ég las þrjár bækur eftir hana. Það tók mig reyndar töluverðan tíma því ég nennti ekki að lesa þær öðruvísi en á klósettinu. Það gefur nokkra vísbendingu um það hversu spennandi mér þóttu þær: ekki mjög. Ég lauk samt þremur, það er ekki hægt að líta framhjá því. Þær heita Stúdíó Sex, Sprengivargurinn og Paradís. Ég held að ég hafi lesið þær í réttri útgáfuröð en ekki réttri tímaröð í lífi Anniku Bengtzon, þar hoppar Marklund fram og til baka.

Fyrsta bókin sem ég las er Stúdíó Sex. Í henni er Annika flúin frá heimabæ sínum, þunglyndislegum gömlum iðnaðarbæ þar sem Sven kærastinn hennar býr enn, og er nýráðin sumarafleysingjamanneskja á Kvöldblaðinu í Stokkhólmi, þegar morðmál kemur upp. Ung stelpa sem starfaði sem strippari er myrt í kirkjugarði. Ráðherra í stjórn jafnaðarmanna er grunaður um morðið – gæti þetta verið öllu sænskara? – en ýmislegt bendir til þess að kærasti hinnar myrtu hafi eitthvað óhreint í pokahorninu. Annika flækist í málið á persónulegan hátt, fer meira að segja að vinna á strippstaðnum sjálf og býður fyrrverandi samleigjanda hinnar myrtu að búa hjá sér. Bókin endar með mikilli dramatískri flugeldasýningu þar sem Sven kærasti Anniku deyr á voveiflegan hátt (já, mér er alveg sama þótt ég fletti ofan af því). Þess má geta að bókin gerist að sumarlagi og í henni því góður skammtur af svita, svima og bráðnandi ís sem lekur niður hendurnar og gerir þær klístraðar.

Önnur bókin sem ég las er Sprengivargurinn. Þegar hún gerist er Annika komin með mann, Thomas, sem er fyrirmyndar húsfaðir og búrókrati, og þau eiga tvö lítil börn. Hún er líka orðin hátt sett á Kvöldblaðinu, yfirmaður sakamála ef ég man rétt. Það líður að jólum, þannig að svitinn og sviminn eru ekki til staðar en hins vegar er mjög kalt, það er mikil gæsahúð í gangi, gott ef kuldinn svíður ekki lungun og slabbið bleytir fæturna, svo er auðvelt að skrika fótur á svelli og fá marblett á rassinn sem hægt er að minna á nokkrum sinnum gegnum bókina. Partur af Ólympíuleikvanginum í Stokkhólmi er sprengdur í loft upp og kona nokkur, yfirmaður í nefndinni, með. Annika fer að sjálfsögðu að garfa í málinu og setja sig í bráða lífshættu.
Þriðja bókin er svo Paradís, sem gerist einhvers staðar á milli hinna tveggja. Annika er enn þjökuð eftir dauða Sven, en kynnist í þessari bók Thomasi, sem er reyndar giftur annarri konu (einhvers konar stereótýpísku yfirstéttarsnobbi sem blotnar bara þegar hún raðar servíettum hornrétt á uppdúkað borð hlaðið andalifur og styrjuhrognum). Annika er hálfhornreka á Kvöldblaðinu en fer að rannsaka mál í trássi við vilja samstarfsmanna sinna; hið flóknasta mál sem tengist hjálparstofnanasvindlurum og júgóslavnesku mafíunni, hvorki meira né minna.

Jæja. Eins og áður segir kveiktu þessar bækur ekki beinlínis í mér. Það sem mér þykir athyglisvert við þær er einmitt hversu lítið fer í rauninni fyrir spennusögunum í þeim. Þéttur söguþráður er sannarlega ekki aðalsmerki Lizu Marklund. Þvert á móti er alltaf verið að brjóta upp sakamálaþráðinn – sem er ekkert sérstaklega sannfærandi eða áhugaverður til að byrja með – með frásögnum af einkalífi Anniku Bengtzon. Ég er eiginlega komin með þá tesu (jájá, það er hægt að smíða tesur kringum þrjár Lizu Marklund-bækur) að Lizu Marklund langi miklu meira að vera að skrifa bækur um átakanlega þrúgandi hversdagslíf sænskrar blaðakonu en spennusögur.

Og þar tekst henni í sjálfu sér ekki illa upp. Paradís er að vísu aðeins of fókuseruð á rómantíkina og kynferðislega aðdráttaraflið í upphafi sambands hinnar trámatíseruðu Anniku og hins trausta Thomasar til að teljast átakanleg, en Sprengivargurinn gerði mig beinlínis þunglynda á köflum, svo trúverðugar voru lýsingarnar á grenjandi útslefuðum börnum, kynferðislegri frústrasjón vinnualkanna og endalausri en-hver-á-að-sækja-börnin-á-leikskólann-togstreitu hjónanna. Frekar en að nota frásagnir úr einkalífi Anniku til að raunveruleikabinda ráðgátuna um sprengivarginn – sem þarf vissulega á því að halda, við erum alveg að tala um að morðinginn tekur sér góða stund í lokin til að segja blaðakonunni allt af létta – verður þetta þrúgandi hversdagslíf eiginlega að meginefni bókarinnar. Sem mér finnst næstum því athyglisverð árátta hjá höfundinum.

1 ummæli:

Helga sagði...

Takk fyrir góða umfjöllun. Eru þessar búksorgir Anniku ekki einhvers konar uppfylling á draumum kvenna sem vilja ekkert frekar en verða horaðar en éta bara meira og verða feitari eftir því sem stressið á þeim eykst?