18. janúar 2012

Hlaðvarp Ríkisútvarpsins

Ég fékk þá skyndilegu hugdettu yfir tebollanum að vekja athygli lesenda okkar á hlaðvarpi Ríkisútvarpsins, ef ske kynni að einhverjir hefðu látið það framhjá sér fara. Ég er sjálf mikill unnandi hlaðvarpsins og þeirrar nútímatækni að geta hlustað á það sem ég vil þegar mér hentar, meðal annars vegna þess að þótt mjög margt í útsendingum Ríkisútvarpsins höfði til mín hef ég jafn lítið gaman af öðru sem er vinsælt þar á bæ, þá einkum og sérílagi klassískri tónlist. Ég hef sérstaka unun af því að hlusta á hlaðvarpið meðan ég elda (og af því hvað ég er hægvirk í eldhúsinu kemst ég oft yfir töluvert efni) og þegar ég ligg fyrir í þynnku.

Á hlaðvarpssíðunni er bæði hægt að sækja þætti sem eru í reglulegri dagskrá, til dæmis Seið og hélog, Skorninga og Víðsjá, og þætti sem gerðir hafa verið um afmarkað efni, svo sem aldarminningu um Tolstoj, upplestur á Svartfugli Gunnars Gunnarssonar og frábæran þátt Hauks Ingvarssonar um Maístjörnu Halldórs Laxness, svo fátt eitt sé nefnt. Þótt þeir séu ekki strangt til tekið bókmenntaþættir má ég líka til með að mæla með Drottningu hundadaganna, sem Pétur Gunnarsson gerði, og Prússar: Ris og fall járnríkis, sem Hjálmar Sveinsson gerði.

Þrátt fyrir óþol mitt gagnvart klassískri tónlist verð ég yfirleitt óskaplega þakklát fyrir dagskrárgerðarfólk Ríkisútvarpsins þegar ég slysast inn á aðrar stöðvar. Svona er maður forpokaður, að verða ómótt yfir spjallþáttunum á Bylgjunni og ekki orðinn þrítugur.

Engin ummæli: