19. maí 2012

Hvernig tengjast Vilhjálmur Tell, Jack Lemmon og Bubbi Morthens?

Um síðustu helgi fór ég alla leið til Akureyrar til að kaupa bækur. Nei, annars. En ég var stödd á Akureyri og brá mér á flóamarkað þar sem ég keypti nokkrar bækur á 100 krónur stykkið og ég er hæstánægð með kaupin. Fyrst ber að nefna Síðustu daga móður minnar eftir Sölva Björn Sigurðsson. Þar sem ég hef ekki lesið hana ennþá hef ég svo sem ekkert um hana að segja nema að ég hlakka til að lesa hana. Svo er það Leyndarmál franskrar salatsósu opinberað Íslendingum eftir Héléne Magnússon, sem er ekki síður þekkt fyrir prjónahönnun sína. Ég er búin að fletta henni og líst vel á salatsósurnar. Líklega verð ég að leggjast í salatræktun í sumar til að ná að prófa þær allar. Þjóðsögur frá Eistlandi vakti athygli mína vegna þess að hún er í alveg eins kápu og bók sem ég átti sem krakki sem hét Finnsk ævintýri. Þá bók hélt ég talsvert upp á en veit ekkert hvað varð af henni. Við eftirgrennslan fann ég út að þessar bækur eru báðar gefnar út af Leiftri á 8. áratugnum, íslenskaðar af Sigurjóni Guðjónssyni.Síðasta blómið eftir James Thurber kannast sjálfsagt margir við í hinum ýmsu útfærslum. Thurber (1894-1961), sem var bandarískur skopmyndateiknari og rithöfundur, gaf út myndskreyttu dæmisöguna The Last Flower við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar 1939. Hann tileinkaði hana einkadóttur sinni, Rosemary, „in the wistful hope that her world will be better than mine“. Dæmisagan er stríðsádeila, eða kannski öllu heldur ádeila á tilhneigingu mannanna til að beita aftur og aftur eyðileggingarmætti stríðsins. Hér má skoða bókina á ensku og hér má skoða hana með dramatískri tónlist leikinni undir. Sagan er notuð með svipuðum hætti í kvikmyndinni The War Between Men and Women, sem Jack Lemmon lék í 1972. Sú mynd fjallar um skopmyndateiknara sem missir sjónina og byggir á ævi Thurbers. Thurber fékk ör í annað augað og missti það sem barn þegar hann og bróðir hans voru að leika Vilhjálm Tell (við getum væntanlega dregið þá ályktun að bróðirinn hafi átt að vera Vilhjálmur). Seinna á lífsleiðinni varð hann svo nær alveg blindur.

Íslensk þýðing Magnúsar Ásgeirssonar á Síðasta blóminu er í bundnu máli og textinn veigameiri en á frummálinu. Hún kom fyrst út árið 1946 en útgáfan sem ég náði mér í er frá 1981. Margir muna sjálfsagt eftir uppsetningum leikhópsins Perlunnar á Síðasta blóminu frá níunda og tíunda áratugnum en hér má heyra Utangarðsmenn, með Bubba í fararbroddi, flytja kvæðið á plötunni Í upphafi skyldi endinn skoða frá 1981.

Í fyrra skrifaði ég um bók sem ég hélt upp á sem barn, smásagnasafnið Við Álftavatn eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson. Núna rakst ég á framhaldið sem kom út ári seinna og heitir Um sumarkvöld. 13. október 1940 skrifaði Guðmundur G. Hagalín um þessar bækur í Lesbók Morgunblaðsins:
Jeg hefi nú tekið mig til og lesið þessar bækur á nýjan leik, og sje, að jeg hefi munað rjett: Þeir smá atburðir, sem þarna er frá skýrt, eru mjög lipurt færðir í letur, málið yfirleitt prýðilega gott og viðfeldið og blær heilbrigði og lífstrúar yfir frásögninni. Þá bera og bækurnar vott um góðan dreng og prúðan. Þarna er auðvitað ekki fyrir að fara mikilli list, en þetta eru mjög góðar barnabækur og vel læsilegar fullorðnu fólki. Sje tekið tillit til þess að höfundurinn var barn að aldri, þegar hann skrifaði bækurnar, þá er það hreint og beint furðulegt, hve frásögnin er skipuleg og hugsanasamböndin skýr, og alveg sleppur höfundurinn fram hjá því skeri, sem flestum- unglingum, sem skrifa sögur, vill hætta við að rekast meinlega á: skeri tilgerðar, ofætlunar og eftirhermu. Ólafur Jóhann Sigurðsson er þarna altaf eðlilegur og sníður sjer fyllilega stakk eftir vexti.
Í ritfregn um Um sumarkvöld í Vísi frá 11. september 1935 stendur: „Virðist margt benda til þess, að Ólafur Jóh. Sigurðsson sé efni í ágætan rithöfund. Frásagnarháttur hans er allur með þeim blæ og brag, að full ástæða er til að ætla, að þar sé á ferð höfundur, sem mikils megi af vænta með tíð og tíma. – Er skylt að taka vel slíkum unglingum og greiða götu þeirra eftir föngum.“ Ekki kemur fram hver er höfundur ritfregnarinnar.

Á flóamarkaðnum norðlenska greip mig einhver nostalgía þegar ég sá Krummana eftir Thøger Birkeland (1922-2011). Hún er sú fyrsta í dönskum flokki bóka um drenginn Krumma og hans líflegu fjölskyldu. Þessar bækur las ég spjaldanna á milli um 10 ára aldurinn og þess má geta að eftir þeim hefur verið gerð sjónvarpsmyndasería. Krummabækurnar eru líklega þekktastar bóka Birkelands en eftir hann liggur umtalsverður fjöldi barnabóka.

Best af öllu var þó að ég gat nælt mér í eintak af Má ég eiga hann? (e. Can I Keep Him?) eftir Steven Kellogg. Þessi bók kom út í Bandaríkjunum 1971 og í íslenskri þýðingu Örnólfs Thorlacius 1974. Hún fjallar um strák sem þráir að eignast dýr og spyr mömmu sína hvort hann megi eignast hitt eða þetta dýrið. Ég var mjög hrifin af þessari bók þegar ég var lítil og það hefur ekkert breyst. Myndirnar eru mjög skemmtilegar og eiginlega er besta skemmtunin fólgin í að skoða þær. Það er athyglisvert að mamman er að þrífa á hverri einustu blaðsíðu. Hún er ýmist með tusku á lofti, kúst eða ryksugu. Þegar ég var barn var samúð mín öll með stráknum sem langaði svo að eiga eitthvert dýr. Mig langaði líka alltaf í gæludýr. Sem fullorðin manneskja fyllist ég hins vegar samúð með konugreyinu sem er allan daginn að gera hreint og svo kemur krakkinn og truflar og vill fá eitthvert kvikindi inn á heimilið sem eflaust myndi ata allt út. Og móðirin hefur áhyggjur af mögulegum örlögum sínum og skeytingarleysi sonar og eiginmanns þegar þau eru annars vegar. Myndin á uppáhaldsblaðsíðunni minni í bókinni segir allt sem segja þarf.

1 ummæli:

Kristín Svava sagði...

Hvað er þetta með bandaríska rithöfunda og Vilhjálms Tell-leiki?