30. júní 2012

Hamingjusamir rasistar?

Þegar dönsku framhaldsþættirnir Taxa voru sýndir í danska sjónvarpinu sendi áhorfandi dönsku dagblaði kvörtunarpóst og benti á að þættirnir væru óraunsæir að því leyti að allir leigubílarnir í þáttunum væru af gerðinni Toyota (vegna samninga milli framleiðandans og Toyota-umboðsins) en langflestir leigubílar í Kaupmannahöfn væru í rauninni af gerðinni Mecedes Benz. Þessu velti Lena Sundström, höfundur bókarinnar Världens lyckligaste folk (Hamingjusamasta þjóð í heimi), ekkert fyrir sér þegar hún horfði á þættina, en hins vegar tók hún eftir að 23 af 24 aðalleikurum eru með danskhljómandi nöfn. Hún sjálf segist hins vegar aldrei hafa ekið í leigubíl með bílstjóra með danskt eftirnafn í Kaupmannahöfn þó að hún hafi búið þar þó nokkuð lengi og tekið mjög marga leigubíla.

Ég ólst upp við að lesa danskar bækur og blöð, á frummálinu og í þýðingum. Ég las t.d. bækur Deu Trier Mørch, Vitu Andersen, Susanne Brøgger og fleiri höfunda, hlustaði á danska tónlist og þegar ég kom til Kaupmannahafnar, fyrst 16 ára og svo nokkrum árum síðar til lengri dvalar, fannst mér ég kannast við mig. Ég las dagblöðin, fór í Huset og Kristjaníu og upplifði það sem mér fannst vera frjálslynt land og almennt var gleðin við völd þó að Mogens Glistrup væri stundum í fréttunum. Á meðan ég bjó í Svíþjóð á þarsíðasta og síðasta áratug fór ég ekki oft til Danmerkur og í Svíþjóð heyrði ég aldrei neinar fréttir að ráði frá grannþjóðinni. Á síðustu árum hef ég farið nokkrum sinnum til Danmerkur, ég horfi nokkuð reglulega á danskt sjónvarp og upplifi, eins og margir, Danmörku nútímans sem fremur íhaldssamt land og afskaplega „danskt“, þar sem margir virðast stöðugt óttast að yfir þá flæði hópar af óþjóðalýð og illum múslimum. 

Lenu Sundström, blaða- og sjónvarpskonu og höfundi bókarinnar Världens lyckligaste folk, fannst hún byrjuð að finna fyrir svipuðum útlendingafjandsamlegum straumum á Skáni og hún hafði áður greint í Danmörku. Hún velti því fyrir sér hvort Svíþjóð væri á sömu pólitísku leið og Danmörk og ákvað að kanna málið á eigin spýtur. Lena fannst á víðavangi í Kóreu árið 1972 og var ættleidd til Svíþjóðar. Hún er menntuð í Svíþjóð og Danmörku. Bókin kom út 2009 og var tilnefnd til Augustverðlaunanna og fékk nokkur blaðamannaverðlaun. Og það er líka komin mynd.


Lena leigði sér íbúð á Nørrebro og kafaði í danskt þjóðfélag um nokkurra mánaða skeið. Hún fór á námskeið, sótti um í Dansk Folkeparti (hún gat ekki orðið meðlimur því hún er af asískum uppruna og ekki danskur ríkisborgari), tók formleg og óformleg viðtöl við almenna borgara og fólk í opinberum stöðum og reyndi að eignast danska vini (það gekk ekki mjög vel). Henni tókst ekki að fá viðtal við flokksformanninn Piu Kjærsgaard, Pia talar nefnilega aldrei við útlenska blaðamenn, hins vegar náði hún tali af prestinum Søren Krarup sem er einn hugmyndafræðinga flokksins, og það kom í ljós að hann er hrikalega fordómafullur og illa upplýstur maður.

Snemma í bókinni kemur fram að túrisminn í Danmörku hefur þróast með talsvert öðrum hætti en í öðrum löndum. Milli 2000 og 2007 fækkaði ferðamönnum í Danmörku um 2% á meðan þeim fjölgaði um 23% í Evrópu og 32% annars staðar í heiminum. Ástæðurnar eru ýmsar, m.a. er vitnað í Lars Thykier, formann sambands ferðaskrifstofa í Danmörku: „Það er sama þó að þú sért snyrtilegur og ríkur íbúi Indlands, þú ert samt meðhöndlaður sem hugsanlega hættulegur innflytjandi. Sendiráðið á Indlandi þorir ekki að gefa út ferðamannaáritanir, þess í stað sendir það umsóknir um áritanir til útlendingastofnunar í Danmörku. Ferlið getur tekið fjórar til sex vikur. Þetta veldur því að margir fara bara frekar til Svíþjóðar.“ Þetta er bara eitt dæmi úr bók Lenu, hún tekur fjölmörg svipuð og einnig viðtöl við foreldra sem eiga börn sem eru gift útlendingum og búa í nágrannalöndunum, eða þess vegna hinum megin á hnettinum, því það hefur reynst ómögulegt fyrir erlenda maka Dana að fá landvistarleyfi. Undanfarin ár hafa verið gerðar allskonar lagabreytingar sem valda því að útlendingar reka sig allsstaðar á veggi í Danmörku. 


Heimsins hamingjusamasta þjóð er fyndin (í aðra röndina) og skemmtilega skrifuð í hálfgerðum spjallstíl og bókin upplýsandi, a.m.k. fyrir mig sem er ekki vel innsett í danska pólitík. Það er kafað í upphaf hægri sinnuðu og rasísku bylgjunnar, hvernig Mogens Glistrup, slægur og snjall refur komst til valda og náði sér í fylgjendur, hann lenti í fangelsi og missti æruna, en átti sér enn sína fylgismenn. Pia Kjærsgaard eftirmaður hans bjó til nýjan flokk og notaði öðruvísi retórík en Glistrup (sem sagði að múslimar fjölguðu sér eins og rottur), og Lena Sundström segir hana hafa orðið valdamesta pólitíkus Danmerkur sem ekki var forsætisráðherra. 

Það væri hægt að tína til fullt af áhugaverðum dæmum því bókin er hátt í 350 síður (fljótlesin samt), en ég fór einu sinni á námskeið í vefskrifum í Kaupmannahöfn og lærði að fólk nennir yfirleitt ekki að lesa langa texta á netinu svo ég ætla ekki að skrifa meira. Ég mæli hins vegar með því að fólk sem hefur áhuga á rasisma og pólitík á Norðurlöndum lesi þessa bók, það er auðvelt að panta hana, t.d. á bokus.com.  Og hér er eitt viðtal við Lenu Sundström fyrir þá sem lesa sænsku.

1 ummæli:

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Það er líka hægt að kaupa hana á rafbók á dito.se (á ólæstu epub formatti, sem er auðvelt og algerlega löglegt að breyta í mobi formatt fyrir kindle). Ég smellti mér á eintak – kostar 61 sænska krónu, rétt ríflega þúsara.