18. febrúar 2014

Grænland í litríkum svipmyndum

Sunnudaginn næstkomandi verða Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, veitt í Iðnó áttunda árið í röð. Hátíðin er í þetta sinn tileinkuð Jakobínu Sigurðardóttur og verkum hennar og á dagskránni verða alls konar spennandi erindi og tónlistaratriði (sjá nánar hér).
Tilnefndar bækur eru níu alls, þrjár í hverjum eftirtaldra flokka: flokki barna- og unglingabóka, flokki fagurbókmennta og flokki fræðibóka og rita almenns eðlis, en ég er nýbúin að lesa eina af bókunum sem tilnefndar eru í flokki fagurbókmennta; ljóðabókina Af hjaranum (2013) sem er önnur bók Heiðrúnar Ólafsdóttur.

Ljóðin í Af hjaranum eru prósaljóð sem mætti jafnvel eins kalla örsögur, í beinskeyttum og blátt áfram stíl sem hæfir innihaldinu vel, en yrkisefnið er upplifun höfundar af sumardvöl í vest-grænlenska bænum Sisimiut. Sjálf veit ég afskaplega lítið um Grænland (einhverja handahófsbjagaða samsuðu úr Lesið í snjóinn og glefsum úr námsbókum og sjónvarpsdagskrá bernskunnar), en Heiðrúnu ferst svo vel úr hendi að bregða upp skýrri, tilfinningaríkri og oftar en ekki skemmtilegri mynd í fáeinum línum að ég er ekki frá því að finnast ég heilmargs vísari um landið eftir lesturinn.

Úr ýmsu var að velja til að láta fljóta hér með sem dæmi, þetta varð á endanum fyrir valinu:

Prins  
Í sjoppuskúr við blokkirnar er stundum hægt að fá Prins Póló. Það hefur þér skilist af tveimur aðilum; sjómanni sem þú hittir á Rækjunni fyrir nokkru og hjúkrunarkonu sem vann einu sinni með íslenskri konu sem nú er löngu hætt og flutt í burtu. Þú hefur ekki enn fengið þetta staðfest en hyggst manna þig upp í bráð og gera þér ferð. Óttast samt áhrif prinsins á þig. (bls. 56)


Heiðrún er vel að tilnefningunni komin fyrir prýðisfína bók. Ég hugsa að allir sem á annað borð hafa gaman af ljóðlist, örsögum, ferðasögum eða bara skemmtilegum texta geti tengt við ýmislegt í þessum ljóðum, hvort sem það er að halda ein síns liðs til dvalar á framandi stað, að flýja vandamál til þess eins að mæta þeim í speglinum eftir sem áður, eða bara að lenda í einhverjum hversdagsskringilegheitum á barnum.

Engin ummæli: