21. mars 2014

Óvæntur skipsskaði við upphaf magnaðrar bókar

Ég vissi ekki mikið um Stúlku með maga þegar ég hóf lesturinn – hún er undirtitluð skáldættarsaga og ég vissi að hún væri skrifuð út frá (skálduðu) sjónarhorni Erlu, móður höfundar. Hún er sjálfstætt framhald Stúlku með fingur en hana hef ég ekki lesið svo það sagði mér lítið. Einhvers staðar segir að upphafið og endirinn skipti mestu máli í skáldsögu og þótt ég sé nú ekki sammála því er það hins vegar kúnst að byrja vel og þá list kann Þórunn. Byrjunin er líka óvenjuleg því það er ekki sjálfgefið að rétti staðurinn til að byrja sögu móðurinnar sé með skipsskaðanum þegar póstgufuskipið Fönixinn fórst undan ströndum Íslands frostaveturinn 1881 (óvæntir skipsskaðar fylgja mér þessa dagana). En frásögnin af slysinu og þeim sem komust lífs af og var hjúkrað í torfbæ á hjara veraldar setur þó einmitt fullkomlega rétta tóninn fyrir þessa ófyrirsjáanlegu og dásamlegu bók.



Það er eins og áður sagði, móðir Þórunnar, Erla, sem segir söguna – þá orðin sjúk af krabbameininu sem dró hana til dauða langt fyrir aldur fram. Hún rótar í pappírum og hugsar fram og aftur í tíma og rúmi, þvert yfir landið og aldirnar. Hún hefur söguna hjá forfeðrum og ættmæðrum og ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi alltaf haldið þræði eða áttað mig á hvaða ættmenni hún var að tala um í það og það skiptið – þar hjálpar heldur ekki að eins og í Íslendingasögunum þá heitir annar hver maður í ættinni sama nafni – en það kemur ekki að sök, sögurnar eru skemmtilegar og þá má líklega einu gilda hvort um er að ræða langafabróður Erlu eða skáfrænda hans sem var uppi hundrað árum áður. Línuleg frásögn leynist þó undir óreiðunni og við fikrum okkur smám saman nær nútímanum en slíkt er aukaatriði – eða kannski er réttara að segja að í þessari yndislegu frásögn séu aukaatriðin alveg jafn mikilvæg og aðalatriðin. Innkaupalisti langalangafa Erlu gefur tilefni til vangavelta og ótrúlegustu pappírar, ljósmyndir, dómsskjöl og bréf verða innblástur að ferðalagi sem hrífur lesandann með sér. Þetta er einn helsti styrkur og sjarmi þessarar bókar – Þórunn hefur slíkt lag á textanum að maður fylgir henni hvert á land sem er. Svo er bókin líka bráðfyndin – þótt auðvitað sé hún sorgleg líka. En þótt dauðvona kona segi söguna er þó létt yfir frásögninni, það er ekki dvalið við sorgina þótt hún sé undirliggjandi.


höfundur tekur við Fjöruverðlaunum fyrir bókina
Erla var einkabarn foreldra sem gátu ekki eignast annað barn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Sjálf eignaðist hún hins vegar sjö börn og því varð menntaferill hennar skemmri en efni stóðu til. Hún náði þó að útskrifast úr Menntaskólanum í Reykjavík, þá orðin móðir. Ekki tók rektor í útrétta hönd hennar við útskriftina og sýndi þannig afstöðu samfélagsins til ógiftra, ungra mæðra. Þeirra staður var svo sannarlega ekki við lærða skólann. En fullorðinsár Erlu eru ekki brennidepli hér heldur fremur forsaga hennar og svo æskan – sem lítil stúlka upplifir hún hernámið, hún er send í sveit, skrifar bréf, fer í ferðalög og lifir og hrærist í Þingholtunum sem fá líka pláss í frásögninni. En þótt Erla einbeiti sér að æskunni er þetta þó langt frá því að vera bernsk eða naív bók. Þórunn hefur aldrei verið nein tepra í skrifum sínum og hér talar hún tæpitungulaust um margt sem enn í dag er tabú í mörgum fjölskyldum eins og sífilisinn sem amma hennar og afi voru haldin (og dró ömmu hennar til dauða), framhjáhald föður síns og sitthvað fleira.  Þórunn er sagnfræðingur að mennt og nýtir þá kunnáttu hér þar sem hún spinnur af mikilli list í kringum þá pappíra sem Erla finnur hverju sinni. Hún á ekki neinum vandræðum með að draga upp lifandi og sannfærandi mynd í kringum hvert snifsi svo ólíkir staðir og tímar lifna fyrir augum manns. Sem barn (og fullorðin) elskaði ég þegar hvers kyns uppdrættir fylgdu með bókum og Þórunn svíkur mig ekki um þá gleði. Hún lætur til dæmis fylgja með sérlega skemmtilegar teikningar af skipulaginu á burstabænum í Borgarholti sem afi hennar ólst upp í og teiknaði sjálfur. En Þórunn er ekki minna skáld og segir okkur meðal annars frá góðviljuðum dreka sem fylgir ættinni gegnum aldirnar og öðru sem maður tengir fremur við ævintýri en sagnfræði.

Stúlka með maga er ekki stutt bók – en hún er svo dæmalaust lífleg og skemmtileg að hún er aldrei langdregin og ég stóð mig ekki að því (eins og gerist þó oftar í seinni tíð) að stoppa lesturinn og horfa örlítið efins á þykka blaðabunkann sem hvíldi í hægri hendi. Þvert á móti fylltist ég trega og angurværð eftir því sem fleiri blaðsíður fluttust frá hægri yfir í vinstri hendi. En nú finn ég ekki Stúlku með fingur í bókabúðum – ekki einu sinni á bókamarkaðnum sem nú er fluttur undir stúkuna í Laugardalnum...en það er alltaf bókasafnið!

ps. kápan er ein af fáum sem mér þóttu fallegar þessi jólin og ekki spillir fyrir að það er víst Erla sjálf, sögukonan, sem skreytir hana!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, þessi kápa var eitt af fáum ljósum í ljótleikamyrkri síðustu jóla! Afskaplega falleg.

Salka