3. nóvember 2014

Einar Ben og litlu málleysingjarnir

Einar Ben átti hundrað og fimmtíu ára afmæli á föstudaginn. Ég vaknaði til að fara í vinnuna og kveikti á útvarpinu, alltaf gott að fara á fætur með Gufunni, malandinn í morgunútvarpsfólkinu hefur yfirleitt róandi áhrif ef maður passar að stilla hann nógu lágt til að greina ekki orðaskil. Ég klikkaði hins vegar á því í þetta skiptið og heyrði brot úr viðtali við skipuleggjendur stórafmælishátíðar Einars, sem gerði það að verkum að ég var hársbreidd frá því að grýta kaffibollanum í útvarpið. (Eftir að hafa lesið umræður um afmæli Einars á netinu veit ég að aðdáendur hans myndu segja að þetta væri til marks um að kallinn væri enn fær um að vekja sterk viðbrögð, sem er ekki rétt, Arthúr Björgvin Bollason á allan heiður af þessu bræðiskasti mínu.) Viðtalið snerist ekki einungis um afmælið í ár, heldur hugmyndir um að gera afmælisdag Einars formlega að Degi ljóðsins og halda upp á hann með ljóðasamkeppnum fyrir unglinga; einnig að stofna Hús ljóðsins, helgað Einari og skáldskap hans.

Ég hef aldrei lagt mig sérstaklega eftir ljóðlist Einars Benediktssonar og fundist hann frekar uppskrúfaður og leiðinlegur þar sem ég hef rekist á hann. Það er auðvitað bara smekksatriði, og ekki Einari að kenna að það sé svona eilíflega hamrað á þessum sjálfshjálparlegu línum úr Einræðum Starkaðar um brosið og aðgátina. Kannski er hann fínn þegar maður þekkir hann. Ég efast heldur ekki um að skipuleggjendur afmælisins séu raunverulega hrifnir af skáldskap Einars og vilji veg hans sem mestan (ég leyfi mér meiri tortryggni gagnvart menntamálaráðherra, sem lagði ríka áherslu á athafnasemi Einars og stuðning hans við „öld orkuiðnaðar, viðskiptafrelsis og samkeppni“ í grein um skáldið í Morgunblaðinu síðasta föstudag, en af einhverjum dularfullum ástæðum hefur Mogginn fjallað blaða mest um afmælishátíðina).

Það sem vakti hins vegar með mér slíka reiði í viðtalinu á föstudaginn var sú afstaða sem Arthúr Björgvin Bollason lýsti þar til skólakrakka og hins æskilega hlutverks ljóðlistarinnar í lífi þeirra og þjóðfélagsins:
„Málið hlýtur að vera að reyna að draga þessa krakka, þessa unglinga, svolítið út úr þessum digital heimi sínum og koma þeim í kynni til dæmis við það mál sem talað var í landinu fyrir svona 30-40 árum, það sem við köllum íslensku, og þar er Einar náttúrulega alveg rosalega fín svipa á þessa ákveðnu málleysingja sem eru að verða til í okkar samfélagi. ... Við þekkjum það sem eigum unglinga að þetta er ofboðsleg rýrnun málnotkunar þegar krakkarnir hanga á þessum samskiptamiðlum öllum stundum. Þetta er mjög takmarkaður orðaforði, þau kynnast ekkert nema bara orðum hvers annars og lesa ekki bækur, lesa ekki höfunda, lesa ekki eldri höfunda, lesa ekki, kannski ekki rithöfunda yfirleitt, eða almennilegar bækur, og sjá voða lítið af íslenskunni. Þannig að eins og þú heyrir þá er það draumurinn að nota Einar ekki bara sem, heldur sem málræktarátak hreinlega, ef að þessi hugmynd verður að veruleika.“
(Það er óljóst hvers vegna Arthúr Björgvin telur að Einar Ben (1864-1940) veiti góða leiðsögn um það mál sem talað var á Íslandi fyrir 30-40 árum síðan (1974-1984), né af hverju það tímabil er sérstaklega eftirsóknarvert sem málræktarleg fyrirmynd – ég hlustaði á þetta þrisvar en held mér hafi örugglega ekki misheyrst. Nærtækasta kenningin er auðvitað sú að Arthúr Björgvin var sjálfur ungur maður fyrir 30-40 árum og síðan hefur ekki verið töluð íslenska í landinu.)

Semsagt: íslenskir unglingar eru í rauninni móðurmálslausir, en babbla eitthvað sín á milli á samskiptamiðlunum. Til þess að snúa við þeirri ógæfulegu þróun er best að láta unglingana lesa EINAR BEN. Í viðtalinu kom raunar einnig fram að með þessu verði unglingarnir ekki einungis kynntir fyrir alvöru íslensku heldur verði einnig stuðlað að varðveislu menningararfsins – Einar er greinilega til margra hluta nytsamlegur.

Ekki veit ég hver mun þjást mest í þessu samhengi, unglingarnir, Einar eða ljóðlistin.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Hvað með fólkið sem segir:

"...þau kynnast ekkert nema bara orðum hvers annars..."

Er ekki til einhver fertug málfræðisvipa til að berja svona lagað úr ungu kynslóðinni?