14. mars 2016

Ljóð geta staðið og fallið með einu orði: Viðtal við Þórð Sævar Jónsson

ek yfir pípuhliðið framhjá
skaftafellsskiltinu þegar tor
kennilegt hljóð rýfur þögnina
ekki ósvipað því þegar aurskriða
fellur eða tré rifnar upp með rótum
lít í baksýnisspegilinn og sé að malbikið
hefur tekið á rás og vefst nú upp einsog
papýrusrolla og á augabragði verður allt svart
og ég fyllist djúpri
innilokunarkennd

Á síðasta ári gaf grasrótarútgáfan Meðgönguljóð út fimm nýjar ljóðabækur. Ein þeirra var Blágil eftir Þórð Sævar Jónsson og úr henni er ljóðið sem birtist hér á undan, bíltúr. Druslubækur og doðrantar halda ljóðskáldaviðtölum sínum áfram og ræða nú við Þórð Sævar um fyrstu bókina hans og framhaldið.

Sæll, Þórður! Eins og í viðtalinu við Öldu hérna í síðustu viku langaði mig að byrja á að spyrja þig út í titilinn á bókinni, Blágil. Er þetta eitthvert ákveðið gil, raunverulegt eða ímyndað? 

Sæl og blessuð! Þegar ég vann sem landvörður á Lakagígum sumarið 2013 bjó ég í Blágiljum. Þar lifði ég einsog blóm í eggi í tæpar tíu vikur. Sannast sagna átti ég í talsverðum vandræðum með titilinn, ég var búinn að fá þónokkrar misgáfulegar hugmyndir áður en mér duttu Blágil í hug. Annars er ég ósköp ánægður með útkomuna, svona eftir á að hyggja, Blágil er fallegt orð, látlaust og myndrænt, og það hefur auðvitað þessa persónulegu skírskotun.

Hefurðu verið að skrifa lengi? Það er mikill heildarbragur á bókinni, sástu hana fyrir þér sem eitt heildarverk frá upphafi? Sums staðar eru tvö ljóð á síðu - er það vegna þess að þú varst með fleiri ljóð sem þú vildir birta en blaðsíðurnar eru í Meðgönguljóðabók eða er það partur af heildarpælingunni?

Ég byrjaði að fikta við ljóðagerð af einhverju ráði þegar ég byrjaði í MR. Ætli flest ljóðin séu ekki skrifuð á sirka tveggja ára tímabili, sem hlýtur að teljast tiltölulega stuttur tími, a.m.k. í stóra samhenginu! En svo slæddust auðvitað inn eitt og eitt ljóð meðan á ritstjórnarferlinu stóð. Okkur Kára (ritstjóranum mínum) var ofarlega í huga að bókin yrði heilsteypt, að það væri gegnumgangandi rauður þráður í henni. Blaðsíðurnar í meðgöngubókunum eru af skornum skammti, þannig að ég brá á það ráð að smella sumsstaðar tveimur ljóðum á sömu síðuna, einfaldlega til að nýta plássið til hins ítrasta!

Ljóðin í Blágiljum eru náttúruljóð. Þú vitnar raunar í Kristján Fjallaskáld í upphafi: „Náttúran er ávallt eins / aldrei sér hún breytir“. Það eru sennilega fáar tegundir ljóða sem koma með jafn mikinn „pakka“ og náttúruljóð, nema kannski ástarljóð. Hvernig fannst þér að takast á við þetta form? Fannst þér hefðin íþyngjandi eða inspírerandi eða hugsaðirðu kannski ekkert um hana í samhengi við þín eigin ljóð? Er náttúran þér sérstaklega hugleikin sem umfjöllunarefni eða er tilviljun að þín fyrsta bók skyldi fjalla um hana?

Kristján var fyrsta skáldið sem ég kolféll fyrir, svo mér var bæði ljúft og skylt að vitna í hann í upphafi bókarinnar. Satt best að segja hefur mér aldrei fundist íþyngjandi að yrkja í þessa hefð, nema síður sé. Náttúran er óþrjótandi uppspretta, fullkomið ólíkindatól. Í mínum huga átti tilvitnunin í Kristján að vera ákveðin kaldhæðni (ég veit hinsvegar ekki almennilega hvort hún hafi komist til skila!) því náttúran er aldrei eins, hún er síbreytileg og getur brugðið sér í allra kvikinda líki. Náttúran hefur alltaf verið mér hugleikin. Ég lék mér mikið úti sem barn og hef eflaust notið góðs af því að foreldrar mínir voru (og eru reyndar enn) duglegir við að ferðast í kringum landið. Svo hef ég unnið sem landvörður síðustu fimm sumur víðsvegar um landið á stöðum sem eru rómaðir fyrir náttúrufegurð. Það hefur líklega haft sitthvað að segja! Ég held að ég það sé mér nokkuð eðlislægt að yrkja um landið og náttúruna. Það hefur bara komið einhvernveginn af sjálfu sér.

Uppsetningin skiptir töluverðu máli í mörgum ljóðanna, þú notar til dæmis línuskiptingar til að brjóta upp hrynjandina, flæðið og jafnvel merkinguna í ljóðinu. Svo er líka eitt hreinræktað konkretljóð í bókinni. Hugsarðu mikið um myndræna og hljóðræna eiginleika ljóðsins? Hvernig stíl - og hvernig/hvaða öðrum ljóðskáldum - ertu sjálfur hrifnastur af?

Mér umhugað um að ljóðin líti fallega út, útfrá fagurfræðilegum og sjónrænum sjónarhóli. Uppsetning, línskipting og fleira í þeim dúr má ekki stinga í augun. Annars held ég myndrænir og hljóðrænir eiginleikar tvinnist saman. Það gefur auga leið að hrynjandi ljóðs og línuskipting haldast í hendur. Konkretismanum kynntist ég fyrst í gegnum Gyrði og Ísak Harðarson. Ég er hálfgerð alæta á ljóð (fyrirgefið klisjuna!), en sumt höfðar vissulega meira til mín en annað. Ég einna veikastur fyrir hinu óvenjulega; undrum, furðum, súrrealisma, sem og frumlegu myndmáli og hugvitssamlegum líkingum. Af íslenskum skáldum eru Gyrðir, Ísak Harðar, Óskar Árni, Vilborg Dagbjarts, Steinn Steinarr og Þórbergur í uppáhaldi. Þessi listi er þó á engan hátt tæmandi!

Skrifarðu líka eitthvað annað en ljóð? Hvað er það við ljóðformið sem höfðar til þín?

Ég hef aðallega fengist við ljóð og þýðingar úr forngrísku. Það sem heillar mig einna mest við ljóðformið er formleysið. Allt er leyfilegt. Bókstaflega. Það er hægt að snúa öllu á hvolf og gera allskyns tilraunir og hundakúnstir innan ramma ljóðlistarinnar.

Mér finnst alltaf eitthvað svo spennandi að spyrja fólk út í tengsl ljóðagerðar þess við önnur og stundum gjörólík viðfangsefni sem það velur sér í lífinu. Ég veit að þú hefur starfað sem landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði og áhrif þess á ljóðin í Blágiljum eru augljós, en svo stundarðu líka háskólanám í grísku - og spurningin er aðkallandi: Hefur grísku- og fornfræðinám þitt haft einhver áhrif á ljóðagerð þína, heldurðu? 

Ég efast stórlega um að ljóðin mín beri þess merki að ég sé fornfræðimenntaður, en ég bý auðvitað að því að hafa lesið reiðinnar býsn af klassískum bókmenntum! En maður veit aldrei, kannski skýtur fornfræðingurinn fyrirvaralaust upp kollinum. Ef til vill verður næsta bók alfarið í hexameter.

Bókin þín kom út hjá Meðgönguljóðum og eins og er hefðin hjá þeirri útgáfu fékkstu þinn prívat ritstjóra, Kára Tulinius, sem þú vannst náið með að frágangi handritsins. Hvernig fannst þér þetta ferli? Tók bókin miklum breytingum á ritstjórnartímanum?

Ég hafði aldrei áður unnið með ritstjóra, svo ég vissi í rauninni ekki við hverju ég ætti að búast. En ritstjórnarferlið var afar lærdómsríkt. Bókin tók ekki neinum drastískum breytingum, enda hefði skotið frekar skökku við ef hefðum gjörsamlega umturnað handritinu. Við gerðum hinsvegar ýmsar „smávægilegar“ breytingar, í óeiginlegri merkingu þess orðs, því ein agnarsmá og að því er virðist sakleysisleg breyting getur gert gæfumuninn. Ljóð geta staðið og fallið með einu orði. Það má segja að ritstjórnarferlið hafi öðru fremur einkennst af nákvæmnisvinnu, við rýndum í það sem betur mátti fara, sneiddum af vankanta og fínpússuðum setningar.  

Þú hefur verið að birta mjög skemmtileg ljóð á Facebook undanfarið svo ég veit að þú heldur áfram að yrkja. Stefnirðu á frekari útgáfu í fyrirsjáanlegri framtíð? Hvernig finnst þér þín eigin ljóðagerð vera að þróast?

Það vildi svo skemmtilega til að strax eftir útgáfu bókarinnar tóku við ansi afkastadrjúgar vikur. Ég er viss um að það hafi haft góð áhrif að segja endanlega skilið við ljóð sem sem höfðu mörg hver verið í skúffunni árum saman. (Lengi býr að fyrstu gerð og allt það!) Það er gott fyrir heilabúið að lofta út endrum og eins og rýma fyrir nýju efni.

Annars er ég bara byrjaður að safna í sarpinn fyrir næstu bók. Náttúran kemur til með að vera í forgrunni, svo efnistökin hafa ekki tekið neinum meiriháttar stakkaskiptum síðan Blágil komu út. Annars finnst mér ég tæplega vera dómbær á eigin ljóð og hvernig ljóðagerðin mín hefur þróast. Ég verð svo samdauna skrifunum mínum að ég get með engu móti svarað þeirri spurningu!

Druslubækur og doðrantar þakka Þórði kærlega fyrir viðtalið - það verður forvitnilegt að sjá náttúruljóðin í hexameter næst! Þess má geta að Þórður Sævar verður meðal tíu skálda sem fram koma í ljóðapartíi á Gauknum næsta laugardagskvöld, 19. mars. Við birtum í lokin mynd af öðru ljóði úr Blágiljum.


Engin ummæli: