15. desember 2016

Setur allt á hvolf og gerir allt svo sýnilegt og berskjaldað: Viðtal við Elínu Eddu

Kjarni epla
er harður.
Kjarni lífsins
er harðari.
Þess vegna
á að bíta laust í kring
og mæta hörðu með mýkt.

Tennur vita
margt.

Þær kenna mér
eitt og annað:

Bíta saman.

Stefnan er
einhvers staðar
á milli okkar.

Ljóðið Stefnuleit er að finna í nýlegri ljóðabók skáldsins Elínar Eddu, Hamingjan leit við og beit mig, sem kom út hjá Meðgönguljóðum í haust (en þess má geta að Elín Edda stundar nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og hefur líka gert stórfallegar bókakápur fyrir Partus, yfirútgáfu Meðgönguljóða). Druslubækur og doðrantar tóku Elínu Eddu tali um nýju bókina hennar.

Sæl Elín Edda, til hamingju með nýju bókina! Þú hefur gefið út tvær bækur áður – myndasögurnar Gombra og Plöntuna á ganginum (sem Salka skrifaði um hér). Var það öðruvísi reynsla að gefa út ljóðabók? 

Sæl Kristín Svava og kærar þakkir fyrir.

 Já, það var svolítið öðruvísi. Ég gaf líka myndasögurnar út hjá Nóvember, sem er myndasöguútgáfa sem við Elísabet Rún, systir mín, rekum. Plöntuna á ganginum skrifaði ég og teiknaði með Elísabetu og við sáum sjálfar um allt í tengslum við útgáfuna. Gombri er síðan hugarfóstursonur minn sem varð að mjög persónulegu verki, myndasögunni Gombra.

Ljóðabókin Hamingjan leit við og beit mig finnst mér agaðri að forminu til. Ég hugsaði líka ekki um útlit hennar. Mér fannst að vissu leyti erfiðara að koma fram sem ljóðskáld. Ég leyndi því t.d. lengi að ég væri að skrifa ljóð.

Og er ljóðagerðin öðruvísi en mynd- og myndasögulistin – ertu að nota sömu stöðvarnar í heilanum? Hefurðu verið lengi að skrifa ljóð? 

Mér finnst hugmyndirnar koma frá stað sem ég kalla undirmeðvitundina. Ég treysti mikið á hana. Textinn í myndasögunum kemur yfirleitt eins og ljóðin. Undirmeðvitundin veit hvað ég er að bralla hverju sinni og frá henni koma textar við myndir eða ljóð.

Mér finnst myndirnar sem ég geri oft byggðar á tilraunastarfsemi og mistökum. Myndlistin er meira tengd líkamanum.

Ég man ekki hvenær ég byrjaði að skrifa ljóð. Ég man að mig langaði alltaf að skrifa ljóð. Áherslan var alltaf lögð á bundin ljóð í skólakerfinu en það gekk illa hjá mér.

Það var ekki fyrr en í 5. bekk í MR þegar við lásum Völuspá og Sonatorrek að það rann upp fyrir mér ljós. Allt í einu gat ég skrifað ljóðin sem mig langaði að skrifa. Ég fékk mikið af hugmyndum sem ég varð að skrifa niður. Þetta var eiginlega blómatími hjá mér í ljóðaskrifum og hann stóð yfir í um rúmt ár. Ég skrifaði nýtt ljóð á nánast hverjum degi og allt í einu var ég komin með efni í ljóðabók.

Það má kannski segja að bókin fjalli um tilfinningar og tilfinningalegt ástand – erfiðar og ljúfar tilfinningar, lífsgleði og doða – og það er ákveðin stígandi í henni, við byrjum í hvatningunni til þess að stilla sig og gera sér ekki of miklar vonir en við bókarlok er landið farið að rísa. Sástu ljóðin fyrir þér sem skýra heild þegar þú skrifaðir þau eða þegar þú settir þau saman í bók? 

Ég var með mjög mikið af ljóðum í handritinu sem ég sendi til Meðgönguljóða. Þetta var eiginlega ekki handrit, eins og ritstjóri minn, Linda Vilhjálmsdóttir, benti mér á – þetta voru mörg ljóð í pdf-skjali. Ég var samt komin með nafn á bókina. Hún átti fyrst að heita „Hamingjan leit við og beit mig í dag,“ sem er úr ljóðinu Sólmyrkvi. Titill bókarinnar varð eiginlega vísbending um efni bókarinnar og hjálpaði mér síðar að velja úr ljóðunum og raða saman. Heildin varð því skýrari með allri ritstjórnarvinnunni.

Landið farið að rísa, segi ég, og það er næstum bókstaflegt – myndmálið í ljóðunum er mjög náttúrubundið og það er oft óvænt eins og kemur ágætlega fram í þessum óvenjulega titli; hamingjan er ekki passív heldur er hún árásargjörn og bítur. Sólin er framan af ekki boðberi hamingjunnar heldur drepur hún draumana, bræðir sumarið. Ertu sammála þessari lýsingu á bókinni? Er náttúran þér ofarlega í huga sem uppspretta mynda og líkinga – til dæmis til þess að lýsa tilfinningalegu ástandi eða líðan? 

Ég hafði ekki hugsað út í náttúrubundna myndmálið – en það er satt. Það er alltaf verið að reyna að aðskilja náttúruna og borgina. Þess vegna líður mér eins og ég hugsi ekki mikið um náttúruna.

Ég held að sú náttúra sem ég finn fyrir í Reykjavík hafi mikil áhrif á mig. Ég labba oft í gegnum skóginn í Öskjuhlíð og meðfram sjónum. Síðan samdi ég sum ljóðin þegar ég var að vinna í garðyrkju á Klambratúni. Þegar maður er úti hafa sólin, birtan og jörðin mikil áhrif.

Ég tengi bókina við sumarið. Ég hef ekki enn lært á það. Kannski er það aldrei nógu lengi í einu. Sumarið er bæði ljúft og árásargjarnt. Það setur allt á hvolf og gerir allt svo sýnilegt og berskjaldað.

Þótt myndmálið sé stundum óvænt er stíllinn á bókinni frekar blátt áfram. Hugsarðu mikið um það þegar þú skrifar, hvernig þú notar tungumálið? Hvernig reynsla var það svo að vinna áfram með handritið með ritstjóranum þínum, Lindu Vilhjálmsdóttur? 

Já, ég hugsa mikið um tungumálið. Mér finnst mikilvægt að textinn sé einlægur og laus við alla tilgerð. Ég hugsa líka mikið um hljóm orða og bjó mér til mína eigin mállýsku þegar ég var yngri. Ég held að þessi mállýska hafi síðan getið af sér ritstílinn.

Það var mjög góð reynsla að vinna með Lindu. Það er mikilvægt að fá gagnrýni – og þá sérstaklega frá ljóðskáldi sem veit mun meira en maður sjálfur um ljóðlist. Stundum áttaði ég mig á að ég skildi ekki mín eigin ljóð – það var ekki nógu gott.

Hvers konar ljóðum hefurðu mest gaman af sjálf? 

Ég hef gaman af mörgum mismunandi ljóðum. Ljóðin geta fjallað um margt og verið í ýmsum formum. Ég hef sérstaklega gaman af óvenjulegum nálgunum, einlægni og prakkaraskap. Einnig líkar mér viðkvæm og fögur ljóð sem sveipa veröldina töfrum. Ljóð sem gera heiminn örlítið fallegri og betri um stund.

Ertu með aðra ljóðabók í bígerð? Eða bara aðra bók? 

Ég er að vinna að framhaldi Gombra, Gombri lifir, nýrri myndasögu. Gombri á huga minn þessa dagana.

Blaðamaður D&D fagnar því einlæglega og yfirhöfuð fjölbreytni í verkefnavali skálda og annarra listamanna. Niður með einsleitnina! Niður með markaðssetningarstýrt flokkunarkerfi! Og nú fær Elín Edda aftur orðið – í ljóðinu Heiðríkja, sem er lokaljóð bókarinnar.

Það er heiðskírt.
Bæði á himninum
og í huga mér.
Ég sé ekki skýin
fyrir blámanum
og hinn þráláti kvíði
víkur
fyrir tilhlökkun.

Ég sé enga skugga
og fjöllin
eru þúfur
sem ég stíg upp á
í einu skrefi.

Engin ummæli: