10. apríl 2017

Óvinsæl kona

Þessa dagana er ég með vinnuaðstöðu í bókmenntahúsinu í Åmål, tíu þúsund manna bæ í Dalslandi í Svíþjóð. Við hliðina á dyrunum að skrifstofunni minni hangir plakat í ramma sem auglýsir viðburð sem átti sér stað á hótelinu hér í bænum í september 2014. Þar kynnti rithöfundurinn Sigrid Combüchen bók sem hún skrifaði um umdeilda konu frá Åmål. Ég kannaðist við höfundinn en ekki við umdeildu konuna Idu Bäckmann frá Åmål. Á plakatinu er mynd af alvarlegri konu með hönd á hægra brjósti, stellingin minnir smávegis á Napóleon og er líklega mjög óvenjuleg fyrir miðaldra konu á ljósmynd frá því snemma á síðustu öld. Forvitni mín kviknaði, ég fór að gúggla og fann ýmislegt á netinu og hlustaði á útvarpsþátt þar sem Ida Bäckmann kemur við sögu og svo náði ég mér í bókina og las hana í einum rykk (ég fann hana í hillu hér í við dyrnar hjá mér, rétt hjá plakatinu í rammanum).

Ida Bäckmann var óvenjuleg og illa liðin kona. Hún fæddist 1867 í Åmål og dó ekki langt hérna frá árið 1950. Ida var dóttir málarameistara, hún fékk að mennta sig, fór til Stokkhólms í stúlknaskóla og tók stúdentspróf. 22ja ára gömul, árið 1889, rakst hún á skáldið Gustaf Fröding í lystigarði í Karlstad. Þau hittust varla, hún sá hann bara, en þessi viðburður sneri lífi konunnar algjörlega á hvolf. Fröding hafði á þessum tíma ekki gefið út ljóðabók, hann var 29 ára og þekktur blaðamaður í Karlstad og það var slúðrað um ólifnað hans, en unga stúlkan heillaðist og varð ekki söm.

Árið 1890 gerðist Ida barnakennari og næstu fimmtán árin eða svo stundaði hún kennslu og skólastjórn og var óvinsæll kennari. Hún virðist algjörlega hafa verið með Fröding á heilanum, hún tók upp bréfasamband við hann og fór síðan að umgangast hann og var stöðugt með hann í sjónlínunni og skiptandi sér af honum. Hún gaf út bók árið 1898 sem virðist vera einhvers konar lykilskáldsaga um drykkjubolta sem líkist Fröding mjög en bókin varð upphafið að höfundarferli Idu Bäckmann.

Árin 1891 og 1894 komu út ljóðabækur eftir Gustaf Fröding sem slógu í gegn og fleiri bættust við næstu árin. Síðan hefur hann haft þjóðskáldsstatus og var orðaður við Nóbelsverðlaun skömmu áður en hann dó. Fröding dvaldi langtímum saman á hælum og stofnunum og var augljóslega vanhæfur til margs sem venjulegt fólk þarf að sinna, hann dó árið 1911 rétt fimmtugur. Ida gerðist hins vegar fréttaritari víða um heim, hún skrifaði smám saman margar bækur, var hædd og smáð af mörgum og endaði sem hænsnabóndi í sænskri sveit og dó, eins og fyrr sagði, árið 1950.

Gustaf Fröding. Hann dó fimmtugur.
Ida Bäckmann þótti laus við þá eiginleika sem álitnir eru hæfa músum listamanna. Hún var hvorki kvenleg, fögur né leyndardómsfull, heldur var hún sögð forljót, uppáþrengjandi og nöldurgjörn. Hún þótti allt of ófríð og óskáldleg til að verjandi væri að hún elskaði stórskáld og séní. Það kemur víða fram í heimildum samferðamanna að hún var lítil, rauðhærð og þótti almennt óaðlaðandi. Gustaf Fröding líkti henni við afa sinn, sem þótti minna á álf eða furðudverg. Hrifning Idu af Fröding virðist merkilega lítið upphafin, hún var ekki skáldlegur skýjaglópur eða bókmenntagreinandi heldur praktískt þenkjandi kona sem kunni að taka til hendinni. Ida Bäckmann var ástfangin af skáldinu og hún ætlaði að bjarga honum með skynsemi sinni, redda honum úr ógæfunni með umhyggjusemi og góðu atlæti. Hún virðist hafa álitið að hún gæti komið Fröding af geðveikrahælinu, læknað hann af lífsstílstengdum kvillum og óviðeigandi greddu til vændiskvenna og haldið honum réttu megin við strikið ef hún fengi til þess tækifæri. Hún ætlaði sem sagt að bjarga tilfinningalega vanhæfri fyllibyttu sem skrifaði pornógrafísk ljóð – kannski ekkert mjög óvenjulegt við það? Einu sinni játaði Ida Bäckmann meira að segja bónorði plantekrueiganda frá Suður-Afríku með því skilyrði að hún eignaðist hús í Afríku og fengi að halda Fröding uppi. Að þessu gekk vonbiðillinn en hann dó úr taugaveiki áður en kom til brúðkaups og Ida fékk ekki tækifæri til að láta reyna á björgunarhæfileika sína. Að endingu þótti hún til svo mikilla vandræða að læknar Gustafs Frödings og systir hans, sem hafði verið vinkona hennar, harðbönnuðu henni að umgangast stórskáldið. Frá 1904 var henni alfarið bannað að koma á geðdeildina í Uppsölum.


Á árunum 1899–1913 ferðaðist Ida Bäckmann um heiminn eins og Beverly Gray með ritvél og skrifaði fréttapistla m.a. frá Afríkulöndum, Rússlandi, Argentínu og Hollandi, hún þvældist líka um á slóðum Búastríðsins og við olíulindir Arabíu. Samkvæmt bók Sigrid Combüchen voru pistlarnir hennar mjög lítið samfélagsgreinandi, hún var léttsnobbaður rasisti og saknar þess að hafa ekki efni á að kaupa sér svartan þjón til að taka með sér heim. Í einni ferð sinni tók Ida viðtal við Tolstoj og ferðapistlarnir hennar sem birtust í blöðum voru gefnir út í nokkrum bókum.

Skömmu eftir dauða Frödings, árið 1911, hitti Ida Bäckmann Selmu Lagerlöf á alþjóðegri kvennaráðstefnu í Stokkhólmi. Ida var nýkomin frá Rússlandi og niðurbrotin eftir dauða skáldsins og náinna ættingja sem hrundu niður um þetta leyti. Þarna upphófst samband Idu og Selmu og í hundrað ár eða svo hefur Ida verið þekkt fyrir að vera erfiða og leiðinlega vinkonan hennar Selmu Lagerlöf, en Ida er líka höfundur tveggja binda verks sem kom út 1944 og heitir Mitt liv med Selma Lagerlöf og fjallar um samskipti þeirra.

Ævisaga Idu og verkin um líf hennar með Selmu
Það eru ótalmargar gloppur í lífi Idu Bäckmann, löng tímabil þar sem er óljóst hvað hún var að gera og svo laug hún örugglega mörgu til og ritskoðaði eins og gengur. Þetta tekur höfundur ævisögu hennar fram, en það er samt til mjög mikið af bréfum frá henni og til hennar, m.a. gríðarlega umfangsmikil bréfaskipti þeirra Selmu Lagerlöf. Ida hundskammaði Selmu fyrir að eyða tíma sínum í að svara aðdáendum og taka á móti skólabörnum. Hún vælir yfir að Selma sé vond við sig og sjái ekki til þess að hún fái almennilegt sæti á frumsýningu á leikriti eftir Gösta Berlings saga og hótar að hætta að tala við hana. Selma aftur á móti baktalaði Idu í bréfum til annarra vinkvenna sinna og segir að hún sé gjörsamlega óþolandi manneskja. Samt bauð hún henni í heimsóknir og þóttist ætla að skrifa formála að bókinni sem Ida skrifaði um Gustaf Fröding. Ég sé fyrir mér að í nútímanum væru þær margbúnar að eyða hvor annarri af feisbúkkvinalistunum og jafvel blokkera hvor aðra.

Svo virðist sem kynni Idu af Fröding, snobb Selmu fyrir fólki sem þekkti hann, hafi orðið til þess að þær kynntust. Hún hvatti Idu til að skrifa bók um samskiptin við skáldið og sú bók kom út árið 1913, en fyrir hana var höfundurinn hædd og spottuð. Bókin þótti léleg og allt of opinská, Ida fjallaði um allskonar undarlegheit og kynferðislegar þráhyggjur Gustafs og því var jafnvel haldið fram að hún hefði ekkert þekkt karlinn, sem var auðvitað algjört rugl. Selma Lagerlöf sveik Idu um að skrifa formálann, hann hefði kannski reddað einhverju, en bókin um Fröding var endurútgefin löngu síðar og fékk þá ekki eins slæma útreið.

Ida Bäckmann var sennilega einhvers konar eltihrellir og furðufugl en líka merkileg kona. Hún skrifaði fullt af ferðabókum, skáldsögur og þrjár barnabækur um rauðhærðu stelpuna Röpecka (Rauðka) sem var gælunafn hennar sjálfrar og það nota þær Selma í bréfasamskiptum. Ida Bäckmann var augljóslega ekki hvers manns hugljúfi. Hún reið í hnakk en ekki söðli og hafði lítinn áhuga á að klæða sig eftir óþægilegri kventísku síns tíma. Hún flakkaði um heiminn sem fréttaritari á tímum þegar afar óvenjulegt var að konur gerðu slíkt og hún þótti hvorki kvenleg né blíð eða með æskilega eiginleika kvenna. Hún baðst ekki afsökunar á sjálfri sér og var kölluð lítil og ljót og almennt óviðeigandi á allan hátt. Hún hefur auðvitað líka verið kölluð karlmannleg, kynköld, lygin piparjúnka og eitthvað fleira eins og búast má við. Mér finnst gaman að hafa kynnst þessari konu.

Engin ummæli: