Um helgina hefur rignt mjög mikið í Reykjavík. Í ljósi þess, og að auki var ég með hálsbólgu og hæsi, var alveg upplagt að eyða dögunum aðallega í rúminu með heimiliskettinum og nýrri bók. Ég er með stafla af glænýjum bókum til taks og búin að lesa nokkrar. Bókin sem ég las á meðan rigningin buldi á súðinni er Sorgarmarsinn eftir Gyrði Elíasson og hún gerði helgina enn betri en annars hefði verið - annað sem var skemmtilegt var að þrátt fyrir raddleysið fór ég í útgáfuboð vegna bókar Alexanders Dans, sem heitir Vættir, en það er önnur saga.
Eitt af því sem mér finnst mikilvægt við bækur sem ég les er að þær fái mig til að hugsa, láti einhver óvænt fræ spíra í huganum og að þær hafi rödd sem talar til mín, röddina má auðvitað líka kalla stíl. Röddin í Sorgarmarsinum finnst mér alveg sérlega þægileg. Aðalpersónan, sem heitir Jónas eins og syndugi maðurinn í Gamla testamentinu sem gat sofið í maga sjávarspendýrs eða mögulega risastórs fisks, er einrænn maður. Það er varla hægt að kalla hann einmana því einsemdin er sjálfvalin. Hann dvelur í sumarhúsi frænda eiginkonu sinnar í jaðri þorps á Austfjörðum og fæst við að krota nótur í minnisbók og skrifa auglýsingar fyrir auglýsingastofu í Reykjavík. Jónas er í persónulegum ógöngum, honum leiðist vinnan og hjónaband hans er að sigla í strand. Hann er raunar ekkert að spyrna á móti því eða vinna í sínum málum eins og það er oft kallað. Hann virðist líta á það sem óhjákvæmilegt að eiginkonan, Anna, hitti annan mann, enda hefur hún oft sagt að Jónas nærist á óhamingju, sem er ekki þægilegur eiginleiki hjá sambýlismanni.
Það er kannski klisjukennt að tala um rauðan þráð, en samt ... rauði þráðurinn í þessari bók er sköpunarþörfin. Jónas hlustar á fjölbreytta tónlist, umhverfishljóð og fuglasöng og notar það sem hann heyrir sem innblástur í eigin tónverk, sem munu samt að líkindum aldrei verða flutt. Minnisbókinni glatar hann líka í skógræktarlandi en hann fær sér aðra og heldur áfram að kompónera. Á vegi Jónasar verða ýmsar persónur sem eru andstæður hans eða jafnvel spegilmyndir, svona eftir því hvernig maður kýs að túlka söguna; nefna má kaupmann þorpsins, sem fer til tónlistarborgarinnar Salzburgar heimaborgar Mozarts höfundar Sálumessunnar frægu, þar sem hann deyr skyndilega og listmálara sem hefur lagt penslunum og palettunni og ræktar gulrætur í stórum stíl.
Sorgarmarsinn er ekki löng, hávær, fjörug eða stórkarlaleg bók, enda ekki við því að búast af höfundinum, en hún fór dásamlega vel með norsku brjóstdropunum sem eru á náttborðinu mínu og ég náði alveg sérstöku sambandi við bugaða sögumanninn Jónas.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli