Undir lok síðasta árs las ég í erlendum vefmiðli að ný ævisaga Simone De Beauvoir, væri komin út. Hún heitir Becoming Beauvoir, A Life og er eftir Kate Kirkpatrick, fræðikonu við King's College í London. Fyrir áratugum las ég æviminningar Simone De Beauvoir, og ég hef lesið nokkrar ævisögur hennar og ævisögu samferðamanns hennar í gegnum lífið, Jean Paul Sartre, en verandi haldin mikilli og óslökkvandi ævisagnagræðgi blossaði upp hjá mér áhugi á að lesa þessa nýútkomnu bók. Á meðan ég reyndi í huganum að sannfæra sjálfa mig um að mig vantaði ekki 500 síðna ævisögu, ég væri búin að lesa nóg um Simone de Beauvoir, og að ég hefði nóg annað að lesa, tók ég, líkt og ósjálfrátt, skjáskot á símann af kápumynd bókarinnar, birti svo myndina á samfélagsmiðli og tjáði löngun mína til að lesa þessa bók. Svo sneri ég mér að öðrum verkefnum og reyndi að hætta að hugsa um hvort eitthvað forvitnilegt gæti mögulega komið fram í nýrri ævisögu Simone de Beauvoir.
Næst þegar ég leit á símann minn sá ég að ég hafði fengið skilaboð. Birna Anna, netvinkona mín, sem býr í New York, sagðist lítið muna um að útvega mér fyrrnefnda bók, hún tók ráðin í sínar hendur og nokkrum vikum síðar kom pabbi hennar við á skrifstofunni hjá mér við Túngötuna og afhenti mér ævisögu Simone de Beauvoir.
Hvað gerði Simone að Simone?
Í bókinni Becoming Beauvoir, má segja að sögð sé sagan af því hvað gerði Simone de Beauvoir að þeirri manneskju sem hún varð. Konunni sem fæddist árið 1908 og skrifaði eitt grundvallarrit feminista, Hitt kynið, Le deuxième sexe, múrsteinsþykkt verk sem kom út árið 1949. Útgangspunktur bókarinnar er spurningin Hvað er kona? og niðurstaðan er í stuttu máli: „manneskja fæðist ekki kona, heldur verður kona.“, orð sem miklu bleki og mörgum orðum hefur verið eytt í að ræða og túlka. Beauvoir hafnaði ríkjandi hugmyndum um meðfætt eða náttúrulegt séreðli kvenna og lagði grunn að því sem hefur verið kallað mótunarhyggja. Kate Kirkpatrick las við skrif þessarar nýju ævisögu áður óbirtar dagbækur Simone og sendibréf, sem nýlega hafa verið dregin upp úr skúffum og niður af háaloftum. Hún les þessi verk, beinir skörpum sjónum að heimspekikenningunum og samböndum Simone við fólk, ekki síður annað fólk en Jean Paul Sartre, sem hefur að mörgu leyti yfirskyggt alla hennar lífssögu. Það hefur endalaust verið fjallað um ástarsamband þeirra og samstarf, og í því samhengi, segir Kate Kirkpatrick, hefur Simone de Beauvoir oft verið sýnd sem ekki sérlega frumlegur hugsuður sem byggði á hugmyndum og kenningum Sartres.
Beauvoir og Sartre
Séu nöfnin Simone de Beauvoir og Jean Paul Sartre slegin inn í leitarvélina ómissandi, timarit.is, kemur ýmislegt upp sem styður orð ævisagnahöfundarins. Ég tek nokkur mjög tilviljanakennd dæmi: Í Lífi og list árið 1950 stendur: De Beauvoir er einn af hinum mjög fágætu og afburða þroskuðu lærisveinum Sartres. Í Morgunblaðinu 1956 er fjallað um skáldsögu Simone de Beauvoir Mandarínana, sem hún hlaut Goncourt-verðaunin fyrir. Þar er hún kölluð hofgyðja Existensíalismans og Sartre hlýtur þá að sjálfsögðu að vera æðsti presturinn. Í inngangi greinarinnar segir um De Beauvoir að hún hafi og ég vitna beint: meiri áhuga á að tala en borða eins og svo margar kynsystur hennar. Síðan er hægt að halda áfram. Morgunblaðið 1958 segir Simone tryggasta lærisvein Sartre, og árið 1960 er hún einnig sögð lærisveinn Sartre í heilsíðu viðtali sem birtist undir yfirskriftinni Fötin og ég og undirtitilinn, sem raunar er með stærra letri en yfirskriftin, og liggur yfir miðja síðu er: Of gömul til að klæðast rauðu. Viðtalið er vissulega þematengt, það fjallar um föt, hárgreiðslur og útlit, en það segir margt um hvað fólk hefur í gegnum árin helst viljað ræða við konur. Þegar ég las þetta viðtal varð mér hugsað til endurminningabókar eftir Margaret Atwood þar sem hún segir frá því að þegar hún ferðaðist um og las upp úr bókum sínum á fyrstu árum höfundarferilsins, vildi fólk sem mætti á upplestrana hennar iðulega ræða um hárið á henni, mun síður um bókmenntaverkin.
Heimshornaflakkari sem efaðist um sjálfa sig
Simone de Beauvoir hefur kynslóðum saman haft áhrif á vangaveltur okkar um hvað það hefur í för með sér að vera kona, og hún benti á að mörg tækifæri standa konum mun síður til boða en körlum. Kate Kirkpatrick notar dagbækur Simone, sem fræðimönnum hefur nýlega verið veittur aðgangur að. Þær sýna að dagbókarskrifarinn, jafnvel þó að hún hefði trú á frumlegum kenningum sínum og hefði búið yfir umtalsverðu sjálfstrausti, var sífellt plöguð af sjálfsefa. Hún var kona sem lifði og starfaði af mikilli ástríðu, hvort sem um fræðimennsku, skáldskaparskrif eða sambönd við fólk var að ræða, og Kirkpatrick sýnir einnig fram á að allt líf Simone og samband við Jean Paul Sartre var þrúgað af heterónormatífum hugmyndum. Nýja ævisagan er engin helgisaga og Simone var líka mun svalari manneskja en oft er látið í veðri vaka. Skiptir það máli? Já, mér finnst það. Hún var heimshornaflakkari sem umgekkst Picasso, Josephine Baker, Louis Armstrong og Miles Davis. Charlie Chaplin og Le Corbusier djömmuðu með henni í New York, og án þess að ég láti hvarfla að mér að reka áróður fyrir vímuefnaneyslu þá sagðist Simone de Beauvoir eitt sinn hafa reykt sex jónur í partýi án þess að verða útúrskökk. Það er auðvitað óþarfi að gera lítið úr mikilvægu sambandi sálufélaganna Simone de Beauvoir og Jean Paul Sartre, en það er mjög þrengjandi og niðurnjörfandi að hugsa aldrei um hana án þess að skuggi hans vomi yfir henni. Nýja ævisagan sýnir það glögglega.
Sagan er aldrei fullsögð
Nú er komið að lokum þessa pistils. Hverju var ég aftur að velta fyrir mér í upphafi? Jú, alveg rétt: Spurningin var, vantaði mig nýja ævisögu Simone de Beauvoir? Vantaði okkur öll nýja ævisögu Simone de Beauvoir? Svar mitt er afdráttarlaust: JÁ! Reglulega er þörf á að skoða og endurskoða allar sögur og velta við nýjum steinum. Og engin saga verður nokkurn tíma fullsögð. Ég lýk þessu með lokaorðum bókarinnar: Augnablikin í lífi hennar voru ótrúlega margslungin og fjölbreytileg. En ef það er eitthvað eitt sem hægt er að læra af lífi Simone de Beauvoir þá er það eftirfarandi: Engin verður hún sjálf algjörlega upp á eigin spýtur.
1 ummæli:
Skrifa ummæli