Margir vita ekki að Tove Jansson, höfundur bókanna um Múmínálfana og alla furðulegu vini þeirra, skrifaði ekki bara bækur fyrir börn (reyndar hugsaði hún Múmínálfabækurnar ekki síður sem lesningu fyrir fullorðna). Hún skrifaði líka um tug ágætra bóka fyrir fullorðna, sem hafa fallið í skuggann vegna gífurlegra vinsælda Múmínálfabókanna.
Ég held mjög mikið upp á litla bók eftir Tove Jansson sem heitir Sommarboken, eða Sumarbókin og kom fyrst út árið 1972. Sumarbókin fjallar um hina sex ára gömlu Soffíu og fjörgamla ömmu hennar, en þær dvelja saman um sumar á pínulítilli vindasamri eyju. Báðar eru þær sérvitrar með afbrigðum og skapmiklar líka og á ýmsu gengur í samskiptunum. Stelpan hefur misst mömmu sína og amman og hún ræða saman um hitt og þetta sem tengist lífi og dauða, meðal annars ber á góma hvort það séu hugsanlega til maurar í himnaríki. Þær teikna saman og búa til skúlptúra og endurbyggja Feneyjar í drullupolli og þær lenda líka í miklu ofviðri. Samtöl Soffíu og ömmu hennar eru stórskemmtileg og minna oft á samtölin í Múmínálfabókunum. Barnið spyr sakleysislegra spurninga og amman svarar, en hún er húmoristi og kann að leika sér og sprella. Þannig er heilmikil "Múmínálfastemning" í Sumarbókinni, Amman á ýmislegt sameiginlegt með Múmínmömmu. Hún fylgist með barninu eins og verndarengill með annað augað opið, en leyfir því þó algerlega að ráða för, gera mistök og þroskast á eigin forsendum. Sú gamla á ekki langt eftir en hún hefur ekki mjög miklar áhyggjur af dauðastundinni. Henni finnst verra að hún man ekki nógu vel hvernig tilfinning það er að sofa í tjaldi og hún sér eftir að hafa ekki sagt gömlum kærasta að henni hafi aldrei þótt sjerrí góður drykkur.
Milli þess sem Soffía vex og amman eldist og þær leika sér saman, spjalla þær á heimspekilegum nótum. Þær ræða um hvernig það sé að vera maðkur, sem er þræddur uppá öngul eða höggvinn í sundur með skóflu, þær ræða um guð og himnaríki og helvíti og hvort það síðastnefnda sé virkilega til. Soffía spyr hvernig guð geti eiginlega fylgst með öllum sem biðja bænirnar sínar á sama tíma og amman reynir að snúa sig útúr spurningunni og segir að guð sé bara svo hrikalega klár. En barnið sættir sig ekki við þetta svar og endurtekur spurninguna og þá segir amman að guð almáttugur sé með fjölmarga ritara í vinnu sem aðstoði hann við að fylgjast með þeim sem biðja til hans.
Hver kafli Sumarbókarinnar gæti staðið einn sem sérstök saga og hver setning er einföld en textinn er djúpur, allt er yfirvegað og engu ofaukið. Ýmislegt eftir Gyrði Elíasson minnir mig sterklega á Sumarbókina, ég þori næstum að vaða blint í sjóinn og veðja vinstri handleggnum upp á að Gyrðir hefur einhvern tíma lesið þessa bók.
Sumarbókin hefur því miður aldrei verið þýdd á íslensku fremur en mörg önnur verk Tove Jansson en hún er til á Norðurlandamálunum, ensku og fjölmörgum öðrum tungum fyrir þá sem hafa áhuga.
8 ummæli:
Mig hefur lengi langað að lesa þessa bók. Áttu hana á sænsku, Þórdís?
Já, ég á eintak á sænsku.
Má ég fá það lánað?
Já já já.
Sæl Þórdís,
hef fyrir því ansi áreiðanlegar heimildir að þú hittir naglann á höfuðið varðandi Gyrði og Tove.
Kærar þakkir fyrir skemmtilegar færslur, þessa og aðrar.
Magnús Sigurðsson
Ég á bæði Sumarbókina og Vetrarbókina eftir Tove - í enskum þýðingum reyndar - þetta leggur maður á sig þegar maður er ekki sleipur í sænskunni...
Ég er nú venjulega ekki par hrifin af "heimspekilegum" bókum - sérstaklega ekki þar sem börn og gamalmenni ræðast við - en Tove er svo mikill snillingur og húmoristi að hún kemst upp með þetta væmnislaus að vanda...
Bókin sem heitir The Winter Book á ensku er held ég örugglega bara til í enskri útgáfu. Sú bók er allavega safn kafla úr Bildhuggarens dotter (sem er eins konar endurminningabók, eða hefur allavega verið gefin út með þeim formerkjum) og nokkrum öðrum sögum sem hún skrifaði.
Og gaman að heyra að ég hafði rétta tilfinningu gagnvart Gyrði og Sommarboken.
Mer thykir voda vaent um Sumarbokina. Textinn er svo latlaus, laus vid tilgerd og ekkert otharfa rofl. Eg keypti hana herna i UK asamt Vetrarbokinni (voru seldar saman a tilbodi) Hef ekki enn lesid tha sidarnefndu...kannski ad thad fari ad koma ad thvi
kv
Thordis hin
Skrifa ummæli