6. júlí 2011

Þegar Skippy dó


Ókei, þegar maður er farinn að mikla það fyrir sér að skrifa bókablogg af því að það þurfi að vera svo agalega sniðugt, skemmtilegt, gáfulegt og einstakt, þá er sennilega kominn tími til að skrifa stuttan og ófullkominn pistil til að sanna það fyrir sjálfri sér að það sé hægt. Það er yfirleitt auðveldast að skrifa um það sem manni finnst mjög gott eða mjög vont - þannig að ég ákvað að kynna lesendur síðunnar fyrir þeirri bók sem hefur vakið hvað mesta lestrarlukku hjá mér það sem af er þessu ári. Af þeim 53 bókum sem ég er búin að lesa í ár (já, ég er njörður sem skrifa hjá mér allt sem ég les) er það Skippy Dies eftir írska höfundinn Paul Murray sem hefur vinninginn, þótt vissulega séu nokkrar sem fylgi fast á eftir.

Skippy Dies er ekki stutt bók - 661 blaðsíða, takk fyrir pent - en ég gleypti hana samt í mig á þremur eða fjórum dögum nú í vor. Hún var longlisted fyrir Bookerinn og einhver fleiri verðlaun, en Paul Murray hefur áður skrifað bókina An Evening of Long Goodbyes, sem ég mun sannarlega festa kaup á í næstu Bretlandsferð.

Þótt bókin gerist í Dublin er þetta við fyrstu sýn ekkert mjög kunnuglegt Írland. Það tók mig smátíma að átta mig á því hvað ylli, en eftir talsverðar vangaveltur fattaði ég að flestar írskar bækur sem ég hef lesið gerast meðal fólks úr verkamannastétt eða í einhverjum afdölum. Skippy Dies gerist hins vegar í einkaskóla fyrir drengi þar sem nemendurnir koma úr vel stæðum fjölskyldum. Talsmáti aðalpersónanna er þess vegna efrimiðstéttarlegur og frekar sérkennalaus, ólíkt flestu írsku efni sem maður les og sér.

Eins og fram kemur í titli bókarinnar hverfist sagan í kringum andlát téðs Skippys, sem er lítill og pervisinn fjórtán ára skólastrákur. Murray kemur sér strax að efninu og í formálanum lætur Skippy lífið í kleinuhringjaátkeppni með besta vini sínum, hinum skarpgreinda en félagslega takmarkaða Ruprecht. Við fáum síðan að lesa um það sem leiðir til andláts Skippys, um vinahóp Skippys og Ruprechts, um að því er virðist vonlausa ást Skippys á pæjunni Lori úr stelpnaskólanum við hliðina, um smákrimmann og dílerinn Carl sem er hættulegur sjálfum sér og umhverfi sínu, um sögukennarann Howard the Coward sem tekur miðaldrakreppuna út fyrir þrítugt, og um atburðina sem leiddu til þess að hinn vinsæli íþróttakennari skólans örkumlaðist og Howard fékk þetta óheppilega viðurnefni. Það eru semsagt margir þræðir í bókinni og þeir liggja í allar áttir, fléttast saman og sundur á að því er virðist átakalítinn hátt frá höfundarins hendi. Mikið sem ég dáist að höfundum sem geta þetta án þess að það verði tilgerðarlegt eða stirt. Uppbyggingin er virkilega góð; þrátt fyrir að fyrst og fremst sé sagan karakter-drifin (frekar en drifin áfram af plottinu) er atburðarásin markviss og alls kyns leyndarmál og óvæntur sannleikur undir yfirborðinu. Þrástefið er kannski einmitt þöggun, það hvernig umhverfið getur orðið til þess að bæla niður allt sem er satt, allt sem er óþægilegt og líka það sem er fallegt. Þannig er sögusviðið sérlega vel valið - stífur, kaþólskur drengjaskóli þar sem skapandi, gagnrýnin hugsun er illa liðin og sannleikanum er sópað undir teppið ef það hentar betur. Persónurnar nota ýmist dóp, áfengi, afneitun, kynlíf, átraskanir, skammtafræði eða lygar til að flýja.

Paul Murray hefur verið lýst sem skophöfundi og Skippy Dies er vissulega viðbjóðslega fyndin. Lesturinn er skemmtilegur og léttur, en einhvern veginn tekst Murray samt að glíma við verulega stórar spurningar. Bókin hafði mikil áhrif á mig, svona hægvirkandi áhrif sem mögnuðust frá því ég hló að fyrsta kaflanum og þar til ég skældi yfir þeim síðasta. Þegar upp var staðið fannst mér bókin ekki síst fjalla um karlmennsku, eða um samfélag karlmanna, á algjörlega óklisjukenndan hátt og óvæntan. Allt frá Carl sem rúnkar sér tómeygður yfir ofbeldisklámi á netinu og þagnarsamsæri skólastjórnenda til írsku hermannanna í fyrri heimsstyrjöldinni og samskipta vinahóps Skippys og Ruprechts.

Semsagt: Ég mæli einlæglega með Skippy Dies. Ég fékk hana lánaða á Borgarbókasafninu, svo það er lítið mál að nálgast hana hér á landi á. Og nú er ég búin að blogga, svo það er ekkert því til fyrirstöðu að gera það aftur við fyrsta tækifæri.

3 ummæli:

Garún sagði...

Þessi pistill var bara dágóður og vekur hjá manni löngun til þess að lesa þessa bók. Gaman að sjá hvernig efrimiðstéttarírska hljómar!

Hildur Knútsdóttir sagði...

Já ég er að pæla í að tjékka á þessari. Mér finnst ég nefnilega alls ekki hafa lesið nógu mikið af írskum bókum.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ég var Írlandsnjörður á menntaskólaárunum og hef lesið fullt af skemmtilegum írskum, gæti verið efni í nýjan pistil? Svo var ég næstum farin til Dublin að læra skapandi skrif, eða ég sótti um master þar og komst inn en valdi á endanum Glasgow því þaðan var beint flug til Íslands. Ókei, fleira hafði áhrif en án gríns, þegar maður er búinn að búa í Wales í þrjú ár og eyða óheyrilega miklum tíma og peningum í að komast heim í jóla- og sumarfrí þá verða hlutir eins og "lítið vesen að komast til Íslands" mjög mikilvægir.