Belgískur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu fyrir helgi að bókin Tinni í Kongó brjóti ekki gegn belgískum lögum gegn kynþáttahatri, en til þess hefði þurft að sýna fram á að bókinni hefði verið ætlað að hvetja til rasisma. Kongómaðurinn Bienvenu Mbutu Mondondo hefur staðið í lagaferlum gegn bókinni í nokkur ár, í Belgíu og í Frakklandi.
Tinni í Kongó var önnur Tinnabók höfundarins Hergé. Sagan kom fyrst út á bók árið 1931 og aftur í endurbættri útgáfu árið 1946. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar hún um ævintýri aðalsöguhetjunnar Tinna í Afríkulandinu Kongó. Tinni í Kongó hefur löngum verið umdeild, og gagnrýnd fyrir að draga upp neikvæða og rasíska mynd af Kongóbúum sem lötum einfeldningum. Sums staðar í Bretlandi er hún flokkuð með bókum fyrir fullorðna af þessum sökum. Hergé var víst sjálfur síðar á ferli sínum ekki alls kostar ánægður með bókina.
Þetta minnir á deilurnar sem komu upp á Íslandi fyrir nokkrum árum kringum endurútgáfuna á Tíu litlum negrastrákum. Ég held að fæstir hafi viljað banna útgáfuna, en það komu upp svipaðar hugmyndir um að gefa hana út með sögulegum skýringum eða færa hana úr barnabókahillunum í fullorðinsdeildina, að gera einhvers konar „ábyrgðarfulla útgáfu“ af bókinni, sem væri þá alltént ekki varpað formálalaust í hendurnar á börnum.
Það kom mér á óvart þá og kemur mér á óvart í þessu tilfelli að sumir hreinlega neiti því alfarið að það sé rasískur undirtónn í bókunum. Jafnvel þótt fólki finnist ekki ástæða til að grípa til ráðstafana þess vegna hlýtur hver manneskja með grundvallarþekkingu á 20. aldar sögu að sjá að ríkjandi viðhorf Evrópumanna til þeldökkra Afríkubúa var rasískt, rétt eins og konur voru undirskipaðir þjóðfélagsþegnar, og svo framvegis. (Og framferði Belga í Kongó gegnum tíðina yfirleitt ekki talið þeim til mikils sóma.) Málið hlýtur að snúast um það hvernig sé best að takast á við þessa arfleifð, sem lifir auðvitað góðu lífi víða enn í dag.
Hvað fyrrnefndan dómsúrskurð í Belgíu varðar kemur hann í fljótu bragði ekki á óvart, þar sem Mondondo hefði eins og áður segir þurft að sýna fram á að það hefði beinlínis verið ásetningur Hergé að hvetja til kynþáttahaturs, en hann ku ætla að áfrýja dómnum.
1 ummæli:
Það ætti kannski að gera lista yfir svona bækur sem eru imperelískt vafasamar, t.d. barnabókin Lína langsokkur í Suðurhöfum kemur óvart, því Lína hefur frekar p.c. stimpil en það voru ansi margar setningar sem ég þurfti að fjarlægja úr henni...
Skrifa ummæli