Eins og bækurnar eftir einn af mínum uppáhalds barnabókahöfundum – Anne-Cath. Vestly þá væri hægt að flokka Randalín og Munda sem hversdagsævintýri. Báðir höfundar kunna þá list að gera hversdaginn merkingarbæran. Þótt lygilegir og magnaðir atburðir eigi sér stað í bókinni þá eru þeir einhvern veginn þannig að hvert barn ætti í raun að geta lent í svipuðu fjöri – ef þau eru bara jafn frjó og skemmtileg og Randalín og Mundi. Svo er líka vert að minnast á það er alveg möguleiki á að vaxa og læra án þess að missa fót eða foreldri - maður getur líka þroskast við að kynnast skrítnum nágrönnum og taka strætó!
Hér má sjá Randalín og Munda njóta tónlistar |
Reykingarnar fóru ekki alveg nógu vel í Randalín |
Randalín og Mundi eru að mörgu leyti tímalausar persónur og gætu verið til hvar og hvenær sem er en hins vegar er sagan kyrfilega staðsett í Austurbæ Reykjavíkur í dag og það er skemmtileg nýlunda í barnabókaflórunni. Sjálf ólst ég upp í Þingholtunum og fannst á tímabili í æsku minni að öll börn Íslenskra barnabókmennta byggju í sveit eða Vesturbænum – en hér má sjá hversu skemmtilegt það getur verið að alast upp í miðbænum þar sem alls konar fólk býr í alls konar húsnæði og óvenjulegar búðir finnast enn. Ég eyddi einmitt hverri krónu sem safnaðist í sparibaukinn í fornbókabúðinni Bókinni sem var á Laugavegi 1 og á enn í dag gersemar þaðan...en nóg af nostalgíu – Randalín og Mundi er fullkomlega laus við slíkt – þetta er Reykjavík í dag, krakkarnir fara á Barnaland, kynnast plötusnúð og hitta Mugison og hér er bent á youtube í neðanmálsgrein (já það er neðanmálsgrein á blaðsíðu 48).
Bókin er fyndin – og ekki síður fyrir fullorðna en börn. Hún er þó blessunarlega laus við tvíræðnina sem hefur dáldið verið að sliga barnaefni undanfarin ár þar sem allir brandarar eru í raun dulbúið grín handa fullorðna fólkinu. Hér held ég að börn og fullorðnir geti hlegið að sama húmornum:
„Síld var eitt af því viðbjóðslegasta sem Randalín hafði smakkað. Hana langaði mest til að það yrðu sett einhver matarlög þar sem síld yrði hreinlega alfarið bönnuð á Íslandi. Nema náttúrulega úti í sjó, þar mátti síldin synda alveg villt og galið hennar vegna.“ (bls. 50-51)
„Getið þið þagað yfir leyndarmáli? Spurði Jakob Múhameð. Ég meina hvort þið getið grjóthaldið kjafti ef ég sýni ykkur svolítið, þið verðið að sveia ykkur upp á að þið básúnið það ekki út um allan bæ. -Já, já, sagði Mundi.
Randalín kinkaði hugsandi kolli og sagði síðan alvarlega: - Ég skal svoleiðis steinþegja á meðan ég er vakandi, en ég get ekki lofað að kjafta ekki upp úr svefni.“ (bls. 42)
Og af því bókin er myndskreytt má ekki gleyma að minnast á myndirnar sem eru eftir Þórarinn M. Baldursson og alveg sérstaklega skemmtilegar. Í barnabókinni Ólíver sem ég fjalla um hér er uppáhaldsmyndin mín úr bókasafninu – en hér er hún úr Fornbókabúð Braga sem spilar stóra rullu í sögunni. Hér ægir öllu saman eins og vera ber í fornbókaverslun, myndir, blöð og bækur og auðvitað fólk að gramsa í gersemunum. Hér má til dæmis sjá tvær gamlar konur príla uppá hvor annarri til að komast í sérlega háar hillur og svo er alvarlegur maður að glugga í bókina Vandamál annarra (skemmtileg vísun í ljóðabók Þórdísar) og hér og þar getur glöggur lesandi greint titla á borð við Svínarækt, Sorgarsaga og Ömmur í 100 ár (bók sem mér finnst tvímælalaust vanta á markaðinn). Uppáhalds hornið mitt í búðinni er þó kassi upp undir lofti merktur Mislukkaðar bækur (ekki henda samt) en þar eru meðal annars bækurnar Húsnúmeraskrá og Tannsaga mín.
Ef ég ætti að finna eitthvað að bókinni þá væri það helst að hún er eiginlega of létt og skemmtileg – eins og Jane Austen sagði um Pride & Prejudice þá vantar dökku og skelfilegu kaflana í hana. Kannski hefðu Randalín og Mundi mátt lenda í meiri átökum - eins og þetta er brosir maður eiginlega bara spjaldanna á milli. Jú og svo hefði bókin alveg mátt vera lengri!
1 ummæli:
En skemmtilegt. Hlakka til að lesa þessa.
Skrifa ummæli