4. nóvember 2011

Bókmenntir á alþjóðlegri afmælisráðstefnu RIKK

Í dag og á morgun, 4.-5. nóvember, fer fram við Háskóla Íslands alþjóðleg afmælisráðstefna Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Þetta er heljarinnar ráðstefna, með þremur erlendum lykilfyrirlesurum og tuttugu málstofum, þar á meðal nokkrum sem tengjast bókmenntum sem eru hver annarri meira spennandi. Þær eru:

Á rauðum sokkum: baráttukonur segja frá, sem fer fram eftir hádegi í dag. Málstofan er haldin til að fagna útgáfu bókar um Rauðsokkahreyfinguna eftir þrettán rauðsokkur og þar munu rauðsokkur og fræðimenn ræða baráttu og árangur hreyfingarinnar, form hennar og uppbygingu, og bókina sjálfa.

Ljóð kvenna, sem fer fram á sama tíma. Þar verður rætt um ljóðagerð Herdísar Andrésdóttur, Halldóru Kristínar Thoroddsen, Ingunnar Snædal og ítalskra kvenfútúrista.

Konur í skáldskap karla I og II – sú fyrri fer fram í eftirmiðdaginn í dag en hin um hádegisbilið á morgun. Í fyrri málstofunni verður fjallað um Evu, formóður kvenna, franskar bókmenntir, ástandskonur í íslenskum hernámssögum eftir karla, móðurdýrkun í Nonnabókunum og óhemjulæti kvenna í smásögum Halldórs Stefánssonar. Í þeirri seinni – en þar verður málstofustjóri okkar eigin frábæra útvarpskona og bókmenntafræðingur Þorgerður E. Sigurðardóttir – verður fjallað um konuna sem ráðgátu í myndum Hitchcocks, hina fullkomnu konu, yngismærina og spegilmynd hennar og konur og ofbeldi í skáldsögum Ian McEwan.

Minni, gleymska, kyn, sem fer fram í eftirmiðdaginn á morgun. Þar verða hvorki meira né minna en sex fyrirlestrar; um konur, bókmenntir og spænsku borgarastyrjöldina, um eiginkonur föðurlandssvikara í Sovétríkjunum, vinnu barna á Íslandi, Tyrkjaránið, karllæga ímynd víkinga í samfélagslegu minni og rússneska rithöfundinn Ljúdmílu Úlitskaju.

Nákvæma dagskrá ráðstefnunnar með öllum upplýsingum, tímasetningum og þess háttar, má finna hér.

Engin ummæli: