15. nóvember 2011

Úti í sveit að dást að næpu: viðtal við Sölva Björn Sigurðsson

Druslubókadömur eru skyggnar, það staðfestist hér með. Fengum þá flugu í höfuðið að taka viðtal við Sölva Björn Sigurðsson, án þess að vita að hann væri að gefa út bók þessi jólin, og mættum honum svo barasta á Þjóðarbókhlöðunni með handrit undir hendinni svo að segja daginn eftir. Ekki að það væri ekki full ástæða til að spjalla við Sölva þótt hann væri ekki að gefa út fyrir jólin, en samt gaman. Nýja bókin hans heitir Gestakomur í Sauðlauksdal og er að koma út hjá Sögum um þessar mundir, en eins og kemur fram í viðtalinu fjallar hún um kartöflubónda sem á sér þann draum heitastan að halda jólaveislu sem slær allt annað út.

Varstu í Frankfurt? Hvernig leist þér á bókamessuna?

Bókamessan var góð og ég gerði hina og þessa samninga við útlendinga, sem var mjög hressandi. Mér fannst skemmtilegast að standa afsíðis í íslenska skálanum, reika þar um í rökkrinu eða stara dreyminn á risavöxnu bókaskjána. Vissi ég þá oftast ekki fyrr en heyrðist viðkunnanlegt „hæ!“ og ég var búinn á rekast á einhvern sem ég þekkti, þetta minnti mjög á hlé í kvikmyndasýningu. Ég myndi segja að þetta hafi verið mjög vel heppnað.


Það er ekki hægt að segja að þú hafir mikið verið að endurtaka þig í skáldskapnum síðustu árin: uppvaxtarsaga af Selfossi, söguljóð af djamminu ort undir bragarhætti Dantes, Murakami-innblásin Reykjavíkursaga, skáldsaga um drykkfelld mæðgin og annað dauðvona í Amsterdam. Finnst þér mikilvægt að vera alltaf að prófa eitthvað nýtt eða gerist þetta bara óvart?

Ef mér finnst hugmynd nógu góðu til að fylgja henni eftir læt ég mig ekki of miklu varða þótt hún sé kannski á skjön við það sem ég hef áður gert. Nýja skáldsagan mín gerist á 18. öld og fjallar um kartöflubónda sem á sér þann draum heitastan að halda jólaveislu sem slær allt annað út. Hún sækir svolítið í tungutak þessa tíma og er að því leytinu ólík fyrri bókunum. Ég veit ekki af hverju þetta fer svona, kannski er þetta það sem franski draumhyggjumaðurinn Breton kallaði automisma, hann er sambærilegur dáleiðslu að því leyti að maður veit ekki hvað maður hefur gert fyrr en eftirá, og stundum aldrei. Þetta er óbærilegt ástand, en svona lifir maður.

Hvað finnst þér um þá aðferð að reikna út fjárhagslegan ávinning samfélagsins af listum til að sannfæra fólk um að þær hafi eitthvert gildi, sbr. listamannalaunaumræðuna sem reglulega kemur upp?

Mér finnst það alveg góð og gild aðferð, sérstaklega fyrir stéttarsamtök sem standa í brasi við að verjast árásum þeirra sem finnst list vera peningasóun. Rökin sem nota má fyrir efnislegu gildi listarinnar hafa sýnt að hún skilar sínum framlögum til baka í umframmagni. Og svo er auðvitað öll „afleiðslan“. Þegar Retro Stefson spilar á Airwaves þá fyllast öll hótel í Reykjavík og það þarf að fá fleira fólk til að koma og elda mat og skúra, það þarf að kalla út auka leigubíla og setja nefnd á laggirnar um hvernig megi auka framlegð í hótelrekstri, lóðir fara í útboð og fasteignasalar fyllast nýrri bjartsýni um að heimurinn eigi sér ennþá von, það verði hagvöxtur. Svona má reka skynugt fólk út úr karphúsinu, ef maður vill.

Almennt held ég samt að við höfum allt of mörg reiknikerfi til að standa skil á mjög einföldum heimi: við viljum ást, fegurð og kærleika og síðan deyjum við. Í millitíðinni eru byggðir turnar fullir af þrekuðum manneskjum í talnaflóði sem skilja ekki hvers vegna þær eru ekki úti í sveit að rækta kartöflur. Artemetis skrifaði sína stærðfræði í sandinn. Mannskepnan er mikið dýr og hrædd við að annað samskonar dýr komi og éti hana, eða sé jafnvel að éta eitthvað einhvers staðar þar sem hún veit ekki að hægt er að éta, þegar raunin er sú að þessi hættulegi keppinautur ímyndunaraflsins er í hægðum sínum úti í sveit að dást að næpu.

Nú ert þú ekki bara skáld heldur líka þýðandi og færð þess vegna sömu spurningu og ljóðskáld og barnabókahöfundar og aðrir sem fást við bókmenntagreinar í varnarstöðu: hver er staða þýðinganna í íslenskum bókmenntaheimi í dag? Er ástæða til að örvænta?

Þessi staða gæti svosem verið betri. Á blómatíma íslenskrar bókaútgáfu, fyrir svona 60-70 árum, þá voru reknir bókaklúbbar þar sem þúsundir manna (og þá var þjóðin miklu fámennari en hún er núna) keyptu þýddar heimsbókmenntir í áskrift og lásu þær upp til agna, lánuðu svo vinum sínum osfrv. Það er kannski sjónvarpið, eða internetið, sem hefur breytt þessu. Nú er meirihluti útgefinna skáldsagnaþýðinga sögur sem veita fólki andartaks sálarfrið og algleymi yfir fléttu, ekkert ósvipað og þegar maður spilar æsilegan golfleik í Wii-tölvu. En fyrst þú nefnir varnarstöðu, þá er mér til efs að til sé fallegri skjöldur en Rassmus Klumpur og Norðurpóllinn. Væri nokkurn tíma hægt að örvænta með Bróður minn Ljónshjarta þétt uppvið nakið, titrandi brjóstið á sér? Ég er mjög fylgjandi því að við þýðum góðar bækur frá öðrum löndum. Það auðgar menningu okkar og gerir rithöfundana færari, sem þýðir að við fáum líka betri bókmenntir. Ég er alls ekki fullur vonleysi, því á hverju ári koma út góðar bækur í vönduðum íslenskum þýðingum. En þær eru auðvitað miklu færri en krimmarnir.

Finnst þér að bækur eigi að vera skemmtilegar?

Jájá. Mér finnst allavega mjög leiðinlegt að finnast leiðinlegt. Það þýðir samt ekki að allar bækur þurfi að vera ofboðslega fyndnar eða spennandi. Þegar ég las Invention of Solitude fyrir svona tólf-þrettán árum man ég að mér hún frábær, en ég held hún hafi hvorki verið fyndin né mjög spennandi. Lestur er svo sérstök skemmtun að því leyti að hann kemur sálarlífinu af stað og hefur oftast dýpra skemmtanagildi en til dæmis sjónvarp. Mér finnst stundum skemmtilegt að horfa á sjónvarp en það er sjaldgæft að það veiti manni jafn mikið og bók sem nær á manni heljartökum.

Hvað hlakkarðu mest til að lesa í jólabókaflóði ársins?

Mér sýnist vera að koma út óvenjulega mikið af spennandi skáldsögum svo ég býst við að halda mig mest við þær. Ég hef verið að lesa sögu Hallgríms Helgasonar og er mjög hrifinn af henni. Bækur Oddnýjar Eirar, Steinars Braga og Hauks Ingvarssonar lofa líka góðu, ásamt reyndar fjölda annarra skáldsagna. Svo eru líka áhugaverðar þýðingar að koma út, til dæmis Hvernig ég kynntist fiskunum. Verst er hvað maður er gjarn á að lesa sjálfan sig, bæði upphátt fyrir aðra en stundum líka í einhverjum transi heima hjá sér, nánast án þess að gera sér grein fyrir því. Þetta er einhver óhugguleg sjálfselska sem ég á erfitt með að skilja. Mér kæmi ekki til hugar að rjúka í símaskrána ef ég þyrfti skyndilega að finna íbúð í Kópavogi út af afmæli, ég færi alltaf fyrst að lesa sjálfan mig, á leiðinni að panta leigubíl, helst einhvers staðar þar sem enginn sér eða til dæmis inni í eldhúsi að leita að síma – þá sé ég bók eftir sjálfan mig í gluggakistu og hugsa nei sko, en gaman!

Í síðustu bók þinni, Síðustu dagar móður minnar, innbyrða persónurnar ótrúlegt magn fjölbreytilegra áfengistegunda. Með hvaða íslenska höfundi myndir þú helst vilja deila campariflösku?

Campari er í sjálfu sér ógeðslegt, eins og flest áfengi, en maður á lítið val þegar einhver stendur yfir manni og kneyfir það í mann með handafli. Ég gæti þá helst hugsað mér einhvern góðan vin, eins og til dæmis Friðrik Sólnes, sem hefur skrifað skemmtilega grein um ljóðlist Gaddafis. En það væri líka gaman að láta koma sér á óvart. Ef dauðinn væri ekki fyrirstaða myndi ég velja Þórberg.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegt viðtal, takk.

Nafnlaus sagði...

Þetta var Kristín sem talaði frá París.