18. desember 2011

Bókaspjall um flökkubókmenntir og Götumálara Þórarins Leifssonar

Guðrún Elsa og Kristín Svava hugsuðu sér gott til glóðarinnar þegar þeim barst nýjasta bók Þórarins Leifssonar, Götumálarinn, enda báðar miklir aðdáendur barnabóka Þórarins, Leyndarmálið hans pabba og Bókasafn ömmu Huldar, þar sem undirtónninn er oft bæði pólitískur og fullur af svörtum húmor. Götumálarinn er „fullorðinsbók“ þar sem Þórarinn segir frá ferðalögum sínu sem götumálari og flækingur á Spáni og í Marokkó þegar hann var um tvítugt og því þegar móðir hans og systir fara af stað til að leita að honum.

KS: Ég var búin að hlusta á fínt viðtal druslubókadömunnar Þorgerðar E. Sigurðardóttur við Þórarin í Víðsjá áður en ég las bókina, og bókin kom mér dálítið á óvart eftir að hafa heyrt viðtalið – og líka bara eftir að hafa lesið aftan á kápuna. Þórarinn er augljóslega að skrifa inn í hefð flökku- eða ferðabókmennta. Hann nefnir sjálfur Dagbók þjófs eftir Jean Genet í viðtalinu, annars staðar sá ég að teikningarnar hans í bókinni vísa til Góða dátans Svejk, en svo má líka nefna bækur á borð við On the Road eftir Jack Kerouac. Það er verið að gefa borgaralegu líferni fingurinn, reglubundnu hversdagslífi með vinnu níu til fimm og svo framvegis, með því að flakka um, vinna sér inn pening eftir hentisemi, vera í tilviljanakenndum félagsskap hins og þessa fólks. Það sem ég fílaði ekki síst er að Þórarinn er ekkert að rómantísera þetta, það eru engir snillinga- eða hetjukomplexar í gangi eða háfleygar sjálfsánægðar vangaveltur um það hvernig hann hafnar hinu smáborgaralega hugarfari. En það kom mér á óvart hvað hann gengur langt með það; ég segi ekki að frásögnin sé steríl en stíllinn er rosalega látlaus, það er sagt frá hlutum eins og heróínneyslu og hættulegum villum á marokkóskum fjöllum í nákvæmlega sama tóninum og sagt er frá dvöl á virðulegum gistiheimilum. Frásögnin rennur þess vegna einkennilega ljúflega miðað við hversu óvenjulegt frásagnarefnið er – hann gerir hið óvenjulega venjulegt. (Þetta hefur skapað fyndinn kontrast í mörgum viðtölum og umfjöllun um bókina, þar sem blaðamaðurinn er að jesúsa sig yfir viðskiptum Tóta við lögregluna og eiturlyfjaneyslu og útigangi og reyna að gíra þetta upp í svakalega dramatík þegar textinn sjálfur gerir frekar í því að tóna hana niður. Enda sagði Þórarinn í fyrrnefndu Víðsjárviðtali að hann hefði jafnvel verið að pæla í að sleppa t.d. heróínneyslunni svo þetta færi ekki að minna á bækur með uppeldisboðskap eins og hann hefði fengið að gjöf á unglingsárum sínum.)

Í upphafi hvers kafla er mynd. Okkur fannst
þessi ein sú skemmtilegasta í bókinni.

GE: Það var skemmtilegt að hann skyldi minnast á bók Genet, ekki síst vegna þess að við ætluðum alltaf að bókablogga um hana! Mér fannst samt að einhverju leyti óþægilegt að vera með Dagbók þjófs á bak við eyrað þegar ég byrjaði að lesa Götumálarann, einfaldlega vegna þess að bækurnar eru svo ólíkar. Jafnólíkar og On the Road og Dagbók þjófs eru. Viðfangsefnið er þó að mörgu leyti hið sama – flakk og betl – þótt Genet gangi síðan lengra og geri þetta að lífsstíl sem hann heldur árum saman, verði glæpamaður og þurfi að dvelja í fangelsi reglulega. Þórarinn gerir þennan mun meðal annars að viðfangsefni sínu í bókinni, muninn á honum sem lifir flökkulífi tímabundið (og þegar honum sjálfum sýnist) og þeim sem þekkja ekkert annað. Þegar hann og vinur hans Sjan-Klot rífast eitt sinn segir sá síðarnefndi: „Þú ert bara ríkur krakki að leika þér í slömminu. Getur farið heim hvenær sem þér sýnist. Getur hringt í mömmu þína og látið hana senda þér flugmiða. Við hin … við eigum engan stað til að fara á, skilurðu? Við erum í þessu upp á líf og dauða.“ (Götumálarinn, bls. 256) Það er til dæmis út af þessum mun sem mér finnst mjög gott að Þórarinn skrifi um flakkið blátt áfram, að hann upphefji reynsluna ekki eins og þetta væri bara frábær kostur fyrir okkur forréttindaplebbana eitthvert sumarið. Frásagnarstíll Jean Genet er allt annar, því þótt hann segi sjálfur að hann hafi aldrei reynt að fegra lífið á götunni, þá leggur hann sig fram um að finna fegurð í skítnum og upphefur í sífellu alla lágkúru; hugleysi, óheiðarleika, þjófnað, liðhlaup og hvers konar svik og trúnaðarbresti. Það var aðeins á einum stað í bók Þórarins sem ég fann einhverja upphafningu, þar sem hann talar um „gullfallega“ sígaunastelpu, „ósnertanleg[a] veru frá öðrum hnetti“ (bls. 46). Þá hnussaði í mér (ég er náttúrulega svo mikill töffari) og ég hugsaði að Genet hefði aldrei sagt þetta, nema hann væri að tala um spilltan og ruddalegan lögregluþjón. Þessi munur á bæði upplifun og frásagnarstíl Þórarins og Genets endurspeglast líka í því að Þórarni finnst „heimur umrenninga meira eða minna kynlaus“ (bls. 147) á meðan mikil gredda einkennir frásagnir Genets af götulífinu.

KS: Já, mér fannst pælingarnar um hið kynlausa umrenningalíf mjög áhugaverðar. Hann segir til dæmis frá því að stelpurnar á götunni hafi varið sig gegn kynferðislegri áreitni með því að þrífa sig ekki eða skipta um föt, og eins með því að halda hunda. Ég velti fyrir mér við lesturinn hvort hitt götufólkið, til dæmis stelpurnar, hefðu líka lýst lífinu á götunni sem kynlausu. En hvað frásagnaraðferðina varðar og afstöðuna gagnvart söguefninu er hún dálítið tvíbent. Annars vegar er hún mjög hressandi og óvenjuleg en svo hefði maður líka alveg verið til í meiri átök. Ég var einna hrifnust af síðasta kaflanum, þar sem Tóti fær krísukast eftir að hann er orðinn fjölskyldufaðir og eyðir heilum vetri í Barcelona að reyna að endurlifa liðna tíma, en uppgötvar að hann getur það ekki og kemur til baka eymdin uppmáluð. Þetta er eiginlega eini kaflinn þar sem hann setur hlutina í eitthvað samhengi, veltir eigin sögu meðvitað fyrir sér. Ég hefði verið alveg til í aðeins meira svoleiðis, það hefði alls ekki þurft að leiða út í neina sjálfhverfu eða tilgerð.

GE: Ég er alveg sammála því, síðasti kaflinn var mjög góður. Hann setur fortíðina í samhengi við sjálfan sig í dag og lesandinn áttar sig kannski á því hvers vegna bókin er skrifuð eins og hún er skrifuð. Höfundur gat ekki sveipað þetta líferni mjög miklum dýrðarljóma eftir að tilraunin til að taka það upp aftur mistekst, aðallega vegna þess að hann var orðinn of góðu vanur!

KS: Aftan á kápunni stendur: „Árið 1986 hverfur nítján ára Íslendingur á ferðalagi um Evrópu. Síðast heyrist til hans á Suður-Spáni þar sem hann segist lifa á því að mála myndir á gangstéttir. Þegar ekkert hefur spurst til drengsins í nokkra mánuði halda systir hans og móðir suður í sólina til að reyna að finna hann - en undir niðri kraumar ótti um það sem leitin kann að leiða í ljós.“ En hann hverfur í rauninni ekkert og það er enginn ótti sem maður hefur á tilfinningunni að kraumi undir, eiginlega kemur ferðalag mæðgnanna manni frekar fyrir sjónir sem stefnulaust flakk. En það er varla sanngjarnt að gera höfundinn ábyrgan fyrir ósamræmi í káputexta og innihaldi, kannski var útgáfan að reyna að krydda þetta á svipaðan hátt og blaðamennirnir sem supu hveljur yfir götulífinu.

GE: Ég varð að minnsta kosti ekki vör við neinn ótta, það var kannski helst systir hans sem var svolítið áhyggjufull. Annars fannst mér móðirin kærulausa mjög skemmtileg týpa og endurfundir þeirra voru eitt það skemmtilegasta í bókinni. Eins og Þórarinn lýsir því runnu skyndilega tveir gjörólíkir heimar saman í einn. Hann hafði talað um það í snemma í bókinni að flækingar lifi í hliðarveröld, þeir séu næstum ósýnilegir. Þessvegna hlýtur að hafa verið stórfurðulegt að vera skyndilega ávarpaður af venjulegum borgara eftir að hafa varla verið til fyrir þeim í marga mánuði. Svona fyrir utan sjokkið yfir að móðir manns skjóti allt í einu upp kollinum í Algesíras þegar maður hefur flakkað einn um mánuðum saman.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fyrst minnst er á flökkubókmenntir er vert að benda á Isabelle Eberhadth sem skrifaði magnaðar frásagnir af ferðalögum sínum um Norður-Afríku undir lok 19. aldarinnar.

„Vagrancy is deliverance, and life on the open road is the essence of freedom,“ segir hún í Pencilled Notes, og seinna: „To the one who understands the value and the delectable flavor of solitary freedom (for no one is free who is not alone) leaving is the bravest and finest act of all.“

Mæli með sérstaklega fallega uppsettu og innbundnu litlu kveri með vel völdum skrifum hennar, sem nýlega var gefið út af Eberhardt Press, anarkísku útgáfuforlagi í Bandaríkjunum. Kverið er kallað Criminal eftir einum textanum.

S.P.