18. desember 2011

Pólitík bleiku slaufunnar

"Ég fæ krabbamein ef ég heyri minnst á þessa bleiku slaufu einu sinni enn" hvæsti ég á bólugrafinn unglingspilt sem bauð mér að styrkja krabbameinsrannsóknir um leið og ég borgaði fyrir matvörur vikunnar. Ég fékk samviskubit um leið og ég sleppti orðinu og muldraði afsakandi að ég hefði nú keypt bleikar ljósaperur í gær. Konan á eftir mér í röðinni starði á mig í fyrirlitningu.

Öll þekkjum við einhvern sem hefur um lengri eða skemmri tíma glímt við krabbamein. Þessi sjúkdómur, eða sjúkdómaflokkur væri líklega réttara að setja, dregur um 7 milljónir manna til dauða á ári hverju. Hér væri hægt að fara ítarlega í ýmsa tölfræði en ég ætla að sitja á mér og benda þess í stað á mjög áhugaverða bók um sögu krabbameins, sem þó er ekki umfjöllunarefni þessa pistils - The Emperor of All Maladies: A Biography of Canceeftir lækninn Siddhartha Mukherjee en hún fékk Pulitzer verðlaunin í sínum flokki fyrr á þessu ári.

Október var alþjóðlegur krabbameinsvarnarmánuður og almenningi bauðst með ýmsum leiðum að styrkja málefnið. Hægt var að kaupa bleikar hrærivélar, bíla, snyrtivörur - jafnvel áfengi og sælgæti og leggja þannig rannsóknum á krabbameini lið. Svo var auðvitað hægt að kaupa bleiku slaufuna sjálfa til þess að hafa í barminum, og hinir efnameiri gátu fjárfest í demantsskreyttri útgáfu hennar. Sá sami hópur gat líka sótt ýmsar samkomur vestanhafs á borð við sérstaka góðgerðarkvöldverði þar sem miðinn kostaði formúgur.



Við hljótum öll að vera sammála um að það er þarft og gott að leggja kraft í krabbameinsrannsóknir – finna nýjar leiðir til lækninga og kanna hvað hægt er að gera til þess að hindra að fólk myndi með sér krabbamein. Ég hef hinsvegar stundum verið hugsi yfir bleiku slaufunni og hliðarverkefnum þeirrar baráttu.

Bandarískur góðgerðariðnaðurinn veltir stjarnfræðilegum upphæðum á ári hverju og bleika slaufan er líklega eitt best heppnaðasta afsprengi hans. Slaufan var hugmynd Evelyn Lauder, tengdadóttur Estée Lauder snyrtivöruveldisins sem lést nýlega og ritstjórans Alexandru Penney. Slaufa þessi var innblásin af rauða borðanum svokallaða sem seldur hafði verið sem samstöðutákn með HIV-smituðum.

Þessi bleiki iðnaður hefur sætt nokkurri gagnrýni einkum vegna þess að fyrirtæki hafa hvert á fætur öðru stokkið á bleika vagninn í von um að græða meira. Þær vonir ganga oftast eftir því staðreyndin er sú að neytendur staldra við bleika merkimiðann og kaupa frekar þá vöru en samskonar vöru sem ekki er merkt bleika risanum. Þetta er samt ekki svona einfalt því í flestum tilfellum er það svo sáralítið hlutfall af andvirði vörunnar sem rennur inn í herferðina og oft er því nánast um  blekkingarleik að ræða. Ýmsar spurningar hafa líka vaknað í sambandi við hverskonar fyrirtæki eiga að fá að leggja baráttunni lið. Er til dæmis siðlegt og eðilegt að sælgæti sem er fullt af auka- og litarefnum skreyti sig bleika borðanum? Og hvað með áfengi? Eða snyrtivörur sem unnar eru úr allskyns misjöfnum efnum sem sum hver hafa jafnvel verið talin auka líkur á krabbameini (sbr. paraben).

Það er einhver mótsögn í þessu og hér skal þó ekkert fullyrt um það hvort sælgætisát eða áfengisneysla auki líkur á krabbameini. Í mínum huga er það einna helst hugmyndin um að kaupa og neyta - vinna meira til þess að eyða meiri peningum sem er í svo fullkominni andstöðu við heilbrigt líf. Allur þessi einskis nýti varningur – hvort sem hann er bleikur eða ekki. Fólk ætti að slaka meira á, borða meira spínat og hlaupa fleiri hringi í kringum tjörnina en ekki vinna myrkranna á milli fyrir bílum og hrærivélum – sama hvort draslið er bleikt eða ekki.

Í ljósi alls þessa var ég því frekar spennt þegar ég fékk í hendurnar bókina Pink Ribbons, Inc.: Breast Cancer and the Politics of Philanthrop eftir bandarísku fræðikonuna Samönthu King. Í bókinni tekur hún á mörgum þessara álitamála og pælingar hennar eru margar hverjar ansi spennandi. Hún notar mikið auglýsingar og annað sjónrænt efni til þess að lesa þessa sögu og sýnir m.a. fram á hvernig brjóstakrabbamein fyrir 1990 birtist í fjölmiðlum sem einhverskonar einkaharmleikur hverrar konu. Konurnar voru kallaðar fórnarlömb og myndir sem fylgdu herferðum sem hvöttu konur til að fara reglulega í skoðanir voru gjarnan af grönnum, döprum og veiklulegum konum. Þessar myndir voru leystar af hólmi með hraustlegum súpermódelum sem horfðu þokkafullar og óttalausar í myndavélina og héldu fyrir þrýstin brjóst sín. Þær voru ekki victims heldur survivors.

Í bókinni eru tekin einstök dæmi af því hvernig framleiðendur skreyta sig bleika borðanum en reynast þegar betur er að gáð ekki eiga samleið með baráttunni. Meðal annars er tekið dæmi af Dannon sem er ráðandi á bandaríska jógúrt-markaðnum en fyrirtækið notaði mjólk úr kúm sem höfðu fengið vaxtarhormón sem talinn er auka líkur á brjóstakrabbameini (hér vísa ég aðeins í bókina sem er til umfjöllunar og réðst ekki sjálf í rannsóknarvinnu). Mér fannst þessi dæmi flest mjög áhugaverð, ekki síst vegna þess að ég hef þau fyrir augunum dag hvern þegar ég kaupi í matinn. King varpar svo fram þeirri spurningu hvort markmiðið "lækning við krabbameini" sé ekki bara fullkomlega óraunhæft, aðeins innihaldsrýrt slagorð sem notað sé til þess að slá ryki í augu hinna títtnefndu neytanda sem vilja gera góðverk. Spyr sá sem ekki veit.

King veður svolítið fram og aftur og það er nokkuð um óþarfa endurtekningar. En það breytir því ekki að mér finnst þessar pælingar hennar mjög þarft innleg og finnst sjálfsagt að vekja á þeim athygli. Og að lokum má benda má á glænýja heimildamynd sem byggð er á bókinni sem ég ætla að sjá um leið og ég fæ tækifæri til.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Áhugavert. Takk fyrir mig.

Siggasta sagði...

Ég hef einmitt oft velt þessu sama fyrir mér eftir að eitt árið var bleikur paraben-gloss aðal söluvara átaksins. En hef hingað til aðallega fussað í mínu horni því bleika slaufan er eitthvað mikil svo pólistísk rétthugsun í hugum flestra. Takk.