Það vakti semsagt forvitni mína hvað þessi ríkulega stafsetti Meagher hefði haft um málið að segja á sinni tíð, sem augljóslega var nokkru á undan okkar (kom á daginn að útgáfuárið var 1936, fyrsta útgáfa leit dagsins ljós 1924). Ekki leynir sér að vandamálið sjálfsfróun hefur brunnið á karli og að ásamt ýmsum sinna titlaskreyttu starfsbræðra hefur hann lagst í miklar pælingar og empírískar rannsóknir.
Umfjöllun um sjálfsfróun fyrr á tímum var oft ansi kreddukennd og full af hræðsluáróðri, og kannski Meagher hafi bara verið þokkalega framsýnn að fullyrða að ógn rúnksins við líkamlega heilsu hafi verið stórlega ýkt – það valdi hvorki blindu né geðsýki, enginn sjái það á andliti þínu að þú hafir fróað þér um morguninn, rúnkið skaði hvorki engil né kettling, valdi í raun engum varanlegum skaða og ekki þurfi heldur að óttast að sæðið gangi til þurrðar áður en því verði komið í góðar og sannkristnar þarfir. Meirihluti mannkyns hlyti jú að vera í ruglinu hefði allt svartagallsrausið við rök að styðjast, enda stundi nær allt fólk sjálfsfróun á einhverju æviskeiði. Hann hefur hinsvegar áhyggjur af andlegu hliðinni og því sem hann nefnir „niðurbrot siðferðisþreksins“: haldi einstaklingur áfram að fróa sér fram á fullorðinsár beri það nefnilega vott um skapgerðarbrest og í raun vanþroska; vangetu til að beina kynhvötinni (áhrifamesta aflinu í samfélagi manna, ýmist til góðs eða ills (já, þessi bók er freudismarúnk par excellence)) í tilhlýðilegan farveg. Bæling er sögð nauðsynleg upp að vissu marki en skaðleg í óhófi, og sjálfsfróun príma dæmi um óviðeigandi útrás bældra hvata. Aðrar orsakir hennar séu að „þjálfun“ í bernsku hafi verið ábótavant (það er eitthvað dásamlega pragmatískt/dýrafræðilegt við að tala um „training“ í samhengi barnauppeldis), og einnig togstreitan sem hljótist af því að fólk nái ekki að þróa með sér „fullkomna karlmennsku eða kvenleika“. Þessu tengist svo hættan á óhóflegri sjálfhverfu; hinn króníski rúnkari hafi engin ástarviðföng önnur en sig sjálfan og sé því áhugalaus um annað fólk (lagið vinsæla „I Love Me“ er hér tilgreint sem gagnleg lýsing á sjálfhverfustiginu). Meagher fullyrðir ennfremur að rúnkið leiði á endanum til hugsýki og taugabilunar, jafnvel sjálfsvígshugleiðinga og þótt það sé kannski ekki meginorsök geðdeyfðar og hegðunarvandamála ungviðisins, þá búi það slíku kjörinn jarðveg. Einnig geti líbídóið gengið til þurrðar þótt sæðið geri það ekki, og kvíðinn og sjálfsvirðingarbresturinn sem hljóti að fylgja rúnkhegðun sé mjög slæmur – „sjúklingurinn“ hafi á tilfinningunni að hann hafi „lost the appreciation of his fellow men“, en eigi skuli þó örvænta, því að á vandanum megi vinna bug, „after a manly struggle“!
Bókina mætti raunar allt eins flokka til uppeldisfræðirita, enda sjálfsfróunarvandinn ferli sem rekur sig frá frumbernsku allt gegnum kynþroskaskeiðið. Þótt félagsleg staða eða menntunarstig veiti enga tryggingu gegn vandanum telur Meagher hlutlæga uppfræðslu mjög mikilvæga, ítrekar gildi góðrar leiðsagnar og varar við tepruskap. Uppalendur séu því miður oft vanhæfir til að fjalla um þessi mál vegna eigin bælingar, en mikilvægt sé að hvorki refsa ungviðinu né gera lítið úr því fyrir athæfið – sumir „velmeinandi uppalendur“ geri t.d. þau mistök að ógna fitlandi börnum með aflimun (!). Hann varar sérstaklega við skottulæknum sem þykist kunna ráð til meðhöndlunar, enda geti slíkt fúsk leitt sjúklinginn beinustu leið inn á braut bullandi hómósexúalisma.
Umfjöllun Meaghers er semsé og auðvitað gargandi heterónormatív og hómó-óvinveitt og gegnsósa í eðlistvenndarhyggju – jafnvel má lesa úr textanum að samkynhneigð jafngildi kannski bara ystu öfgum óheilbrigðrar sjálfhverfu. Þannig felist æskilegur fullnaðarþroski einstaklings ekki aðeins í sjálfsstjórn, hófsemi og almennu ástríki til náungans, heldur og ekki síst í gagnkynhneigð – annað bendi til að viðkomandi hafi bara staðnað einhversstaðar á leiðinni. Flogaveiki er sömuleiðis nefnd sem afleiðing slíkrar stöðnunar. Tvíkynhneigð fullyrðir Meagher að sé meðfædd („It is universally recognized that all individuals are bisexual up to adolescence“), en endanleg gagnkynhneigð sé þó hin „eðlilega“ útkoma uppvaxtarferlisins. Svo margar kostulegar fullyrðingar um þróun kynhneigðar eru í bókinni að ég verð hreinlega að láta nokkrar þeirra fljóta með: „All psychiatrists agree that the most important lesson in child psychology is so to train the child, that at the end of adolescence it will be able to emancipate itself emotionally from the family, thus eventually to be free for healthy heterosexual interests.“ Og: „Practically all serious observers agree today that most adults fixed in homosexuality are so chiefly because of training and not because of birth.“ Og: „We must say that there are too many people fixed at this homosexual component stage, many more than the public suspects. Many of them even drift into marriage.“ Þannig ber allt að þeim brunni að, líkt og rúnkið, sé samkynhneigð fullorðinna merki um andlegan vanþroska sem skili sér í skertum persónuleika. Meagher virðist lítið gefinn fyrir tilvísanir í texta sínum, þótt hann vísi reyndar í heimild fyrir því að hómósexúalistar séu almennt áhugalitlir um börn.
Hlutverk kynjanna eru einnig skilmerkilega skilgreind og aðgreind í textanum – áhersla er lögð á frjóvgandi hlutverk karla og viðtökuhlutverk kvenna og notast við grafískar líkingar á borð við samspil lykla og lása. Í umræðu um tengsl uppalendanna við börnin er áherslan endurtekið lögð á ábyrgð móðurinnar og virðist „foreldri“ vísa til hennar nema annað sé tekið fram. Þrátt fyrir alla rembu eru kynhvöt kvenna og fullnægingu gerð einhver skil eins og vænta má af freudistum, þótt með nokkrum fráviksformerkjum sé, einsog að „Kynhvöt kvenna“ skuli vera spes undirkafli í kaflanum um kynhvöt almennt. Fullyrt er að ríkari þörf sé á að reisa skorður við hvötum kvenna en karla, þar eð þáttur þeirra í tímgunarmynstrinu sé mikilvægari en karlanna; þannig geti beinlínis verið um „ógn við mannkynið“ að ræða, og áhersla lögð á „raunverulegt svo og hugmyndafræðilegt skírlífi kvenna“. Það væri jú óneitanlega svart ef þorri kvenna yrði svo forhertur í sjálfsfróun/kynkulda/freudískum þungunarótta að þær vanræktu alveg að framleiða börn á yfirfulla jörðina, og maður hlýtur að dást að hversu snyrtilega höfundi ferst úr hendi að skreyta saklausa rúnkumræðu með predikunarblómum um kvenlegt skírlífi. Ekki er mörgum orðum eytt á skírlífi karla, og ef við gefum okkur að þess sé hvorki vænst né krafist hljótum við að furða okkur á því með hvaða konum ógiftu karlarnir megi þá eiginlega stunda sitt óskírlífi.
Ekki eru það aðeins óhóflegar hvatir sem konur þurfa að varast, heldur er kynkuldi þeirra einng tilgreindur sem merki þess að hafa staðnað áður en fullþroska heteróstigi hafi verið náð. Varað er við því að giftar konur sýni af sér kynkulda, en eitt einkenna hans er óhóflega langur forleikur í kynlífi: „Forepleasure prepares for the end-pleaseure – coitus and orgasm. There should not be an undue lingering at the earlier stage. Where a woman unduly prolongs the forepleasure, this indicates a fixation of the libidinal aim on infantile objects. [...] A healthy adult sexual union (coitus) means gratification to both partners. The orgasm may or may not be simultaneous.“
Við Google höldum að þessi fauskur kunni að vera John Meagher. |
Sumar kenningar Meaghers í uppeldisfræðunum eru reyndar óvitlausar svo langt sem þær ná; hvatt er til þess að hlúa að sjálfstæði og frumkvæði, veita einstaklingsmiðaða fræðslu, setja sig í spor barnsins. Varað er við því að refsa eða banna börnum að stunda hið óhjákvæmilega fitl – þau fari þá bara að sjúga þumal eða naga neglur í staðinn, og reykja (þá sérstaklega pípu). Hann viðurkennir að erfitt sé að rannsaka þessi mál á sannferðugan hátt, þar sem viðföngin ljúgi oft um eigin hegðun, en fullyrðir samt að sjálfsfróun þekkist varla meðal giftra karla. Einnig gætir mótsagnar í því að honum er annars vegar tíðrætt um hið félagslega og siðferðilega orðspor – sem sé hverjum einstaklingi dýrmætt, og bíði það hnekki (t.d. vegna rúnks eða hómósexúalisma) hljóti hugsýkin að fylgja fast á eftir – og að hinsvegar lýsir hann hinum forherta, króníska rúnkara sem einangraðri týpu sem ýmist láti sig álit annarra engu varða, eða sé vanur að réttlæta allar sínar gjörðir og tilhneigingar fyrir sjálfum sér. Kannski þetta með orðsporið og meðvirkni með almenningsálitinu sé þá helst fyrir nevrótískar konur og kynvillinga, en forherðing lónersins fyrir heterókarla?
Konan er hafin uppá stall sem holdgerving djúpstæðra, líffræðilegra gilda sem hafi heilaga þýðingu fyrir mannkynið allt, og sem samfélagið spegli í gildum trúar og velsæmis. Stúlkur alist þannig upp við meira álag en drengir, sem geti af sér meiri bælingu og tilheyrandi álag á sál og taugar. Það er sett fram sem sjálfsögð staðreynd að stúlkur fantaseri um að vera drengir, sem framlengd sjálfsfróun geti síðan á óútskýrðan hátt framlengt umfram það sem eðlilegt geti talist, sem aftur geti gert þær útsettari fyrir kynvillu. Fullyrt er að hin taugaróandi rúnkiðkun kvenna sé mun síður fullnægingarmiðuð en karla – enda hefur fullnæging kvenna, svona þegar ég hugsa út í það, enga þýðingu í sjálfri sér fyrir vöxt og viðgang mannkyns er og að því leytinu til hinn mesti óþarfi. Eitt er hinsvegar hvorki óþarfi né hégómi og það er meyjarhaftið en Meagher fullvissar okkur um að rof þess við sjálfsfróun sé afar fátítt, nema mögulega ef utanaðkomandi hlutir séu settir inn í leggöngin (sem, samkvæmt rannsóknum hans, er reyndar alls ekki algengt). Að lokum vil ég deila ég með ykkur „nýja“ orðinu sem ég lærði af lestrinum (til viðbótar við allt annað): frönskuna demivierge eða hálfgildingsjómfrú; kona sem er líkamlega ósnert, en saurguð á andlega sviðinu.
(Þetta reyndist ekki vera lagið vinsæla „Love Me“, en áhugavert engu að síður.)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli