21. febrúar 2016

Franskur glaðningur í myndasöguformi

Á dögunum áskotnaðist mér sérlega áhugaverður gripur - franska myndaskáldsagan You Are There eftir þá Jacques Tardi og Jean-Claude Forest. Ég sumsé eignaðist hana í enskri þýðingu Kim Thompson en enska útgáfan kom út hjá Fantagraphics Books fyrir nokkrum árum, forlagi sem hefur gefið út gríðarlega mikið af góðum myndasögum, bæði seríum og stökum bókum. Mér til ævarandi skammar hafði ég aldrei heyrt af þessari tilteknu bók en kannaðist aftur á móti við Jacques Tardi sem er með þekktari teiknurum Frakka. Franska myndasöguhefðin er að sjálfsögðu stórmerkilegt form og Tardi skipar mikilvægan sess í þeirri menningu. Hann er fæddur árið 1946 og þekktastur fyrir sögurnar um Adèle Blanc-Sec, sem hafa notið gríðarlegra vinsælda í hinum frönskumælandi heimi og víðar. Á íslensku kom fyrsta sagan í seríunni um hina knáu Adèle út árið 1978 hjá Iðunni og kallaðist Birna og ófreskjan, í stíl við nafnaþýðingar þess tíma.

Jean-Claude Forest sem lést undir lok síðustu aldar var þekktastur fyrir sögur af allt annars konar kvenhetju - vísindaskáldsagnapersónunni Barbarellu. Hér eru þeir félagar þó á allt öðrum slóðum. You Are There, sem á frummálinu nefnist Ici Même og kom út í Frakklandi árið 1979 sem sería, mætti líklega helst kenna við absúrdismann; sögusviðið er landsvæðið Mornemont sem áður heyrði undir There-ættina sem hefur þó þegar sagan hefst tapað öllum eignarrétti sínum til gráðugra granna - fyrir utan veggina sem skilja að garða og hús. Eini eftirlifandi afkomandinn, Arthur There, er nú orðinn að tollheimtumanni sem gengur um veggina og hirðir toll af þeim sem fara um hliðin í veggjunum. Hann er hæddur og hataður af flestum íbúum Mornemont og á sjaldnast raunveruleg samskipti við aðra en skipstjóra fljótabáts sem siglir með vörur til Mornemont yfir stöðuvatnið sem lokar svæðið af. Hann fyllist þó óttablandinni hrifningu af Julie Maillard, dóttur ógeðfelldra hjóna, og samband þeirra verður þungamiðja í sögunni. Á sama tíma fylgjumst við með forseta landsins búa sig undir að missa völdin í yfirvofandi kosningum og lesandinn áttar sig fljótt á því að Arthur There og nágrannar hans eiga á hættu að verða leiksoppar valdastéttarinnar - peð á borði þeirra sem gera hvað sem er til að bjarga eigin skinni.


You Are There er einhver skemmtilegasta lesning sem ég hef komist í heillengi. Myndir Jacques Tardi eru frábærar - stemningsríkar, nístandi einmanalegar, marglaga og leiða lesandann örugglega í gegnum söguheiminn - og sagan bæði full af absúrdískum húmor (mínu eftirlæti!) og uggvænlegum undirtóni. Hún er kynferðislega opinská og birtir okkur bæði alls kyns perversjónir og sterkar líkamlegar langanir, kemur oft ónotalega á óvart og þótt höfundar séu að ýmsu leyti óvægnir gagnvart persónum sínum er samt undirliggjandi samstaða og væntumþykja sem gerir það að verkum að hægt er að tengjast sögunni á tilfinningalegan hátt, ekki bara sem einhvers konar kúríositeti. Dystópísk þjóðfélagsádeilan kallast á við sögu af mannlegum tilfinningum og mannlegri smæð. Textinn er stundum undarlegur og stekkur til og frá; það tók mig örlitla stund að komast inn í frásagnaraðferðina en þegar ég var komin í absúrdistagírinn átti ég ekki í neinum vandræðum með að sætta mig við hana.

Við fyrstu lesningu varð ég fyrir örlitlum vonbrigðum með sögulok - var ekki viss hvort mér fyndist þau standa undir því sem á undan var komið - en eftir dálitla umhugsun er ég hreint ekki viss um að þessi upprunalega tilfinning mín hafi verið rétt. Nú finnst mér að þvert á móti sé endirinn óumflýjanlegur og hæfilega óþægilegur. Hann situr að minnsta kosti enn í mér ...

Þegar ég las mér til um bókina á netinu komst ég að því að hún hefði verið sett upp í frönsku leikhúsi að minnsta kosti tvisvar. Ég get vel ímyndað mér að sagan sé skemmtilegt efni fyrir sviðslistafólk og samkvæmt upplýsingum aftast í ensku þýðingunni hugsaði Forest hana upphaflega sem kvikmyndahandrit. Það kemur ekki á óvart enda skiptist hún upp í senur sem minna um margt á frásagnarmáta franskra kvikmynda frá sjöunda og áttunda áratugnum. Ég mæli mjög með You Are There/Ici Même fyrir alla unnendur evrópskra myndasagna, absúrdisma og franskra undarlegheita.

Engin ummæli: