30. október 2017

„Hvernig sefur þú“ er pappírslistaverk!

Sem barn var ég ekkert sérstaklega hrifin af myndabókum – þótt þær væru auðvitað margar góðar höfðu þær þann galla að klárast of fljótt. Þó hafa þær auðvitað stytt mér stundir áður en farið var að lesa fyrir mig flóknari bækur og áður en ég fór sjálf að lesa. En óhjákvæmilega hefur fennt yfir fyrstu bókaárin og minningunni lúta þau í lægra haldi fyrir Astrid Lindgren, Múmínálfunum, Anne-Cath. Vestly, Ole Lund Kirkegaard og fleiri meisturum. En á síðustu árum hefur afstaða mín til myndskreyttra bóka gjörbreyst og loksins er ég farin að kunna að meta þau sjálfstæðu listaverk sem metnaðarfullar myndaskreyttar bækur geta verið. Og nú sit ég hér í hægindastól heimilisins og les til skiptis fyrir fimm ára og eins árs – sjaldnast sömu bækurnar en sumar fallegar myndabækur eiga þó greiðan aðgang að báðum börnum og þá er líka skemmtilegt fyrir þann eldri að geta lesið takmarkaðann textann í myndabókum fyrir litlu systur.

Olivia Cosneau á góðri stundu
Eina slíka myndabók rak á fjörur okkar þriggja um daginn en það er ný bók sem Angústúra þýðir og gefur út, Hvernig sefur þú? eftir Olivia Cosneau og Bernard Duisit. Olivia sér um myndir og texta en Bernard pappírshönnun sem er svo sannarlega einn stærsti hluti verksins og samvinna þeirra tveggja dásamleg. Olivia hefur myndskreytt bækur í yfir áratug og þau Bernard unnið alla vega tvær slíkar saman svo nú er bara að vona að við fáum að njóta hinnar líka. Á heimasíðu Forlagsins er Guðrún Vilmundar skráð fyrir þýðingunni en ég sé þær upplýsingar raunar ekki á bókarkápu. Þetta er ægifögur bók sem þessi fimm ára kallar “Origami-bókina” og sú nafngift er kannski ekki alveg úr lausu lofti gripin því þetta er vissulega listaverk úr pappír. Á hverri síðu legst eitthvað dýr til svefns og textinn útlistar athöfnina nánar – svo er hægt að toga í flipa og þá hringar kötturinn sig, kóalamamma faðmar litla kóalabjörninn, apinn sveiflast í trénu og svo framvegis. Þetta er ekki flókið en pappírsteikningarnar eru afskaplega fallegar og meira að segja fullorðnu fólki (alla vega mér) finnst ennþá gaman að toga í flipann hjá kengurunni og sjá litla ungan stinga kollinum upp úr poka móður sinnar – hvar hann sefur.



Hin bókin sem Olivia Cosneau og Bernard Duisit
unnu saman

Bæði börnin njóta þessarar bókar og sú litla á það til að næla sér í hana og skríða uppí hægindastólinn til að glugga í hana í friði og ró – en sú er yfirleitt gripin fljótlega þar sem pappírinn þolir ekki mikið tog og þegar maður er eins árs er ekki gott að vita hvað má toga í og hvað ekki. En gerir lítið til – það má skoða hana aftur og aftur undir handleiðslu stóra bróður eða foreldra.

Aðspurður hvað sé best við bókina svarar sá fimm ára að hún sé fræðandi „næstum eins og skólabók, af því maður fær að vita hvernig dýrin sofa“ og svo er auðvitað svo gaman að toga í flipann og horfa á köttinn hringa sig og öll hin dýrin hreyfast. Þar að auki getur hann lesið hana sjálfur fyrir litlu systur enda letrið stórt og skýrt.


Þetta er sem sagt afskaplega falleg og skemmtileg bók fyrir börn frá rúmlega eins árs aldri  – og svo auðvitað foreldra og aðra fullorðna sem eru með blæti fyrir haganlega gerðum bókum, það er sannarlega ekki ofgnótt af þeim á barnabókamarkaðnum. Vel gert Angústúra!

Engin ummæli: