Þetta er eins konar ritfregn, sprottin af því að þegar ég var að segja mínum góðu vinkonum í Druslubókum og doðröntum frá því að bók sem ég hefði lesið nýlega „hlyti að fara að koma út á íslensku“ kom í ljós að viðkomandi bók var þegar komin út á íslensku, það hafði bara algjörlega farið framhjá mér. Mér rennur blóðið til skyldunnar að forða öðrum frá sömu örlögum.
Um er að ræða bók eftir fransk-marokkóska rithöfundinn Leïlu Slimani sem heitir Barnagæla í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar og kom út hjá Forlaginu í haust. Hún fjallar um hjón í París sem eiga tvö lítil börn. Upphaflega er móðirin heima með börnunum en síðan fer hún aftur út á vinnumarkaðinn og þá ráða þau til sín barnfóstruna Louise, sem tekur síðan æ meira pláss í lífi þeirra og endar á að rústa því, eins og er ljóst frá fyrstu blaðsíðu.
Ég las bókina í enskri þýðingu, sem Lullaby, og allavega í umfjöllun um þá útgáfu virðist hún oft vera kynnt sem einhvers konar spennusaga. Það er vissulega spenna í henni, en það er líka töluvert öðruvísi stemmning og pælingar í þessari bók en hefðbundnum þrillerum. Ég myndi segja að eitt meginþemað í Barnagælu væru flóknar krossgötur stéttar, kyns og uppruna sem grundvöllur misskiptingar í samfélaginu – mun þyngri undiralda en í bókum eins og Gone girl og Girl on the train, sem ég hef séð nefndar til sögunnar í sama samhengi.
Ég fílaði Barnagælu frekar vel. Mér fannst Leïlu Slimani takast vel að sameina þessa óhugnanlegu og spennandi sögu annars vegar og hins vegar óþægilega og frekar þrúgandi mynd af stöðu kvenna í (allavega frönsku) nútímasamfélagi. Ég mæli semsagt með því að fólk noti tækifærið og lesi hana í íslenskri þýðingu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli