14. apríl 2009

Sjáðu sæta naflann minn

Þeir sem fæddust á 7. og 8. áratug síðustu aldar og voru bókelskir á unglingsárunum lásu flestir eitthvað af svokölluðum unglingabókum. Þær voru gjarnan skrifaðar í anda hins félagslega raunsæis og höfðu örugglega umtalsverð áhrif á marga lesendur. Slíkar bækur eru víst næstum alveg horfnar af markaðinum, kannski að eilífu.

Um daginn var á þessari síðu fjallað um unglingabók sem kom út fyrir aldarfjórðungi en það var Fimmtán ára á föstu eftir Eðvarð Ingólfsson. Til samanburðar er ekki úr vegi að rifja upp aðra og betri unglingabók sem kom út fyrir þrjátíu árum í íslenskri þýðingu Margrétar Aðalsteinsdóttur og Vernharðs Linnet. Þetta er danska bókin með fallega titilinn Sjáðu sæta naflann minn. Öfugt við það sem okkur grunar að margir haldi, þá stendur sú bók alveg þokkalega fyrir sínu enn í dag. Kynferðislegu spennunni sem litar líf flestra unglinga er lýst með afar hlýlegum og sannfærandi hætti í bókinni eftir Hans Hansen, en eftir henni var síðan gerð bíómynd sem varð vinsæl hér á landi.

Unglingarnir í Sjáðu sæta naflann minn eru mun hispurslausari í tali en hin þroskuðu unglingsbörn Eðvarðs. Þau tala um að „sofa saman“ eða nota hreinlega sögnina „ríða“ á meðan frasinn „lifa saman“ er notaður í Fimmtán ára á föstu, sem þó kom út hálfum áratug á eftir hinni (segir virkilega einhver „lifa saman“?). Klás, aðalpersónan í Sjáðu sæta naflann minn, er venjulegur og óöruggur strákur sem er skotinn í Lenu. Lena er skemmtileg og ágæt fyrirmynd unglingsstelpna. Hún er gerandi sem hefur skoðanir og döngun til að framkvæma það sem hún hefur áhuga á, og er að auki nokkuð ábyrgur unglingur. Líkt og algengt er í unglingabókum koma ferðalög og svefnpokar gjarnan við sögu þegar fólk fer að feta sig áfram á kynlífssviðinu og það á jafnt við um Sjáðu sæta naflann minn og fyrrnefnda bók Eðvarðs. Krakkarnir í Sjáðu sæta naflann minn gera samt ekkert sem leitt getur til þungunar en þau Árni og Lísa í Fimmtán ára á föstu láta hins vegar allt vaða beinustu leið án getnaðarvarna. Það er auðvitað ekki útlistað beinum orðum, en allir lesendur skilja áreiðanlega hverju hneggjandi hrossagaukurinn í fjarska er að fagna og síðan kemur jú í ljós að Lísa er með barni. Framtíðaráform unglinga þessara tveggja bóka (sem teljast nú til dags vera börn því þau eru að ljúka grunnskólanámi) eru líka býsna ólík; Klás býður Lenu í bíó á meðan allar líkur eru á að Árni og Lísa fari að hokra í íbúðarholu með bleyjubarn.

Þorgerður og Þórdís

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svo kom út framhaldsbók: Klás, Lena, Nína og ...

Nafnlaus sagði...

Ó já, og náttúrlega Sextán ára í sambúð ;)

Elísabet sagði...

Sautján ára skilin, eða var það "Átján ára í lyftu, má hafa með sér barn"?

ég hef aldrei heyrt nokkurn tala um að "lifa saman", þegar átt er við kynlíf.

Nafnlaus sagði...

Lena er skemmtileg og ágæt fyrirmynd unglingsstelpna ... tilvitnun lýkur. Finnst ykkur atriði að sögupersónur séu góðar fyrirmyndir? Og þá í unglinga- og barnabókum? Mér finnst alltaf svolítið undarlegt þegar þessi hugmynd skýtur upp kollinum því ég held að það sé jafngaman fyrir börn að lesa um önnur börn sem haga sér eins og asnar og fyrir fullorðna að lesa um fullorðna asna(margar bækur Einars Kárasonar gera út á þá skemmtun). Síðan vill þessi ,,krafa'' merkilegt nokk færast yfir á höfund barnabókanna, sbr. Eðvarð Ingólfsson og Þorgrímur Þráinsson ... að þeir sé nú svo góðar fyrirmyndir að það sé um að gera að halda bókunum þeirra að krökkum. Þótt bækur Astridar Lindgren fjalli um mestu óþekktarorma (sem beita ofbeldi og blóta eins og sjóarar) þá virðist það ekki vinsælt í íslenskum barnabókaheimi.

GK

Þórdís Gísladóttir sagði...

Í mínum huga er það augljóst að börn og unglingar sem lifa sig á annað borð inn í bækur búa sér að einhverju leyti til fyrirmyndir eftir persónum bókanna. Önnur hver miðaldra kerling sem spurð er heyrist mér til dæmis eiga Línu langsokk sem sína fyrirmynd. Þess vegna finnst mér hressandi að ein og ein stelpa sé ekki bara jarmandi dúkka sem þráir það eitt að þóknast fögrum kærasta (ertu búin að lesa Ljósaskipti?)
Hins vegar finnst mér það ekkert mikilvægt að fólk í bókum sé til fyrirmyndar, hvorki barnabókum né öðrum bókum.

Hvað Eðvarð snertir þá held ég að kaupendur bókanna hafi blandað höfundunum ótæpilega saman við verkin (kristileg settlegheit frá bókaútgáfunni Æskunni) og ekki áttað sig á að börnin í bókum Eðvarðs riðu eins og rófulausir hundar ;)

Nafnlaus sagði...

Kannski þess vegna sem önnur hver af öðrum hverjum (fjórðungur þá) miðaldra konum er fráskilin. Þær sitja einar við eldhúsborðið og horfa daprar inn í kertaloga eins og hún Lína og eru svo sterkar að það þolir enginn við í návist þeirra. Og ekki nenna þær að læra, þessar kvensur. Síðan eru þær óþolandi í rúminu því þær snúa alltaf öfugt.
Nei, ég hef ekki lesið Ljósaskipti. Hvernig er aðalpersónan þar?
GK

Þórdís sagði...

Bella í Ljósaskiptum á sér einn draum og hann er að vera bara alltaf með kærastanum sínum.

Það kemur löng og fín grein um Ljósaskipti í Börnum og menningu sem fer í prentun á morgun.

Sigfríður sagði...

Ég hlakka til að lesa greinina um Ljósaskipti í Börnum og menningu -"á" nefnilega ungling sem var á náttfötunum alla páskana að spæna í sig þessar Twiglight bækur og gaf svo átta ára "wannabe-inu" reglulegar updateringar um ævintýri Bellu, Edwards og co. Frekar spúkí dæmi.

Nafnlaus sagði...

Lá í gólfinu yfir Línu um daginn. Atriðið þar sem hún segir fínu konunum frá vinnukonunni sem mölbraut leirtau alla daga.