4. júlí 2009

Hilla Eiríks Arnar

Skáldið og þýðandinn Eiríkur Örn Norðdahl sendi síðunni mynd af bókahillunni sinni og bréf með. Við ákváðum að birta það bara í heilu lagi því það er svo skemmtilegt:

Hæ.

Það er sosum ekkert merkilegra við þessa hillu en hverja aðra, en ég er andvaka og datt í hug að senda þessa mynd, fyrst ég á hana. Þetta eru ljóðabækurnar mínar. Mig langaði líka alltaf að vera í dálknum í Lesbókinni, þar sem fólk fékk að monta sig af bókaskápnum sínum. En blaðamenn hafa aldrei sýnt því áhuga að spyrja mig um annað en það sem ég er með í vösunum.

Myndin var tekin fyrir nokkrum mánuðum, þá voru enn bækur um ljóð og stíl og ævisögur skálda þarna efst, en þær hafa nú verið fluttar til systkina sinna
í öðrum bókaskáp (sem hefur reyndar verið tekinn í sundur vegna yfirvofandi flutninga, en það er önnur saga) og nýjar ljóðabækur hafa komið í þeirra
stað. Fremstur er Hómer á íslensku og ensku. Þarnæst bækur sem eru "í lestri" (annar eins bunki er jafnan líka á skrifborðinu mínu, og alltaf 5-6 ljóðabækur á klósettinu). Síðan eru safnrit. Þá bækur á ensku, að meðtöldum þýðingum yfir á ensku. Síðan þýskar og franskar bækur (mjög fáar). Ef einhverjum pervertaskap er þar einnig Vie: Mode d'emploi eftir Perec, sem er víst ekki beinlínis ljóðabók. Þaráeftir skandinavískar ljóðabækur. Þá þýðingar á skandinavísku og svo íslensku. Nú hefur þeim verið blandað saman, íslensku og skandinavísku þýðingunum - ég man ekki hvers vegna ég gerði það. Loks eru það svo íslensku ljóðabækurnar í neðstu tveimur hillunum.

Á gólfinu undir skápnum liggur svo greinilega bæklingur með ljóðinu Höpöhöpö Böks, sem var gefinn út í Kanada fyrir nokkrum árum. Hann skrifaði ég alveg sjálfur. Á veggnum við hliðina er myndljóð eftir derek beaulieu.

Mér hefur tekist að halda þessu kerfi í þau tvö ár sem ég hef búið í Helsinki, og var með svipað þegar ég bjó á Ísafirði. Öðrum bókum en ljóðabókum og bókum um bókmenntir raða ég bara þar sem þær passa í hillu. En ef maður skipuleggur ekki ljóðahilluna sína finnur maður aldrei neitt í henni, enda eru þær flestar óskaplega þunnar og vilja því drukkna í skápum.

Með bestu þökkum fyrir skrifin ykkar,
Eiríkur

4 ummæli:

Æsa sagði...

Þetta þykja mér fagrar ljóðabókahillur. Hafðu þakkir fyrir mynd og bréf.

Hermann Stefánsson sagði...

Mig langaði líka að vera með í bókaskáp Lesbókarinnar. Fyrst ég var skilinn út undan bjó ég til mjólkurauglýsingu með bókaskápum fullum af mjólkurfernum til að hefna mín. Þær má örugglega finna einhvers staðar á netinu, allt í bláu eða gulu.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Snerirðu ekki áreiðanlega ljóðunum út, Hermann? Eða voru þetta kannski svona mjólkurfernur sem eru dálítið inn í sig, einsog heitir?

Nafnlaus sagði...

Kilirnir út að sjálfsögðu.
http://ms.is/Islenska/Fernuflug/Fernuflug-III/
HS