3. ágúst 2011
Betra kynlíf og bólurnar burt!
Bandarískur lyfjaiðnaður er yfirþyrmandi og máttur þeirra sem þróa, framleiða og markaðsetja lyf er mikill. Hvert sem litið er blasa við auglýsingar um lyf og skjótar lausnir á hverskonar krankleika. Stöðugt er verið að reyna að selja okkur betra líf - hreinni húð, værari nætursvefn, spengilegri kropp. Og það besta er að þú þarft varla að lyfta litla fingri til þess að fá allt þetta upp í hendurnar. Guð forði okkur frá því að skipta um mataræði eða eitthvað í þá veruna- það er jú bara fyrir hippa og brjálaða vinstrimenn. Það eina sem þú þarft að gera er að leggja á minnið nokkur lyfjaheiti sem kynnt voru í auglýsingum gærkvöldsins og trítla svo til heimilislæknisins og heimta allt það sem þú telur geta bætt líf þitt til muna. Lyfjafyrirtækin næra þessa tilbúnu þörf og markaðsdeildir þeirra eru risavaxnar. Heill her manna hefur atvinnu af því að sannfæra okkur um að við þjáumst af ýmsum meinum. Þetta er unnið af krafti í gegnum alla fjölmiðla og kemur það spánskt fyrir sjónir að heilu spjallþáttaraðirnar á stóru sjónvarpsstöðunum séu skipulagðar einmitt í kringum lyf og sjúkdóma. Og vitanlega fjármagnaðar af lyfjafyrirtækjum. Holdmiklar húsmæður í Miðvestrinu hringja inn og spyrja alltof sólbrúnan lækni með snjóhvítar tennur hvernig öðlast megi dýpri fullnægingar og friða ofvirka svitakirtla. Allt á einu augabragði. Það stendur sjaldnast á svörum - og þau er oftast að finna í pilluglösum.
John Abramson starfaði lengst af sem heimilislæknir í Massachusetts en um síðustu aldamót skellti hann í lás á læknastofunni sinni og lagðist í rannsóknir á ýmsum hliðum heilbrigðisiðnaðarins - aðallega á framgöngu lyfjafyrirtækja. Afrakstur þessarar vinnu Abramsons kom út á bók árið 2004, Overdosed America. The Broken Promise of American Medicine. Hann var orðinn hundleiður á því að upplifa sig sem lítið peð í græðgisleik siðlausra stórfyrirtækja og þreyttur á að fá halarófu af fólki á stofuna sína sem heimtaði ýmis lyf sem fæst gætu gagnast því á nokkrun hátt. Hann hvatti sjúklinga sína til þess að huga að lífstílsbreytingum áður en gripið væri til lyfseðilsheftisins en talaði oftast fyrir daufum eyrum.
Það eru engin ný sannindi að lyfjafyrirtæki séu vond og gráðug og vestanhafs hafa verið skrifaðar margar bækur sem hafa það að markmiði að fletta ofan af þessu öllu saman. Abramson fer djúpt í saumana á þessum málum, tekur fyrir einstök lyf og kortleggur markassetningu þeirra og rannsóknir á raunverulegri virkni. Til dæmis nefnir hann ofnæmislyfið Claratin til sögunnar en það hefur verið í mikill notkun á Íslandi eftir því sem ég best veit. Fyrir leikmann eru þessar útlistanir kannski fullnákvæmar og ég hraðlas suma kaflana. Bókin er engu að síður furðulega spennandi. Maður verður dulítið smeikur, stöðugt á varðbergi og fer jafnvel að smíða eigin samsæriskenningar. Þær eru jú sígildur gleðigjafi.
Abramson bendir á ýmsilegt sjokkerandi og sýnir með trúverðugum hætti fram á það hverjir það eru sem raunverulega stjórna bandarísku heilbrigðiskerfi, hvers vegna það er svona dýrt og hví notendur þess bera svo lítið úr býtum. Síðan bókin kom út hefur Abramson verið vinsæll fyrirlesari og komið fram í mörgum helstu spjall- og fréttaskýringaþáttum í Bandaríkjunum. Fyrirtækin sáu sig einnig knúin til þess að bregðast við gagnrýni hans og nokkrum dögum eftir útgáfu bókarinnar tók lyfjarisinn Merck vinsælt gigtarlyf af markaði vegna mögulegra alvarlegra aukaverkana og lítillar virkni í samanburði við eldri önnur samskonar lyf - en Abramson sýnir einmitt fram á þetta í bókinni.
Fyrir þá sem hafa áhuga á heilbrigðismálum og eru orðnir leiðir á lapþunnum spennusögum sumarsins þá treysti ég mér alveg til þess að mæla með Overdozed America. Alvöru spenna og ekkert feik!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli