Um daginn las ég káputextann á nýþýddri norskri glæpasögu eftir Anne Holt: Það sem aldrei gerist. Að því búnu las ég bókina. Ég velti fyrir mér drjúga stund hvenær lögreglumaðurinn Adam sem nefndur var á kápunni myndi dúkka upp en samkvæmt káputextanum hétu aðalpersónurnar Adam Stubø og Johanne Vik.
Hver blaðsíðan af annarri leið án þess að nokkuð bólaði á þessum Adam. Aftur á móti kom við sögu maður sem hét Yngvar Stubø og kona sem hét Inger Johanne Vik og var alltaf kölluð báðum nöfnunum: Inger Johanne.
Það þurfti ekki ítarlega rannsóknarvinnu til að uppgötva að nöfnin í meginmáli bókarinnar eru þau sömu og í norska frumtextanum, Yngvar og Inger Johanne, en í enskri þýðingu hefur þeim verið breytt eins og sjá má í kynningartexta um bandaríska útgáfu bókarinnar. Því virðist nærtækt að draga þá ályktun að káputextinn á íslensku útgáfunni hafi verið skrifaður eftir enskum kynningartexta og að enginn sem var handgenginn norsku bókinni eða íslensku þýðingunni hafi lagt blessun sína yfir káputextann fyrir prentun.
Það er bókaútgáfan Salka sem ber ábyrgð á þessu fúski.
- - - - - - - - - - - - - - - - - - -
P.S.
Ég sá í bókabúð í gær að Adam/Yngvar-ruglingurinn hefur verið lagfærður fyrir aðra prentun en auðvitað hefði þetta aldrei átt að gerast til að byrja með. Og Inger Johanne heitir ennþá bara öðru nafninu á kápunni. Á vefsíðu útgefandans stendur meira að segja (að kvöldi 13. ágúst) Johanna eins og í bandarísku útgáfunni en ekki Johanne en ég hef 2. útg. bókarinnar ekki við hendina og man ekki hvort sama máli gegndi þar. Á kápunni á 1. útg. hét hún þrátt fyrir allt Johanne.
P.P.S.
Hvernig var annars bókin sjálf? Svosem alveg í lagi. Ég hef ekkert verið sérlega hrifin af þeim bókum sem ég hef lesið eftir Anne Holt en þessi var ekkert leiðinleg. Hún hefði aftur á móti getað verið betri, t.d. rann einn meginþráðurinn dálítið út í sandinn og ýmsir möguleikar voru vannýttir, t.d. var þarna efni í ágætis ívaf af sækóþriller sem hefði aukið spennuna töluvert ef unnið hefði verið betur úr því.
15 ummæli:
Þessu tengt, eða þannig.
Í hvaða bók Snjólaugar Bragadóttur er skipt um nafn á einni af aðalpersónunum eftir ca 100 bls?
Gísli
Það er í Allir eru ógiftir í verinu. En þetta er reyndar ekki aðalpersóna heldur aukapersóna sem heitir Guðbrandur í fyrri hluta bókarinnar en Guðbjörn í þeim síðari. Nógu líkt og það langt milli þess að hann er nefndur til að það sé skiljanlegt að það hafi sloppið í gegn þótt þetta sé mjög fyndið.
Takk fyrir að muna þetta. Ég renndi gegnum allar bækur SB sem þá voru til, á bókasafni KHÍ 1979, til að finna þetta, og mig minnti í morgun að viðkomandi persóna hafi heitið Þráinn til að byrja með. Er mögulegt að nafnavíxl hafi orðið í fleiri bókum SB?
Vá hvað ég væri pirruð ef ég hefði þýtt þessa bók.
Gísli, það er hugsanlegt en ég hef þá ekki tekið eftir því. Þráinn kemur við sögu í Holdið er torvelt að temja; ég held að hann heiti örugglega Þráinn allan tímann þar. Reyndar þekkja sumar persónurnar hann sem Jón en það er gefin skýring á því (maðurinn heitir semsagt Jón Þráinn).
Og ef einhver skyldi vera að velta því fyrir sér: Já, ég hef lesið bækur Snjólaugar býsna oft.
Já, Þórdís, það væri heldur betur verðskuldaður pirringur.
Káputextagerð er stórlega vanmetin bókmenntagrein.
Púff og arg. Tek undir með Þórdísi að ég yrði mjög pirruð ef ég hefði þýtt þessa bók og svo klúðraði forlagið kápunni svona.
Annars les ég aldrei káputexta lengur, sérstaklega ekki á spennubókum. Það gerist alltof oft að ljóstrað er upp um hluti sem gerast um eða eftir hálfa bók. Steininn tók úr þegar ég las 300 blaðsíðna bók í fyrra, en á kápunni var lýst atburðum sem gerðust eftir bls. 200.
Er það ekki í "Holdið er torvelt að temja" sem allir eru alltaf að drekka hvítvín í einhverri listahippastemningu?
Jahá, Nanna, það eru þeir svo sannarlega.
Salka, svona rugl er bara óþolandi!
Þorgerður, jú, það er einmitt drukkið mjög mikið hvítvín í Holdið er torvelt að temja. Aðalpersónan Ragna er marineruð í því mestalla bókina.
Bjartur bætti forvitnilegri vídd í plottið á Friðþægingu með þessum káputexta: "Það er heitasti dagur sumarsins 1934 þegar 13 ára strákur, Briony Tallis, sér systur sína, Cecilia, afklæðast og baða sig úti í garði á sveitasetri þeirra." Það kemur fram strax í þriðju línu bókarinnar að Briony er kölluð "hún". En örugglega einhverjar djúpar kyngervispælingar sem hafa farið fram hjá öllum nema höfundi káputextans.
Ái! Vá, hvað þetta er pínlegt!
Ég þreytist auðvitað ekki á að vitna í Helga Jónsson og hans ágætu bók Brosað gegnum tárin, en þar heitir aðalpersónan allt öðru nafni í nokkra kafla um miðbik bókarinnar. Mig minnir að hún heiti oftast Sóley, en get ómögulega munað hvaða nafn hún fær þarna um tíma.
-Kristín Svava
Vísanir til Helga Jónssonar eiga skuggalega oft við þegar meingölluð bókaútgáfa er til umfjöllunar.
Ég leit annars aftur á káputextann í bókabúð áðan og sá að bæði nöfnin hafa verið leiðrétt í 2. útg. þannig að ég fer rangt með hvað það varðar í P.S.-inu. Aftur á móti heitir Inger Johanne ennþá Johanna á vefnum hjá Sölku.
Skrifa ummæli