22. ágúst 2011

Tómatsúpan hennar Dorisar LessingSumar bækur eru þannig að þær ná að vekja upp alveg ótrúleg hughrif. Manni finnst maður hreinlega kominn á einhvern stað og lifir sig gjörsamlega inní stað og stund – lykt, bragð, umhverfishljóð, hitastig, landslag – finnst einsog maður sé á staðnum og drekkur í sig lýsingarnar.
Æfisaga Dorisar Lessing, Under my Skin: Volume One of my Autobiography to 1949 er svona bók. Lýsingar á upplifunum, landslagi, mat, lykt, hita, ryki, kryddjurtum o.s.frv., o.s.frv. eru hreint dásamlegar. Mér, amk, finnst ég hreinlega vera komin til Suður Rhodesíu þegar ég les mig í gegnum frásögnina, sé fyrir mér granítklettana, uppþornað grasið sem stingur mann í fótleggina, finn fyrir slættinum í sólskininu þar sem það lemur á húðinni.

Nú er það auðvitað ekki svo að æfisagan, frekar en annað sem frá Doris Lessing hefur komið, sé eingöngu fókuserað á að byggja upp ytri mynd af raunveruleikanum, eða að skapa einhverskonar “sensúal” hugarheim – en hún er einstaklega lagin við að nýta ytri veruleika til að koma til skila því sem fyrir innan bærist. Og það í raun ekki á neinn einfaldan hátt, því það er jú á einhvern hátt sami ytri veruleikinn sem skapar bæði “kommúnistann” og “kaffir” sleikjuna (kaffir-lover) Doris Lessing (bæði þá sem sköpuð er í æfisögunum og svo þær “myndir” hennar sem maður telur sig þekkja úr skáldskapnum) og kóloníalistana sem hún elskaði að hata. Uppúr þessum sama jarðvegi spretta jafn ólíkar týpur og Lessing sjálf og hennar vinir og svo fólk á borð við Ian Smith og hans félaga.


EN .... allavega .... öll þessi rassvasaspeki til að komast á þann stað að segja frá hinni dásamlegu tómatsúpu sem Lessing lýsir svo fjálglega í áðurnefndu bindi af æfisögunni. Sem unglingur hættir Lessing í skóla (en hún hafði verið send í klausturskóla) og flytur tímabundið aftur heim á búgarðinn til foreldra sinna. Þar gat hún ekki verið lengi í einu, af ýmsum ástæðum, m.a. þeirri að hún og mamma hennar áttu aldrei skap saman. Eitt af því sem hún tekur sér fyrir hendur fljótlega eftir að hún hættir í skólanum er að ráða sig sem einhverskonar aðstoðarstúlku á bóndabæ hjá bretum sem komið höfðu til Suður Rhodesíu afþví að það var staður þar sem mögulegt var að lifa þokkalegu lífi af þeim peningum sem þau áttu. Þetta er í austurhluta landsins – á leiðinni milli Salisbury og Umtali (nú Harare – Mutare). Það eru langar og frábærar lýsingar í bókinni bæði á þessum hjónum og þeirra líkum, en ekki síður á umhverfi og andrúmslofti.
Þarna sinnti hin unga Lessing ýmsum verkum, og það sem henni fannst best var þegar hún var beðin um að fara í matjurtagarðinn og sækja grænmeti og kryddjurtir til að nota í matseldinni. Maður getur algerlega tapað sér í lýsingunum á þeim dásemdum sem garðurinn hafði að geyma og í kjöfarið kemur svo tómatsúpan:

“ Af snaga yfir eldavélinni tók ég niður risastóra svarta járnpottinn sem alltaf lyktaði af kryddjurtum, sama hversu vel hann var þveginn. Ofan í pottinn tæmdi ég hverja körfuna á fætur annarri af tómötum, tuttugu pund eða meira. Potturinn var settur yfir eldinn og ég fór aftur út á verönd og sat þar, með fæturna dinglandi, og horfði á hæsnin rölta fram og til baka, á hundana ef þeir voru þar, og kettina, en líf þeirra og hundanna voru einsog hliðstæð, þeir skiptu sér ekkert hverjir af öðrum. Kettirnir áttu sína eigin stóla, staði, runna þar sem þeir biðu af sér hitann yfir daginn. Hundarnir skoppuðu um á veröndinni, en fóru aldrei inn í húsið, sem var yfirráðasvæði Joan og kattanna.

Eftir um það bil klukkutíma tók ég pottinn af eldinum. Hann var nú fullur af rauðu mauki sem mallaði letilega. Ég hrærði í með trésleif í annarri hendi og með silfurskeið í hinni veiddi ég uppúr pottinum bita af tómathýði. Þetta var hæg og ánægjuleg aðgerð. Þegar ég hafði náð öllum litlu, þéttu rúllunum af bleiku hýði uppúr pottinum var bætt við salti, pipar, lúkufylli af timian og um það bil pela af gulum rjóma. Þetta var látið malla í klukkutíma í viðbót. Síðan hádegisverður. Fullir diskar af rauðleitu, ilmandi seyði, ilmurinn þvílíkur að mann sundlaði. Ég borðaði þetta í raun ekki heldur tók það inn, ásamt hugsunum um matjurtagarðinn þarsem hundruð fugla væru nú að drekka úr vatnsfötunum, eða að breiða út stélið í rykinu milli beðanna. Langdregið og hæglátt kurrið í dúfunum, lyktin af tómötunum, slangan – allt varð þetta hluti af bragðinu.

Þetta er tómatsúpa. Aldrei samþykkja neitt minna.” (hraðsoðin þýðing – SG)

Engin ummæli: