28. ágúst 2011

Bókasöfn á gististöðum, 7. þáttur

Gististaður.
Eins og ljóst má vera af fyrri þáttum í pistlaröðinni um bókasöfn á gististöðum eru slík söfn af ýmsu tagi og gististaðirnir sjálfir ekki síður. Fram að þessu hafa gististaðirnir þó allir verið af því tagi sem „varanlega er við landið skeytt“ eins og það er orðað í einni af uppáhalds lagaskilgreiningunum mínum. Hér er hins vegar til umfjöllunar gististaður sem einungis er skeytt tímabundið við landið hverju sinni.

Þegar gist er í tjaldi er engu bókasafni til að dreifa nema því sem ferðalangurinn tekur sjálfur með sér og þegar farangurinn er borinn milli staða segir það sig sjálft að einungis fáráðar myndu fórna dýrmætum kílóum í margar bækur. Á fimm daga gönguferð um Jökulsárgljúfur og Mývatnssveit fyrr í þessum mánuði var bókasafnið því af minna taginu en það var þó til staðar. Geta tvær bækur ekki annars talist safn?

Ljóð og með því
Af augljósum ástæðum var bók Sigrúnar Helgadóttur um Jökulsárgljúfur meðferðis, hún var bæði gagnleg og skemmtileg við undirbúning göngunnar og reyndist einnig vel meðan á ferðinni stóð. Hinn helmingurinn af bókasafninu var Muminpappans memoarer (Minningar múmínpabba) eftir Tove Jansson en sú bók hefur það sér til ágætis í þessu samhengi – fyrir utan að vera stórskemmtileg – að vera lítil og létt en jafnfram drjúg því hún er á sænsku og því seinlesnari en bækur á tungumálum sem ég kann betur. Að auki leyndust í bakpokanum fáein ljósrituð blöð upp úr bókum, þar með talin nokkur ljóð um staði á eða nálægt gönguleiðinni, t.d. Dettifoss eftir Einar Benediktsson og Dimmuborgir eftir Jakobínu Sigurðardóttur.

Sum ljóðin voru lesin fyrir ferðafélagana með kvöldkakóinu og bókin um Jökulsárgljúfur var dregin upp öðru hverju á göngunni. Hvað gististaðinn sjálfan varðar, þ.e. tjaldið, varð reyndin sú að lítið varð um lestur. Það var fremur kalt á kvöldin og nóttunni þannig að þegar háttað var inn í tjald var best að reima svefnpokann saman við háls og því varð lestri ekki hæglega komið við. Sennilega er vissara að hafa hljóðbækur með til öryggis í næstu tjaldferð. Eða æfa sig að fletta bókum með nefinu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

var engin söngbók með í för?

Maríanna

Erna Erlingsdóttir sagði...

Nei.