Bókin 2 tvöfaldir og 4 einfaldir kom út árið 1967 hjá bókaútgáfunni Tvisti á Akureyri. Höfundurinn kallaði sig Hreggvið Hlyn en það var eitt af dulnefnum Vigfúsar Björnssonar (1927-2010). Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu var bókin hugsuð sem skemmtisaga, en það var markmið útgáfunnar að gefa út slíkar bækur og „reyna þar með að hleypa lífi í slíka sögugerð, sem Íslendingar hafa verið fremur fátækir af“ svo vitnað sé beint. En útgáfan hafði einnig annan tilgang sem var að afla fjár til sjónvarpskvikmyndagerðar, gera átti mynd eftir handriti ungrar íslenskrar menntakonu sem stundað hafði nám við kvikmyndagerðarskóla, sú unga kvikmyndagerðarkona mun hafa verið Ingibjörg Haraldsdóttir.
Í 2 tvöföldum og 4 einföldum segir frá starfsmönnum Verksfræðisamsteypunnar sem er heljarinnar verkfræðistofa sem virðist hafa yfirburðastöðu á sínu sviði. Sögusviðið er Reykjavík, líklega Reykjavík framtíðarinnar, en stórhýsi Verkfræðisamsteypunnar trónir eins og risastirni yfir borginni og ber af öðrum byggingum hennar, hún er glæsilegt tákn um auðævi, listrænt víðfeðmi og stórhug, eins og segir í bókinni, byggð úr stáli og gleri með bílastæði á efstu hæðinni í einhverskonar hvítum, bláum og gylltum hjálmi. Hjá Verkfræðisamsteypunni starfa 14 verkfræðingar sem allir eru afar færir á sínu sviði en söguhetjurnar í þessari bók eru samstarfsmennirnir Friðþjófur Arnarsson og Júlíus Salvatore Leví, en þegar hér er komið sögu vinna þeir að tillögu að miklu raforkuveri sem leggja á fram samhliða aðaltillögu samsteypunnar og því má segja að strax komi í ljós innri átök, en yfirverkfræðingnum Bárði Bárðarsyni Loftsal er nöp við þá félaga og tillögu þeirra sem hann grunar að muni skáka eigin verkum.
Þeir Friðþjófur og Júlíus eru miklir félagar en engu að síður afar ólíkir. Friðþjófi er lýst sem hávöxnum og afburðamyndarlegum og afskaplega færum verkfræðingi. Júlíus Salvatore Leví er hinsvegar nýbúi, fæddur á Ítalíu en hefur eftir mikil ferðalög ákveðið að setjast að á Íslandi. Hann er jöfnum höndum góður verkfræðingur og arkitekt og svo er hann einnig myndlistarmaður og tónlistarmaður, en eins og segir í bókinni þá er hann bersýnilega af ættum einhverra hinna miklu ítölsku snillinga endurreisnartímans. Þeir Friðsþjófur og Júlíus eiga það hinsvegar sameiginlegt að ganga auðveldlega í augun á kvenfólki og þegar þeir láta undan þeirri athygli vill hið annars púrítanska líf þeirra riðlast, en báðir eru þeir nokkuð á undan sinni samtíð hvað heilbriðgðisvenjur varðar; Friðþjófur gerir jógaæfingar til að auka orku og vinnuafköst og Júlíus harðneitar að borða hvíta kolvetnisfæðu sem hann kallar plastmat.
Rauði þráðurinn í bókinni er barátta þeirra félaga við Bárð yfirverkfræðing sem er frekar ómerkilegur í framgöngu og æði, hann er sjálfumglaður kjaftaskúmur sem lýgur og fremur skemmdarverk til þess að koma í veg fyrir það að tillaga félaganna að áðurnefndu raforkuveri hljóti brautargengi. Friðþjófur og Júlíus neita að sýna honum teikningar að tillögu sinni og hann gerir ýmislegt til þess að komast yfir þær. Leikar fara þó svo að hann verður að sprengja eigin skrifstofu í loft upp til þess að engin komist nokkru sinni að því að tillaga hans er hálfgert drasl. Það fer því svo að raforkuverið er byggt eftir teikningu félaganna sem þykir afspyrnu framsýn og hentug en síðari hluti bókarinnar gerist á vettvangi við byggingu raforkuversins einhversstaðar á landsbyggðinni. Söguþræði er þó ekki fylgt til hins ítrasta, hann er iðulega brotinn upp með frásögnum af kvennafari þeirra félaga en þær eru ófáar stúlkurnar sem falla fyrir öðrum hvorum þeirra, eða jafnvel báðum.
2 tvöfaldir og 4 einfaldir stendur ágætlega undir því að vera skemmtisaga. Bókin er greinilega skrifuð með karlkyns lesendur í huga og hefur í raun yfirbragð kvikmyndahandrits, Friðþjófur er einskonar James Bond, hann er bestur í öllu og heillar kvenfólkið, hann vinnur öll slagsmál, annaðhvort með afli eða klækjum, kemst iðulega í hann krappann en sigrar alltaf að lokum og endar með flottustu dömuna upp á arminn. Konan er Þuríður einkaritari sem ber af öðrum stúlkum hvað fríðleik og gáfur varðar. Að sumu leyti sver þessi skemmtisaga sig í ætt við þær bókmenntir á Íslandi sem þóttu einna ferskastar og merkilegastar á seinni hluta sjöunda áratugarins, til dæmis Svarta messu Jóhannesar Helga og Borgarlíf Ingimars Erlends, ekki síst þegar kemur að mótsagnakenndri sýn á konur og kynfrelsi. Það er allt morandi í tálkvendum í þessum sögum og tálkvendin vantar svo sannarlega ekki í bókina sem hér um ræðir.
Fyrsta ber að nefna Þuríði sem er langduglegasti ritari Verkfræðisamsteypunnar og allir karlmenn vilja hana en hún lítur lengi vel ekki við neinum, þó að það sé auðvitað ljóst að hún er hrifin af Friðþjófi. Þegar Friðþjófur hyggst láta til skarar skríða í vinnupartíi, vill ekki betur til en að erkióvinurinn Bárður yfirverkfræðingur laumar einhverri ólyfjan í glasið hans sem gerir það að verkum að Friðþjófur drekkur sig útúr en það er mjög á skjön við annars fullkomna persónugerðina. Bárður hefur nefnilega augastað á Þuríði og ákveður að láta til til skarar skríða þrátt fyrir að hún hafi nokkrum dögum áður lítilsvirt hann þegar hann tilkynnir henni að margar erlendar konur, ekki síst þýskar, hafi brostið í grát af hrifingu yfir innanklæðafegurð hans og það ber að taka fram að hér er ekki átt við fagurt innræti heldur er tilvísunin í mun bókstaflegri en svo. Þuríður reynist hinsvegar til í tuskið þegar til kemur en þá sýnir Bárður sitt rétta andlit og fær móðursýkiskast þegar hann stendur frammi fyrir nekt hennar og sannar með því að hann er ekki karlmennið sem hann þykist vera, hvað sem allri innaklæðafegurð líður. Friðþjófur og Þuríður ná hinsvegar saman að lokum en áður en að því kemur hefur hann komist í tæri við ýmsan vafasaman kvenmanninn. Sú magnaðasta er eflaust Hallgerður sem þjónar þeim félögum til borðs í matsal vinnubúða við raforkuverið. Konan sú er ekkert lamb að leika sér við eins og nafnið gefur til kynna. Stúlkan er svo sannarlega mikið háskakvendi og leikur sér að því að reyna við þá Friðþjóf og Júlíus til skiptis. Persónugerðin styður svo sannarlega undir hefðbundnar hugmyndir um konuna sem persónugervingu náttúrunnar og hún er einnig afar skáldleg á köflum. Leikur hennar að Friðþjófi og Júlíusi verður þeim síðarnefnda að falli. Undir lok sögunnar slást þeir félagar heiftarlega þegar upp kemst um marglyndi Hallgerðar og svo fer að Júlíus reynir að skjóta Friðþjóf en tekst það ekki sökum skorts á byssukúlum. Þessi uppákoma er upphafið á endalokum Júlíusar sem leggst í áfengisneyslu og vitleysu og fer svo að hann fyrirfer sér á fylleríi. Þar með er þetta alter ego hins fullkomna Friðþjófs horfið að eilífu en Friðþjófur hefur hinsvegar lært sína lexíu, hættir að drekka, verður framkvæmdastjóri Verkfræðisamsteypunnar og ríður inn í blóðrautt sólarlagið með Þuríði sér við hlið. Þuríður er nefnilega hæfilega siðprúð en jafnframt passlega villt og óútreiknanleg. Það eru svo sem engar fréttir að konur geti verið of vergjarnar og æstar, að minnsta kosti ekki ef litið er í bókmenntir frá umræddum tíma en það kemur einnig í ljós að stúlkur sem eru of siðprúðar og saklausar eru í raun ekki til. Friðþjófur hittir slíka stúlku eitt kvöldið þegar hann ákveður að fara í bíltúr upp í sveit. Þar hittir hann unga stúlku sem er að rýja fé, það skín í svitarakan líkamanna í gegnum rifurnar á efnislitlum klæðnaði hennar. Hann á rómantíska stund með þessari stúlku en færist þó undan því að draga hana á tálar þegar hann áttar sig á því að hún muni vera óspjölluð. Hann lýsir þessari kvöldstund sem draumi og síðar í sögunni birtist stúlkan honum í draumi þar sem hún tekur Júlíus að sér eftir dauða hans.
Í 2 tvöföldum og 4 einföldum endurspeglast ýmislegt sem hátt bar í skáldskap á ritunartímanum, sjöunda áratug síðustu aldar. Hér hefur verið minnst á tvíbent viðhorf til kvenna sem er þó sérstakt að því leyti að í þessari bók gætir ákveðins raunsæis. Í mörgum öðrum skáldsögum frá þessum tíma er það beinlínis takmark karlmanna sem feta þyrnum stráða braut lostans að ná sér að lokum í hreint og óspjallað náttúrubarn og gleyma vergjörnu kvensniftunum sem varða veginn að hreinleikanum. Þannig er skemmtisagan 2 tvöfaldir og 4 einfaldir eins og svo margar skáldsögur undarleg blanda af púrítanisma og nautnahyggju. Þar kemur ekki aðeins til áðurnefnt viðhorf til kvenna heldur einnig nokkuð ruglingslegt viðhorf til tíðarandans. Eðli málsins samkvæmt einkennist frásögnin öðrum þræði af aðdáun á öllu því sem nútímalegt getur talist, það birtist ekki síst í takmarkalítilli aðdáun á nýjungum í byggingalist og tækni, raforkuverið með allri sinni tækni og krafti er auðvitað táknmynd karlmennskunar. Engu að síður má einnig greina nokkuð íhaldsamt viðhorf til borgarmenningar, borgin er lastabæli hið mesta þar sem úrkynjaðar fígúrur, ekki síst listamenn eru í hróplegu ósamræmi við göfugt og sakleysislegt sveitafólkið.
Styttur hluti úr útvarpsþætti sem Þórdís og Þorgerður gerðu fyrir RÚV sumarið 2008.
4 ummæli:
Ég hef um nokkra hríð velt því fyrir mér að lesa þessar bækur Ingimars Erlendar og Jóhannesar Helga. Ég er svona enn að íhuga það.
-Kristín Svava
Skemmtilega geggjað að hugsa útgáfu á íslenskum skáldskap sem svona get-rich-fast-plan...
Ég heyrði einhversstaðar þá sögu að Dieter Roth hafi staðið á bak við þessa bók, að honum hafi þótt ómögulegt að ekki væri til skáldsaga á íslensku með þessum titli. Mágur hans, Vigfús Björnsson, skrifaði svo bók undir titilinn og innan í kápuna sem ég Dieter mun hafa hannað.
Góð saga. En það stendur að Hallgrímur Tryggvason prentari, sem var víst þekktur fyrir ýmislegt á sinni tíð, hafi hannað kápuna á bókinni.
Skrifa ummæli