Bækur eru sígildar gjafir, ekki bara um jólin, gott ef það eru ekki deildir í sumum bókabúðum þar sem sérstakar gjafabækur eru í hillunum Ég gef vinum mínum oft bækur. Ósjaldan læt ég bækur sem ég er búin að lesa, og langar til að aðrir lesi, ganga áfram til vina minna og stundum kaupi ég auðvitað nýjar eða nýlegar bækur og gef af ýmsum tilefnum. Mér finnst líka gaman að gefa allskonar undarleg og sjaldséð rit sem ég finn einhversstaðar í kössum á flóamörkuðum, Hjónalíf eftir Pétur Sigurðsson kaupi ég t.d. ef ég rekst á og gef í tækifærisgjafir. Af öðrum bókum sem ég kaupi þegar ég finn þær og gef vinum mínum má nefna 90 sýni úr minni mínu eftir Halldóru Thoroddsen, Dægradvöl eftir Benedikt Gröndal og Vasabók eftir Pétur Gunnarsson, og mér fyndist auðvitað óskandi að hægt væri að ganga að þessum bókum í búðum.
Um daginn keypti ég þrjú eintök af Ripples from Iceland eftir Amalíu Líndal. Eitt eintak ætla ég að eiga sjálf, eitt er ég búin að gefa Parísardömunni og því þriðja pakka ég örugglega inn einhverntíma eða sendi það einhverjum sem mig langar til að lesi um áhugaverða lífsreynslu bandarískrar konu sem flutti til Íslands árið 1949 og bjó hér í rúm tuttugu ár. Gefa lesendur Druslubóka og doðranta vinum sínum helst einhverjar sérstakar bækur umfram aðrar?
13 ummæli:
Ég er með þá gjafastefnu að ég gef alltaf það sem mig langar í sjálf eða það sem ég á og vil að aðrir njóti. Þannig að ég gef eiginlega alltaf bækur eftir þann höfund sem er í uppáhaldi í augnablikinu. (Eitt árið gaf ég öllum Philip Roth).
Jú, svo hef ég oft gefið fólki Af-bækur Nýhils (sem eru geðveikt fínar, en margir vita ekki af) og aðrar bækur eftir Nýhilskáld. Ég hef líklega gefið Litli kall strikes again eftir Steinar Braga oftast. Hún er klassík.
Svo eru bækur eins og þessar: http://www.steinegg.is/files/7e1ee40310778bcba7164dab17f0063d-30.html
og fleiri "Heimsins besti einhver"-bækur frábær viðbót við Litla kall.
Ef ég þarf að finna gjöf handa barni, þá verður bók næstum alltaf fyrir valinu. Svo finnst mér gaman að gefa fullorðnum ljóðabækur, nema þeir hati ljóð, þá fá þeir vinjettur.
Ég reyni yfirleitt að gefa fólki bækur sem ég held það muni njóta, en myndi ekki kaupa sér sjálft. Það er oftar en ekki myndasögur bara afþví þær eru miklu flottari í pakka.
Síðasta bók sem ég gaf var gömul og lúin íslensk bók um hekl. Hún fór til Svíþjóðar.
Ég er yfirleitt með nokkrar bækur í einu á svona mental lista, þ.e.a.s. bækur sem ég hef sjálf lesið og var ánægð með, og get ímyndað mér að margir hafi gaman af. Stundum kaupi ég nokkur eintök á bókamarkaði og á í gjafapokunum mínum. Bækur sem ég man eftir að hafa gefið síðasta árið eru t.d. Þjófaborg, Málavextir eftir Kate Atkinson, Bókmennta- og kartöflufélagið, Á eigin vegum og ein af bókum Stephen Fry. Þegar ég gef miklum lestrarhestum bækur fer ég aftur á móti í grúskið; kaupi kannski einhverja frekar "obscure" bók sem ég hef sjálf lesið eða finn eitthvað sem vekur forvitni mína.
P.S. Ég verð að viðurkenna að ég gef fólki líka ansi oft bækur sem ég þýddi sjálf. En hey, bara ef ég held að fólk hafi gaman af þeim!
Ég man ekki til þess að hafa tilteknar bækur krónískt á gjafalista, nema þá Vísnabókina sem ég gef mjög oft í sængurgjöf. En það koma tímabil þar sem ég gef mörgum sömu bókina, það er þá oftast svipað og í lýsingu Sölku að mér hefur fundist bókin skemmtileg og finnst líklegt að sama gildi um fleiri. Ég gaf einmitt ófá eintök af Bókmennta- og kartöflubökufélaginu í fyrra og framan af þessu ári. Og líka af Leyndarmálum annarra! Svo eru einstaka höfundar þannig að ég gef gjarnan einhverja bók eftir viðkomandi, t.d. vinn ég reglulega í að útbreiða Jasper Fforde (þetta minnir mig á að ég er lengi búin að ætla að skrifa um nýjustu bókina hans).
Oft eru þetta bækur sem mér finnst líklegt að fari annars framhjá fólki, oft þýddar skáldsögur. Fyrir nokkrum árum gaf ég t.d. allmörg eintök af bók sem heitir Engillinn hennar Grétu. Vondur titill, hroðaleg kápa og óaðlaðandi káputexti en bókin sjálf var ansi skemmtileg.
Reyndar gef ég helst bækur sem ég hef lesið sjálf. Mér er eiginlega fyrirmunað að gefa bók sem mér finnst sjálfri léleg en hugsa samt oftast líka býsna mikið um það hvað er líklegt til að höfða til viðtakandans. Þannig að ef hætta er á að smekkurinn sé ólíkur reyni ég að finna eitthvert svæði þar sem líklegt er að hann skarist.
Það kemur fyrir að ég gef svokallaðar "gjafabækur", það eru þá helst ljóðasöfn o.þ.h. sem ég gef stundum í fermingar- og stúdentsgjafir. Nánustu fjölskyldumeðlimir fá nýjar bækur í jólagjöf frá mér, þá oftast innbundnar, annars gef ég langmest af kiljum á ýmsum aldri.
Stundum reyni ég að safna að mér bókum, t.d. á bókamörkuðum, með það í huga að nota þær til gjafa en ég gleymi langoftast að ég á þær til þegar þar að kemur. Ég rakst t.d. á poka með svona bókum um daginn þar sem m.a. var að finna tvö eintök af ferlega skemmtilegu esseyjusafni eftir Anne Fadiman sem heitir Ex Libris - Confessions of a Common Reader. Ég þarf endilega að fara að finna þeim góð heimili.
Ég hef gefið flestum sem hafa útskrifast í kringum mig á síðustu árum ljóðasafn Ingibjargar Haralds í útskriftargjöf. Mér finnst hún nefnilega svo frábær að ég á eiginlega ekki orð yfir það.
Svo fer ég líka stundum á bókamarkaði og kaupi mörg eintök af sömu bókinni til að gefa í tækifærisgjafir (t.d. Tímaþjófinn e. Steinunni Sigurðar og Paulu e. Isabel Allende). Svo er líka mikið sport að kaupa eldgamla kvennafræðara og eldgamlar og hallærislegar ljóðabækur og gefa við hin ýmsu tilefni.
Ég hef verið dálítið höll undir Lærdómsrit Bókmenntafélagsins þegar mér finnst þau eiga við og ber þá helst að nefna Birting í þýðingu Halldórs Laxness, sem mér hefur lengi fundist svo stórkostleg bók að mér finnst bráðnauðsynlegt að allir lesi hana, og það sem oftast. (Kannski ég ætti að blogga um hana við tækifæri.) Og Kommúnistaávarpið eftir að það kom út hjá þeim. Annars er það nú bara hitt og þetta, alls konar bækur.
Lengi vel gaf ég alltaf Bókina um Veginn í fermingargjöf. Ég hef gefið The Crying of Lot 49 tvisvar eða þrisvar og Birtíng tvisvar.
Lærdómsrit eru góð. Annars hef ég ekki tekið eftir sérstöku eigin mynstri, nema að ég gaf The perks of being a wallflower a.m.k. tvisvar þegar ég var unglingur.
Ég gef oft ljóðabækur, því þær eru svo skemmtilegar og fólk veit það ekki. Og svo bækur sem ég held að viðkomandi hafi gott af að lesa, sem stundum hefur mistekist hræðilega, einsog þegar ég gaf systur minni bókina Dýragarðsbörn, en henni fannst hún svo viðbjóðsleg að hún setti hana fram á gang og skipaði mér síðan að taka hana aftur og hafa heima hjá mér.
Ég er byrjuð að lesa Amalíu, en það gengur hægt því ég er með tvo reyfara í takinu líka, en kærar þakkir fyrir mig! :)
Skrifa ummæli