27. ágúst 2011

Margit Sandemo - guðsbarn eða galdranorn?

Mér finnst við mega til með að dúndra hér inn smá frétt af Margit Sandemo, þeim öðlingshöfundi Norðmanna sem ég veit að er margri Druslubókadömunni kær. Þetta er frekar leim skúbb úr Fréttablaðinu í gær, en skemmtilegt samt sem áður: Margit hefur brugðist illa við nafngift fyrirhugaðs sjónvarpsþáttar Ragnhildar Steinunnar í Ríkissjónvarpinu um „unga íslenska eldhuga“, en hann átti að heita Ísfólkið. „Fólk verður að fá að eiga sín hugverk í friði og Ísfólkið er nafn sem flestir tengja við Sandemo”, segir Sigrún Halldórsdóttir, útgefandi Margitar á Íslandi (ég kalla hana náttúrulega sínu fyrra nafni, enda er hún mér eins og gamall félagi, þótt hún sé það kannski ekki fyrir Sigrúnu).

Fregnir herma að Ríkissjónvarpið leggi ekki í þennan slag við Margit en hyggist kalla þáttinn Djöflaeyjuna í staðinn. Ég geri ráð fyrir að þeir hafi borið þetta undir Einar Kárason? Það væri óneitanlega dálítið fyndið ef hann hótaði þeim líka málsókn og hver veit hvert þessi barátta gæti leitt Ragnhildi Steinunni og samstarfsfólk hennar á Ríkissjónvarpinu með því áframhaldi. Spjallþátturinn Svefnhjólið? Gullið í höfðinu – rætt við íslenska eldhuga? Fljótt, fljótt sagði fuglinn – spjallað við leiklistarnemann Þorvald Davíð? Nei, ég er bara að reyna að vera sniðug. Hvernig haldið þið að þetta endi?

7 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég er allavega alveg til í þáttinn Leyndarmál annarra, ef ég má stjórna honum sjálf.

Nafnlaus sagði...

Skrælingjasýningin gæti verið múltí-kúltí-þáttur.

Kristín Svava sagði...

"Spjallað við nýbúa"

Hildur Knútsdóttir sagði...

Ég er til í að selja þeim þáttanafnið "Sláttur" á 750 þúsund krónur.
Eða "Slátur" á 250 þúsund.

Hildur Knútsdóttir sagði...

(En annars hef ég aldrei lesið Ísfólkið. Bara eina bók í þarna hinni seríunni sem var útfrá Ísfólkinu. Ég skammast mín mikið fyrir heimóttarskapinn.)

Kristín í París sagði...

Ég öfunda Hildi af því að eiga Ísfólkið eftir! Þetta er mjög spennandi allt saman. Aldrei datt mér í hug að einhver gæti orðið fúll út af svona leik með óbeinar tilvísanir, einmitt bara smá ókeypis auglýsing í þessu. Djö, hvað ég væri til í að fá að stjórna þættinum Leyndarmál annarra og fá alls konar fólk til að koma og segja kjaftasögur af öðrum.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég hef heldur aldrei lesið Ísfólkið.