30. ágúst 2011

Umdeildur metsöluhöfundur

Kristmann Guðmundsson gaf um sextugt út endurminningar sínar í fjórum bindum, sem samtals eru rúmar þrettán hundruð síður. Bækurnar bera titlana Ísold hin svarta, Dægrin blá, Loginn hvíti og Ísold hin gullna og komu þær út á árunum 1959 - 1962. Kristmann var bæði umdeildur sem rithöfundur og á milli tannanna á fólki vegna einkalífs síns. Hér fyrir neðan eru brot úr útvarpsþætti um Kristmann.

Kristmann Guðmundsson fæddist á Þverfelli í Lundareykjadal í Borgarfirði árið 1901 og lést árið 1983. Hann ólst upp á Snæfellsnesi hjá móðurforeldrum sínum, en Kristmann var lausaleiksbarn og segir skáldið í fyrsta bindi endurminninga sinna, að hann hafi verið óboðinn gestur og óvelkominn í þennan heim. Móðir hans fól foreldrum sínum að ala drenginn upp en flutti sjálf austur í land þar sem hún giftist. Kristmann hitti hana ekki aftur fyrr en á unglingsárum og virðist alltaf hafa gætt biturleika frá hendi sonarins í hennar garð. Faðir Kristmanns, Guðmundur frá Helgastöðum í Skuggahverfinu, bjó í Reykjavík og hafði Kristmann nokkur samskipti við hann þegar hann var orðinn fullorðinn. Um Guðmund segir Kristmann að hann hafi verið kvennabósi og nánast sagnafígúra, nokkurs konar Hrói höttur sem veiddi kvenfólk og vöðuseli í staðinn fyrir skógardýr.Kristmann Guðmundsson menntaði sig í Samvinnuskólanum, en árið 1924 flutti hann til Noregs, harðákveðinn í að skrifa á norsku og var hann þá löngu staðráðinn í að gerast rithöfundur. Honum tókst ætlunarverk sitt, enda virðist Kristmann, þrátt fyrir ýmisskonar mótlæti, alla tíð hafa verið einstaklega bjartsýnn og haft óbilandi sjálfstraust, eða eins og hann segir sjálfur: "Auk þess var í mér sú dæmalausa bjartsýni sem sniðgengur allar staðreyndir og hefur verið næst Skaparanum mín besta hjálparhella alla tíð." Hann náði góðum tökum á norsku ritmáli og varð á undraskömmum tíma einn vinsælasti höfundurinn sem skrifaði á norsku og í fyllingu tímans voru verk hans þýdd á hátt í fjörutíu tungumál. Í íslenskri bókmenntasögu segir að verk Kristmanns Guðmundssonar hafi verið þýdd meira en verk nokkurs annars íslensks rithöfundar á 20. öld, að Halldóri Laxness undanskildum. Fyrsta bók Kristmanns kom út á Íslandi árið 1922, þegar hann var rúmlega tvítugur, og var það ljóðabókin Rökkursöngvar en fyrstu sögu sína á norsku fékk hann birta í tímariti. Sagan heitir Litlakaffi og er skopsaga sem gerist í Reykjavík. Fyrsta bók Kristmanns á norsku kom út 1926, það er smásagnasafn, sögurnar gerast á Íslandi og bókin heitir Islandsk kjærlighet. Strax í þessari fyrstu bók má finna þau höfundareinkenni sem síðan loddu við verk Kristmanns. Þarna er fjallað um ástir og afbrýði og karlmannlegar hetjur sem lenda í mannraunum. Ári síðar kom út skáldsagan Brudekjolen. Roman fra Island, sem kallaðist Brúðarkyrtillinn á íslensku, 1928 og 1929 komu síðan Ármann og Vildís og Morgunn lífsins og fleiri verk fylgdu í kjölfarið árin á eftir.

Þessar bækur Kristmanns, sem gerast á Íslandi, bera flest hefðbundin einkenni afþreyingarbókmennta, frásagnargleðin er mikil, persónur eru dregnar fremur einföldum dráttum og eru ýmist góðmenni eða illmenni og töluvert er um spaugilegan misskilning og aðra gamansemi. Brúðarkyrtillinn gerist í íslenskri sveit en sögusvið bókarinnar Ármann og Vildís er berklahæli, en Kristmann sjálfur dvaldi um tíma á Vífilsstöðum. Morgunn lífsins hlaut mesta útbreiðslu af verkum Kristmanns og er sú bók af mörgum talin hans besta verk. Sagan segir af Halldóri Bessasyni sem fær ekki þá konu sem hann er ástfanginn af, en hún giftist besta vini hans. Hann flytur af Norðurlandi og fer suður, trúlofast stúlku sem hann svíkur og kvænist annarri. Halldór er óstöðuglyndur og rótin er að hann fær ekki þá konu sem hann elskar. Í sögulok kemur í ljós að um misskilning var að ræða, hann hafði aldrei sagt þeirri elskuðu hver hugur hans var og hún hefur í rauninni alla tíð elskað hann heitar en eiginmanninn. Sagan segir einnig frá næstu kynslóð en áfram er Halldór í sögunni og er þá orðinn formaður á bát, bóndi og hreppsstjóri sem lendir í ýmsum hremmingum, meðal annars vegna hefndarhugs konu sem talar líkt og kvenmaður í Íslendingasögum. Halldór lendir í hrikalegu fárviðri úti á sjó, bátur hans brotlendir og hann missir fæturna. Eftir að ýmiskonar ástamálaflækjur leysast fær Halldór loks heiðursmerki fyrir afrek og uppsker viðurkenningu fólksins í sveitinni. Þýska kvikmyndafyrirtækið Greven film gerði bíómynd eftir Morgni lífsins árið 1955, en myndin var tekin upp í Svíþjóð. Hún var sýnd á Íslandi við miklar vinsældir. Kristmann flutti til Íslands skömmu fyrir seinni heimsstyrjöld, hann bjó lengi í Hveragerði þar sem hann ræktaði meðal annars upp glæsilegan og umtalaðan skrúðgarð af miklum dugnaði og skrifaði handbók um garðyrkju. Hann flutti til Reykjavíkur 1960 en bjó síðustu æviárin í Hafnarfirði.

Það er alvanalegt minni að skáld segist hafa verið einfarar í æsku og farið að yrkja og semja sögur á barnsaldri og slíkt á líka við um Kristmann Guðmundsson. Hann segist hafa samið vísu fyrir ömmu sína fimm ára gamall og jafnframt sagt henni að hann ætlaði að verða stórskáld. Fyrir tíu ára aldur segist Kristmann hafa ort áróðursljóð gegn kirkju og prestum í anda Þorsteins Erlingssonar og sögur skrifaði hann frá 10 ára aldri. Líkt og regla virðist vera um þá sem skrifa skáldendurminningar segist Kristmann lítill verkmaður í æsku, hann liggur hins vegar í bókum og les allt sem hönd á festir, eldhúsreyfara, mannkynssögu, heimspeki, náttúrufræði, Íslendingasögur og svo mætti lengi telja, bæði á dönsku og íslensku. En Kristmann hefur ekki aðeins skáldferilinn snemma heldur líka feril sinn sem elskhugi. "Mér varð snemma hrösunargjarnt á vegum hins fagra kyns" segir í fyrsta bindi endurminninganna og þarna er tæplega hægt að segja að hann ýki. 8 ára að aldri verður hann fyrst ástfanginn af stelpu á 12. ári en sú barnsást fær skjótan endi þegar hann sér stúlkuna pissa í berjamó. Fljótlega komu svo aðrar konur til skjalanna, fyrst vinnukona sem hann kyssir og 14 ára verður hann elskhugi fráskilinnar konu úr Reykjavík, sem dvelur um tíma í heimasveit hans og gefur honum sælgæti og bækur. Í gegnum endurminningabækurnar rekur Kristmann sambönd við fjölmargar konur, en hann átti fjölda vinkvenna og giftist að auki níu sinnum um æfina. Sá galli er hins vegar á frásögnum af öllum þessum konum að þær eru fæstar dregnar skýrum dráttum og fá þær því langflestar á sig þokukenndar myndir í huga lesanda. Ólafur Jónsson skrifaði árið 1961 umfjöllun um þrjár fyrstu endurminningabækurnar í tímaritið Birting þar sem hann sagði konurnar líkjast hver annarri með undarlegum hætti, þær minna hann á blóm, ávexti, fjallalæki og sólaruppkomu og hann segir Kristmann lýsa þeim öllum í sama náttúrulausa vikublaðastílnum.

Það eru ekki bara konurnar sem hafa yfir sér óraunverulegan þokuhjúp í endurminningabókum Kristmanns. Hann lýsir fáum samferðamönnum sínum vel og tæpast heldur samfélagshræringum eða bókmenntalífi í Noregi og á Íslandi. Vegna þessa verða endurminningarnar ekki sá áhugaverði aldarspegill sem til dæmis endurminningabækur Hannesar Sigfússonar, Flökkulíf og Framhaldslíf förumanns eru, eða endurminningabækur Jóns Óskars. Ólafur Jónsson bendir réttilega á í fyrrnefndum dómi að skáldferill Kristmanns, sem óneitanlega var glæstur framan af, ásamt nokkuð ævintýralegu einkalífi, hefði boðið upp á að verða góð heimild um andlegt líf og bókmenntir á Íslandi og í Evrópu á árunum á milli heimsstyrjaldanna, auk þess að segja frá sjálfsleit og þroskaferli skálds. En Kristmann Guðmundsson var ekki neinn Stefan Zweig, og auðvitað væri ósanngjarnt að álasa honum fyrir að skrifa ekki bók á borð við Veröld sem var, en staðreyndin er samt sem áður sú að eftir lestur fjögurra doðranta er lesandi ekki miklu nær um áhugaverða tíma og það fjölmarga fólk sem Kristmann umgekkst á lífsleiðinni. Á þessu eru þó undantekningar, lýsingar á bernskudögum hans í sveit, samskiptum við afann sem ól hann upp og stopul kynni af móðurinni, sem hófust ekki fyrr en á síðari hluta unglingsára, eru til að mynda nokkuð eftirminnileg. Frægum rithöfundum sem hann hitti í Noregi eru hins vegar gerð afar takmörkuð skil. Lesandi fær þá tilfinningu að Kristmann hafi lifað í eigin heimi þó að hann væri stöðugt í samskiptum við annað fólk, verið undarlega sjálfhverfur og ónæmur á samferðafólk sitt og tíðarandann. Ólafur Jónsson segir um skáldið að hann sé utangátta við strauma sinnar tíðar og virðist lifa í eigin heimi ærið þröngum og telji fæst frásagnarvert sem ekki er honum nákomið persónulega. Annað einkenni endurminninganna eru tíð samskipti Kristmanns við handanverur úr hulduheimum og stundum leysast áhugaverðar frásagnir af mannlífi upp í umfjallanir um samskipti við fólk sem höfundurinn hittir í draumum eða við huldufólk sem hann mætir úti í náttúrunni. Það gerir líka endurminningabækur Kristmanns á köflum nokkuð ótrúverðugri en annars væri að hann nafngreinir ekki marga samferðamenn sína, notar gjarna dulnefni eða kallar fólk N.N. Þetta gerir hann stundum til að hlífa fólki en oft virðist það algerlega tilgangslaust eða hreinn óþarfi.

Kristmann Guðmundsson flutti til Íslands árið 1937, en þá hafði hann búið hátt á annan áratug í Noregi og skrifað á annan tuga bóka sem selst höfðu vel og verið þýddar á fjölmargar tungur og einnig hafði hann dvalið í Danmörku og fleiri löndum. Fyrst bjó hann í Reykjavík en síðar settist Kristmann að í Hveragerði og bjó þar í um tuttugu ár. Í Loganum hvíta segir Kristmann frá því að menn hafi furðað sig á flutningunum og að í Reykjavík hafi geysimikið verið slúðrað um hann. Menn spurðu hvort eitthvað hefði gerst í Noregi sem hefði rekið hann heim, hvort bækurnar væru hættar að seljast og ýmsar fleiri frekjulegar og ógeðfelldar spurningar fær hann. Kristmann segir menn hafa giskað á ýmsar ástæður fyrir Íslandsflutningunum og að hann hafi orðið var við að eitthvað hafi orðið til þess að vinum hans fór að fækka. Raunverulegar ástæður komu skáldsins til Íslands segir hann einfaldlega hafa verið heimþrá, hann hafi alltaf verið hálfgerður útlendingur í Noregi, en auk þess spiluðu kvennamál inní en um þau var gríðarmikið slúðrað. Kristmann var sagður ofbeldismaður, hann segir menn hafi slegið því föstu að hann hafi verið rekinn frá Noregi fyrir kvennafar og væri eyðilagður og fyrirlitinn maður er engin þjóð vildi hýsa, að bækur hans fengjust ekki prentaðar í Evrópu og að hann væri búinn að vera á allan hugsanlegan hátt. Að sjálfsögðu er hægt að velta fyrir sér hvað hæft sé í því sem Kristmann segir um rógburðinn, en aðrir hafa vissulega staðfest að viðurstyggilegar sögusagnir gengu um hann. Í Flökkulífi Hannesar Sigfússonar er frásögn af samskiptum Hannesar og Elíasar Marar við Kristmann, en þeir þýddu bækur í sameiningu, meðal annarra Frú Mörtu Oulie eftir Sigrid Undset og fékk Kristmann allan heiðurinn af vinnunni og bar mest úr býtum að sögn Hannesar, sem nefnir þó líka að sér hafi blöskrað kjaftagangurinn og ósanngirnin í garð Kristmanns, þó að þeirra samskipti hafi ekki í alla staði verið sem best.

Kristmann taldi kommúnista vera með skipulagt samsæri í gangi gegn sér og að rógburðurinn væri hluti þeirrar herferðar, sem einnig fólst í því að eyðileggja og gera sem minnst úr hans verkum og taldi hann gengisleysi sitt hér heima hluta af þessari herferð rauðliða. Það verður að segjast eins og er að þessi skipulagða herferð hljómar afar ósennilega, en Kristmann segist hafa heimildamenn fyrir henni sem hann nafngreinir ekki. Hann segir bréf sem honum voru send ekki hafa borist og að þau bréf, sem þó hafi ratað til hans hafi greinilega verið opnuð og lesin. Kristmann segir Guðmund frá Miðdal hafa lent í svipuðum hremmingum. Auðvelt væri að afgreiða slíkt tal sem vænisýki biturs manns en nú, þegar vitað er að símar manna á Íslandi voru hleraðir á tímum kalda stríðsins, hvers vegna skyldu þá bréf ekki hafa verið opnuð og þau jafnvel gerð upptæk, hvort sem um einhverskonar skipulega herferð illra afla hefur verið að ræða eða ekki? Það er þó dálítið erfitt að sjá hvers vegna menn hefðu átt að finna höfuðóvin í rithöfundinum Kristmanni Guðmundssyni. Kannski var þetta leið Kristmanns til að skýra hvers vegna hann, hæfileikaríkur og vinsæll rithöfundur, sem náð hafði góðum árangri á heimsvísu, var skyndilega ekki lengur jafn viðurkenndur í heimi bókmenntanna og áður og mögulega var þetta bara hreinn hugarburður og vænisýki.
Ármann Jakobsson skrifaði um Kristmann
í Lesbók Morgunblaðsins 2001
Þá má minnast á málaferli sem áttu sér stað á 7. áratugnum. Árið 1963 var Kristmann í hæsta flokki listamannalauna ásamt til dæmis Halldóri Laxness, Gunnari Gunnarssyni og Jóhannesi Kjarval. Auk þessa hafði Kristmann starfað við það í nokkur ár að fara á milli skóla og fræða æskulýðinn um íslenskar bókmenntir. Þetta þótti Thor Vilhjálmssyni ranglát upphafning Kristmanns og skrifaði um það harðorða grein í Birtíng. Kristmann taldi hana árás og atlögu gegn mannorði hans og atvinnu. Í Morgunblaðinu þann 28. nóvember 1963 birtist lítil klausa þar sem segir að Kristmann Guðmundsson hafi stefnt Thor Vilhjálmssyni fyrir ærumeiðingar vegna greinarinnar í Birtingi. Þess var krafist að ummælin yrðu dæmd ómerk og að stefndi yrði dæmdur í þyngstu refsingu og yrði gert að greiða allt að 200.000 krónur í skaðabætur. Málið velktist í kerfinu í nokkur ár en þann 26. apríl árið 1966 féll loks dómur í máli Kristmanns gegn Thor í Bæjarþingi Reykjavíkur og voru ummæli Thors dæmd ómerk, honum gert að greiða 200 króna sekt í ríkissjóð, 500 krónur í bætur til Kristmanns og að auki málskotnað og birtingarkostnað. Málaferlunum gerir Thor ágæt skil í bókinni Faldafeyki sem kom út árið 1979.

Verk Kristmanns eiga alveg skilið að vera lesin á þeirra eigin forsendum og án þeirra fordóma sem mönnum hefur fram á þennan dag verið gjarnt að hafa um Kristmann og hans rit. Til dæmis má nefna Félaga konu frá 1947, sem er á margan hátt áhugaverð bók. Það er freistandi að ætla að áhugi á einkamálum Kristmanns Guðmundssonar hafi á Íslandi alltaf staðið í vegi fyrir því að menn læsu og dæmdu verk hans að verðleikum. Í viðali sem Steingrímur Sigurðsson tók við skáldið og gaf út í bókinni Spegill samtíðar árið 1967 og ber yfirskriftina Níunda giftingin eins og innblástur, virðist sem áhuginn á einkamálunum hafi algjörlega yfirhöndina jafnvel þótt þarna sé höfundurinn nýbúinn að senda frá sér skáldsögu og meira að segja þá fyrstu í sex ár. Kristmann er lítið spurður um verkið en hins vegar fær hann spurningar á borð við: Er ekki gaman að vera svona kvenhollur?,  Ertu góður við konur Kristmann?, Geturðu hugsað þér að skrifa án samneytis við konu?, Eru íslenskar konur miklar ástkonur? og: Hefurðu eins mikla hæfileika til að elska og áður fyrr? og fleiri slíkar. Þessum spurningum svarar Kristmann skýrt og skorinort en óneitanlega kemur þetta manni einkennilega fyrir sjónir, nýútkomið bókmenntaverk skáldsins er í algjöru aukahlutverki í viðtalinu, en þetta er auðvitað ekkert einsdæmi nema síður sé.

Úr grein Ármanns Jakobssonar um Kristmann í Lesbók Morgunblaðsins 2001

Úr útvarpsþætti sem Þórdís og Þorgerður gerðu fyrir RÚV fyrir nokkrum árum.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ol;le

(of langt, las ekki)

Þórdís Gísladóttir sagði...

Það er ekki hægt að skrifa of mikið um Kristmann :)

Maríanna Clara sagði...

þetta hljómar eins og áhugaverður maður en ég veit nú ekki hvort maður leggur í þessi fjögur bindi...kannski maður láti bara þessa skemmtilegu samantekt ykkar nægja?

Gisli sagði...

Þetta er góð samantekt og alls ekki of langur skammtur með morgunkaffinu. Ég finn á mér að með Kristmann í huga verður dagurinn góður.

Nafnlaus sagði...

Aðalsöguhetjan í Morgni lífsins heitir Halldór Bessason en ekki Snorrason eins og sagt er hér að ofan.

Páll Ásgeir

Dúnja sagði...

Ég veit ekki hvort það segir meira um mig eða samtímann, en ég hugsaði þegar ég las um þessi viðbrögð samfélagsins við honum: "Sveimér þá, það er bara næstum eins og hann hafi verið kelling!" Því einhvern veginn tengir maður þennan mikla áhuga á einkalífi, tendens til að gera lítið úr bókmenntaverkum höfundar og almenna hysteríu við umfjöllun um konur...

Þórdís Gísladóttir sagði...

Takk Páll, ég lagaði (við þiggjum gjarna leiðréttingar).
Og já en þessi illgirni og kjaftagangur um Kristmann minnir kannski sumpart á umtalið um Ástu Sigurðardóttur?

Sæmundur Bjarnason sagði...

Las greinina alla og fannst hún góð. Man vel eftir Kristmanni. Hann var eitt af skáldunum í Hvg. þegar ég var að alast þar upp. Las á sínum tíma eitthvað af endurminningabókum hans og þótti ágætar. Þokuna rauðu minnir mig að ég hafi lesið, en hef allsekki lesið allt eftir hann.

Einkalíf hans var mjög á milli tannanna á fólki. Steinn Steinarr eldaði grátt silfur við hann og líklega fleiri. Kannast við málaferlin við Thor.

Í brag sem eitt sinn var vinsæll í Hvg. var talað um að sjö væru konur eins manns (Kristmanns) og sjö væru dyr á einu húsi (læknishúsinu).

Ýmislegt fleira mætti tína til.