7. janúar 2009

Jonas Hassen Khemiri

Meðal gesta Alþjóðlegrar bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2007 var eitt af vinsælustu ungu skáldum Svía, Jonas Hassen Khemiri. Höfundurinn, sem varð þrítugur núna milli jóla og nýárs, hóf ferilinn árið 2003 með bókinni Ett öga rött. Bókin, sem er að hluta til skrifuð á heimatilbúinni innflytjendasænsku, fékk verðlaun sem besta fraumraunin á útgáfuárinu, hún hefur náð til ólíkra lesenda á öllum aldri, verið sviðsett í leikhúsi og eftir henni verið gerð bíómynd.

Jonas Hassen Khemiri er Svíi í móðurætt en pabbinn er frá Túnis, persónur verkanna hans eru líka oft innflytjendur eða koma úr umhverfi nýbúa. Frá upphafi ferilsins hefur verkum Khemiris verið fagnað, jafnvel svo kröftuglega að manni verður um og ó. Skáldsagan Montecore. En unik tiger, sem kom 2006, var tilnefnd til Augustpriset, leikritið Invasion! var sett á svið í Borgarleikhúsi Stokkhólms veturinn 2007-2008 og fékk almennt lof og er nú sýnt í fleiri löndum, leikritið Fem gånger Gud er sýnt víða um Svíþjóð við fögnuð áhorfenda og gagnrýnenda og Jonas Hassen Khemiri fékk nýlega smásagnaverðlaun Sænska ríkisútvarpsins. Segja má að þessi viðkunnanlegi höfundur (sem uppnefndur var á Bókmenntahátíð eftir fagurri söguhetju enskra barnabóka, en þar sem ég vil ekki uppnefna feisbúkkvini mína ætla ég að láta aðra um að ljóstra upp viðurnefninu) sé orðinn hálfgerð költfígúra í heimalandinu, hann á sér aðdáendaskara í fjölbreyttum þjóðfélagshópum, allt frá krökkum í félagsmiðstöðvum og matráðskonum í skólum til uppskrúfaðaðra og trénaðra magistera með flagaraklúta um hálsinn.

Einhverjir óttuðust að Jonas Hassen Khemiri næði ekki að fylgja fyrstu bókinni eftir, það er ekki auðvelt að koma með annað verk eftir að hafa verið kysstur og faðmaður af öllum fyrir frumraunina. En honum tókst að komast yfir hindrunina og trompa sjálfan sig því Montecore er að mínum dómi betri en Ett öga rött. Höfundurinn er galdrakall sem tekst að snúa á lesandann og leika sér með hann af fimi sjónhverfingamanns sem hefur algjört vald yfir áhorfandanum sem gleypir við trolleríinu og sprellinu með augun upp á gátt en veit samt vel að það er verið að svindla og blekkja.

Aðalpersóna Montecore. En unik tiger er rithöfundurinn Jonas Khemiri (já, já, metafiksjón) sem reynir ásamt Kadir, gömlum vini föður síns, að skrifa sögu pabbans sem kom fyrir nokkrum áratugum til Stokkhólms frá Túnis til að reyna fyrir sér sem ljósmyndari en tókst aldrei að komast inn í lokað þjóðfélagið og hvarf aftur út í heim. Þar hefur pabbinn, að sögn vinarins, öðlast frægð sem stjörnuljósmyndari sem minglar við Bono og Salman Rushdie í boðum hinna ríku og frægu. Þeir senda hvor öðrum tölvupósta og Kadir skrifar óborganlega fyndna sænsku sem er blönduð arabísku, frönsku og bókmenntamáli í anda sænskra þjóðskálda. Persónan Jonas leggur til bernskuminningar sínar um pabbann, mann sem passaði ekki inn í sænskt þjóðfélag sem byggir á óskrifuðum hirðsiðum og stífum samskiptareglum. Lýst er lífinu í samfélagi þar sem fólki er gert ómögulegt að lifa eftir eigin hugmyndum og óskum. Í orði er Svíþjóð land frjálslyndis og umburðarlyndis en undir yfirborðinu krauma rasismi og fordómar. Bókin er grípandi frásögn um fjölskyldu sem tekst ekki að láta draumana rætast vegna ytri takmarkana og um útlendinginn sem gefst upp og leggur á flótta því hann getur ekki látist vera eitthvað annað en hann er.

Gagnrýnandi skrifaði einu sinni eitthvað á þá leið að Jonas Hassen Khemiri hefði þann hæfileika að geta sýnt hið kjánalega í fari persóna sinna án þess að þær væru kjánalegar og það er nokkuð til í því. Þetta er náttúrlega mikilvægur hæfileiki góðra höfunda; að geta sýnt persónur gera sig að fíflum eða í niðurlægjandi aðstæðum án þess að gera þær annað hvort að aumingjum sem þarf að vorkenna eða einhverjum ómennskum vitleysingum. Khemiri er aldrei meinfýsinn eða hæðinn, hann predikar ekki og setur sig ekki á háan hest gagnvart oft hálfógæfulegum persónunum og hann er fyndinn og orðheppinn án þess að hægt sé að tala um einhverja tilgangslausa hnyttni. Hann á heldur ekki til bókmenntalega tilgerð, sem maður gæti í rauninni alveg búist við, það væri líka örugglega auðvelt að klúðra efniviðinum því höfundinum er oft mikið niðri fyrir.

Nýjasta bókin eftir Khemiri er Invasion! sem kom út 2008. Hún er safn styttri texta og tveggja leikverka, þar á meðal er Invasion! sem er verkið sem kom höfundinum upp á leiksvið Evrópulandanna þar sem hefur verið sýnt víða undanfarið, líklega síðast í Soho í London. Eins og á við um allt sem Khemiri lætur frá sér er tungumálið í aðalhlutverki og um leið sjálfsmynd manneskjunnar sem notar orðin hverju sinni. Margir halda að það að tala mörg tungumál frá barnæsku og að nota ólík mál heima og í skóla sé á einhvern hátt takmarkandi fyrir málþroskann og valdi jafnvel vitsmunalegri fötlun. En Jonas Hassen Khemiri, sem ólst upp við að tala nokkur afar ólík tungumál heima og heiman, sýnir að það er rugl (enda notar meirihluti mannkyns að jafnaði fleiri tungumál en eitt í daglegu lífi). Leyfi menn sér að leika sér með tungumálin, nota orðin eftir eigin hentisemi og móta eins og leir eða brauðdeig, getur margt ótrúlega skemmtilegt gerst, veröldin getur vitrast frá óvæntum sjónarhornum og eldingum jafnvel slegið niður af heiðskírum himni. Jonas Hassen Khemiri sagði í samtali á Bókmenntahátíð í Reykjavík að heima hjá honum hefðu hann, foreldrarnir og yngri tvíburabræður hans alltaf hrært saman tungumálum. Þau hefðu raðað saman orðum úr sænsku, frönsku, arabísku og ensku, snúið setningum á hvolf, blandað saman orðtökum og búið til allrahanda orðasalöt sér til skemmtunar. Þetta skilar sér því tungumálið í bókunum hans er ekki fyrirsjáanlegt, klisjukennt, útþynnt eða forskriftarlega „vandað“ og það sama má segja um persónurnar sem hafa orðið hverju sinni. Væri Jonas Hassen Khemiri íslenskur höfundur myndi hann mögulega búa til persónur sem rugla til dæmis saman orðapörum á borð við utanvið og viðutan og látlaus og lauslát. Invasion! er sundurlaus bók og þannig ólík skáldsögunum tveimur en hún er verulega áhugaverð og inspírerandi og textarnir bjóða bæði upp á fliss og allrahanda vangaveltur og fabúleringar.

Verk Jonasar Hassen Khemiri hafa mér vitanlega verið þýdd á norsku, dönsku, þýsku og ensku (og örugglega fleiri mál líka án þess að ég viti það). Bækurnar á frummálinu má til dæmis fá lánaðar á bókasafninu í Norræna húsinu.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Út með það - hvað var hann kallaður?

Æsa sagði...

Ég skýt á Adrian Mole, hann er svolítið þesslegur. Annars verð ég að gefa þér plús fyrir lævíst back door bragging um að hann sé facebook vinur þinn.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þú ert ljósárum frá því að vera heit Æsa, hefði hann verið kenndur við krúttsnúllann hann Adrian Mole hefði ég líklega slengt því fram.

Já og þetta var óneitanlega lævíslegt útspil hjá mér með feisbúkkvináttuna!

Erna Erlingsdóttir sagði...

Mér fannst fésbókarpunkturinn líka fyndið. En maðurinner svo íðilfagur (eða var það allavega á bókmenntahátíðinni), þótt myndin skili því ekki fullkomlega, að Adrian Mole er fjarstæðukennt ágiskun. Ég skýt frekar á Dorian Gray.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ó nei, ekki er það Dorían ...

Maríanna Clara sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Maríanna Clara sagði...

Harry Potter?!??! Hann er með trefilinn vafinn svona Potter-lega um hálsinn á myndinni og svo kallaðir þú hann sjálf galdrakall!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Nix, ekki er það hann Harry Potter, en það er góð ágiskun!

Nafnlaus sagði...

Æji...Fagri Blakkur er svo sætur
ÞES

Nafnlaus sagði...

Ahhh... hrossið fræga Black Beauty.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Flokkast þetta ekki undir einelti? Ég er allavega fegin að þessi feisbúkkvinur kann ekki íslensku, hann færi örugglega að snökta.