10. ágúst 2009

Hvaða fígúrugangur er þetta kona? - Karitasarbækur Kristínar Marju Baldursdóttur

Karitas, án titils og Óreiða á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur eru miklir doðrantar. Þessar bækur eru svona doðrantar sem mér finnast skemmtilegir. Löng og detaljeruð örlaga- og fjölskyldusaga. Ef ég hugsa bara um ánægjuna af því að innbyrða doðrantinn þá skiptir ekki öllu máli að sagan er svolítið skrítin á köflum, stundum pínu pirrandi, sumir karakterarnir full gróteskir – heildaráhrifin eru þau að mann langar að lesa, og lesa meira. Drekka í sig lýsingar á málverkum, landslagi, innanstokksmunum, tilfinningum, kerlingarugli.

Þessar bækur eru alveg gullnáma fyrir bókmenntafræðinga og aðra slíka – hægt að skoða þær útfrá allskyns sjónarhornum og skrifa lærðar greinar um eitt og annað. Til dæmis væri alveg tilvalið að kíkja á hvernig vatn er notað í textanum – sjór, stöðuvötn, baðvatn, þvottavatn, snjór, jökull . . . Karitas í löngum böðum í balanum, endalausir þvottar á fötum og híbýlum, fiskþvottur og svo framvegis.

Persónan Karitas fer frá því að vera að manni finnst hressilegur unglingur með teiknihæfileika og mikla samskiptagáfur yfir í allt að því einrænan snilling sem lifir fyrir listina. Sálarangistin sem tengist listsköpun Karitasar, og þó kannski ekki síður þeim aðstæðum að finnast hún ekki geta sinnt köllun sinni sem skyldi, er áþreifanleg og átakanleg á köflum. Manni finnst eilítið skrítið að hugsa til þess að konan sem berst við myrkið á Borgarfirði eystri sé sú sama Karitas og fór um Akureyri og kjaftaði til kaupmenn, sjómenn, bakara og smiði í leit sinni að mat og húsaskjóli fyrir systkini sín og móður. Og þó, það gæti sjálfsagt breytt stabílasta fólki að vera settur niður á stað á við Borgarfjörð eystri á á fyrri hluta síðustu aldar, eiginmaðurinn í burtu til lengri og skemmri tíma, eignast barn, missa barn, eignast fleiri börn og missa annað þeirra til stjórnsamrar systur. Vera á sama tíma alltaf að reyna að tjá sig í gegnum listina –vanta öll aðföng en geta ekki hætt. Kannski varla nema von að konan hafi allt að því misst vitið. Það er svo reyndar ekki fyrr en löngu löngu síðar í sögunni að Karitas spáir í hvort það geti verið að hún hafi einhverntíman verið tæp á geði en hugsar um leið að sér hafi alltaf sjálfri fundist hún mjög normal og ekkert skilið í dylgjum fólks um geðheilsu sína.

Systir Karitasar, Bjarghildur, er kapituli útaf fyrir sig. Hún er einhvernveginn yfir og allt um kring í sögunni. Vomar yfir á köflum en kemur svo sterk inn þess á milli. Lýsingarnar á Bjarghildi eru þannig að hún verður á köflum allt að því grótesk. Hún er stór og mikil, fer mikinn og rekur þvílíkt myndarbú að annað eins er vandfundið. Vanþóknun hennar á Karitas og því sem hún stendur fyrir er mikil – henni finnst systur sinni ver nær að halda almennilegt heimili eða að minnsta kosti sjá sóma sinn í því að aðstoða þá sem slíkt gera, ekki vera að einhverju dedúi og fígúrugangi meðan almennilegt fólk vinni fyrir sér. Örlög Bjarghildar blessaðrar eru ekki öfundsverð, en hún þjösnast samt áfram fram í rauðan dauðann og ætlaði sér alls ekki að gefast upp fyrir ómyndinni systur sinni – tórði á hjúkrunarheimili á Króknum lengi vel og spurði alltaf reglulega “Er Karitas dauð?”

Karitas tekst, á sinn hátt, að komast þangað sem hún ætlaði sér, þ.e. að öðlast einhverskonar frelsi og lifa á og fyrir list sína. Leiðin er vissulega þyrnum stráð – eða kannski öllu heldur uppfull af kvenlegum skyldum og verkum, eiginmanni, börnum, þvottum, samviskubiti, þjóðfélagsviðhorfi og öllu þessu stússi sem getur gert bestu konum erfitt fyrir. Fyrir hana var ekkert í boði annað en að fara þessa leið – hún varð að brjótast áfram og tjá það sem innra með henni bjó.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir þessi skrif, drakk þessar bækur í mig og lét alla mögulega galla eða undarlegheit aldrei fara í taugarnar á mér. Mér fannst lýsingarnar á vinkonum hennar og sambýlingum mjög skemmtilegar, sú síveika og hin drykkfellda standa þar upp úr.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég á eftir að lesa seinni bókina en heillaðist ekkert sérstaklega af þeirri fyrri. Ekki að mér hafi fundist tímanum sem lesturinn tók illa varið eða neitt svoleiðis en takmarkalaus ást ótalmargra íslenskra kvenna á henni hefur stundum komið mér á óvart. En kannski ég ætti að fara að lesa þá seinni.

Hart, félag háskólamenntaðra táknmálstúlka sagði...

Mér fannst og finnst þetta æðislega bækur, hreinlega hlakka til að lesa þær aftur eftir nokkur ár. Naut hverrar mínútu sem ég lá með nefið ofan í þeim.
Takk fyrir skemmtileg skrif.