26. ágúst 2010

Kona með skjálfta

The Shaking Woman, A History Of My Nerves er nýjasta bók Siriar Hustvedt. Á kápunni er vitnað í Oliver Sacks sem segir verkið ögrandi, fyndið, fræðandi og óvenjulegt. Mér finnst bókin um skjálfandi konuna hins vegar ekkert rosalega ögrandi og áhugaverð þó hún sé engan veginn alslæm.

Í lokaorðum kemur fram að upphaf bókarskrifanna hafi verið fyrirlestur sem höfundurinn hélt um efnið og eigin reynslu á sjúkrahúsi og kannski geldur bókin þess að vera unnin upp úr fyrirlestri, hún fer út um víðan völl og er aldrei sérlega djúp. Hið raunverulega ferli hefst í minningarathöfn um föður Siriar árið 2006, í háskólanum þar sem hann starfaði. Hún er vel undirbúin og á heimavelli en þegar hún fer að tala fær hún gríðarlegan skjálfta í líkamann. Þetta hefur engin áhrif á röddina og hún heldur töluna og hættir síðan að skjálfa. Þessu fylgir að líkaminn blánar. Siri Hustvedt og aðrir vita ekki hvað hefur gerst og menn velta fyrir sér flogakasti, panikkasti eða því sem eitt sinn hét hystería. Ekkert óeðlilegt kemur í ljós við rannsóknir og höfundurinn leitar svara á eigin vegum; hvað veldur skjálftanum?

Bókin fjallar síðan mikið til um könnun hennar á fræðum um líkama og sál, sálfræði, taugalæknisfræði, sögu læknisfræðinnar o.s.frv. Bókin er ekki mjög löng (innan við 200 síður í litlu broti) en hún leitar fanga hér og þar, vitnar í allskonar fólk og fræði og birtir heimildirnar í tæplega 200 aftanmálsgreinum.

Segja má að The Shaking Woman sé heilsufarssaga Siriar Hustvedt, sem hefur alltaf þjáðst af mígreni og fengið ýmsar ofskynjanir og önnur einkenni því tengd. Hún segist líka vera gríðarlega næm og bókstaflega finna sársauka annnara, vegna þess getur hún hvorki horft á ofbeldis- né hryllingsmyndir (við eigum þennan aumingjaskap reyndar sameiginlegan) og var langdvölum á klósettinu í bernsku á meðan systur hennar horfðu á Lassie.

Skjálftinn er ekki bundinn við eitt skipti, hann kemur reglulega þegar hún talar fyrir framan fólk, henni finnst sem framandi kraftar yfirtaki líkamann. Ég hefði haldið að þetta væru frekar algeng viðbrögð á álagsstundu – eitthvað sem margir þekkja og eiga þess vegna erfitt með að tala fyrir framan fólk – en Siri Hustvedt fer samt allavega að rannsaka eigin skjálfta og það gerir hún með hjálp geðlækna, sálfræðinga, heimspekinga og óteljandi margra annarra allt frá gömlu Grikkjunum til Ágústínusar, Wittgensteins, De Beauvoir, Freuds, Lacans og fleiri og fleiri.

Niðurstaðan verður sú að Siri Hustvedt sé bara þessi skjálfandi kona og ekkert við því að gera, það er bara að lifa með því! Hún tekur að vísu lyf sem hjálpa eitthvað en lokasvar bókarinnar er að leitin að svörum, sem slík, sé áhugverð en að manneskjan sitji bara uppi með sjálfa sig. Þetta er svosem alveg ljómandi gott og blessað og góður punktur. Margt fólk mætti alveg sætta sig betur við að við erum öll með okkar einkenni og sérkenni, sum meira sársaukafull en önnur. Það er oft lítið við því að gera annað en að taka lyf, séu þau í boði, gera það sem hægt er að gera til að láta sér líða betur og njóta þess svo að lesa fræðirit og skáldskap í þeirri von að finna einhver svör. Inn í söguna skýtur Siri Hustvedt líka fjölmörgum sjúkrasögum annarra, dæmum af fólki með einkennileg einkenni og ég lærði einhver skemmtileg hugtök af lestrinum, t.d. lilliputian hallucinations, sem er náttúrlega stórkostlega heillandi ofskynjunarheilkenni. Þarna eru líka ansi áhugaverðar sögur af fólki sem er blint og lamað en fer síðan skyndilega að sjá og stekkur af stað eftir margra ára farlömun líkt og biblíulegar persónur.

Því miður verður samt að segjast að ég fann voða lítið nýtt í þessari bók. Því má líklega kenna svimandi aldri og ófáum lesnum blaðsíðum í gegnum tíðina, bókin hefði örugglega haft miklu meiri áhrif á mig fyrir tuttugu árum eða svo. Vangaveltur um sköpunarmátt geðsjúkdóma, þar sem tekin eru dæmi af Paul Celan, Virginiu Woolf, Anne Sexton og fleirum, finnst mér voða þreyttar. Ég er samt ekki að halda því fram að Siri Hustvedt sé svo einföld að hún telji að geðhvarfasjúklingar og aðrir sjúklingar séu almennt skapandi, hún tekur líka skýrt fram að „Illness does not necessarily produce insight“ (177).  

The Shaking Woman á örugglega eftir að verða mörgum hvati til vangaveltna og innblásturs (enda sýnist mér bókin almennt hafa fengið dúndrandi dóma) en ég er allavega löngu búin að afgreiða pælingar á borð við „Can a story ever be true?“ (198) svo að ég gef þessari bók bara þrjár stjörnur eða eitthvað ...

Þórdís Gísladóttir

2 ummæli:

Móði sagði...

Ætti ekki lilliputian hallucinations að kallast Putalandsofskynjanir á íslensku?

Þórdís sagði...

Jú, það hljómar alveg ljómandi vel. Ég er með Putalandsofskynjanir og sé litla bleika kalla dansa um gólfið.