17. ágúst 2011

Bókasöfn á gististöðum, 5. þáttur


Druslubókadömur hafa sumar hverjar verið á faraldsfæti undanfarnar vikur og gist út um allar trissur. Upp úr þessum ferðalögum hefur sprottið sá stórskemmtilegi greinaflokkur Bókasöfn á gististöðum og bæti ég nú við þætti V.

Ótvíræður mælikvarði á gæði gististaðar er meðfylgjandi bókakostur. Ekkert er eins frústerandi og að koma þreyttur á náttstað og finna aðeins eitt ósnert nýjatestament í náttborðinu og ekki söguna meir. Hinsvegar verð ég alltaf himinlifandi ef ég finn bækur úr flokknum Aldnir hafa orðið og ég sef ekki vel nema a.m.k. eitt eintak af Uppgjör konu eftir Höllu Linker sé í herberginu. Svo er auðvitað alltaf hressandi að rifja upp Dalalíf.

Á dögunum gisti ég í notalegri íbúð í vesturbæ Reykjavíkur sem búin var hinu prýðilegasta bókasafni. Halla Linker var reyndar hvergi nærri en ég fann annað sem kætti mig ekki síður. Ég hef lengi haldið upp á Jakobínu Sigurðardóttur. Hrifningin sú byggðist einkum á skáldsögunni Dægurvísu sem varð á vegi mínum fyrir nærri tíu árum. Síðar náði ég mér í smásagnasafn eftir hana sem ég man ekki hvað hét en var stórskemmtilegt. Í hansahillu í vesturbænum fann ég svo skáldsöguna Í sama klefa (1981). Þar segir af kynnum tveggja kvenna, Salóme og sögumanni, sem deila klefa í skipi á leið til Reykjavíkur. Salóme segir sögumanni ævisögu sína. Bókin hefst á því að höfundur trúir lesandanum fyrir því að hún hafi ekki getað gleymt þessu ferðlagi og henni Salóme. Við förum þrjá áratugi aftur í tímann og fylgjumst með þeim í klefanum. Bókin er stutt, ekki mikið meira en 100 síður. Stíllinn fremur knappur og látlaus. Fátt er sagt berum orðum en margt gefið í skyn. Salóme er umkomulaus en sögumaður virðist vera óttalegur nagli sem kveikir sér í sígarettu og hlustar á sorglega söguna. En líklega eiga þær meira sameiginlegt en sögumaður vill láta uppi.

Jakobína er frábær höfundur eins og hlustendur Víðsjár hafa orðið vitni að undanfarnar vikur en þar hefur Helga Margrét Jóhannsdóttir lesið úr endurminningabók hennar Í barndómi.

Vonandi bíður mín önnur ólesin skáldsaga eftir Jakobínu á næsta næturstað.

P.S. Ég er líklega eina druslubókadaman sem vissi ekki að Jakobína og Fríða Á. voru systur.....

4 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Jakobína er frábær höfundur. Einu sinni fengum við pistil frá gestabloggara um Snöruna: http://bokvit.blogspot.com/2009/10/snaran-timalaus-snilld.html

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Mig er farið að langa á gististað til þess eins að geta bloggað um bókakostinn!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég gisti hjá vinum í Eyjafirði á næstunni og á svoleiðis eftir að kemba bókahillurnar.

Garún sagði...

Ekki áttaði ég mig á því að Jakobína og Fríða Á. væru systur! Er sjálf voða hrifin af Fríðu.