4. ágúst 2011

Moloch! Solitude! Filth! Ugliness!

Bókablogg mitt að þessu sinni fjallar ekki um bók heldur kvikmynd, kvikmynd um ljóð – það er ekki oft sem slíkt rekur á fjörur manns. Ein af myndunum sem nú er sýnd í Bíó Paradís í samvinnu við Hinsegin daga er Howl, sem fjallar um Allen Ginsberg og ljóðið hans Howl.

Þetta er á yfirborðinu frekar lágstemmd mynd, ekki mikill hasar þannig séð, senum af ýmsu tagi fléttað saman:

Tölvugrafíkmyndir sem ég kann ekki að lýsa eru leiknar sem undirspil við lestur ljóðsins.

Ginsberg (leikinn af ó svo sætum James Franco), í svarthvítu, les ljóðið á reykmettuðum bar við mikinn fögnuð (samkvæmt Wikipediu er hér um að ræða frumflutning á ljóðinu á frægu upplestrarkvöldi í Six Gallery í San Francisco 7. október 1955).

Ginsberg situr í viðtali í stofusófanum sínum með tebolla og ræðir skáldskap sinn og líf sitt.

Stuttar svarthvítar senur úr lífi Ginsberg, svo sem erótísk samskipti hans við Jack Kerouac og Neal Cassady.

Senur úr réttarhöldunum árið 1957 eftir að útgefandi Howl, Lawrence Ferlinghetti, hefur verið kærður fyrir útgáfu á ósiðsamlegu efni – enskuprófessorar koma hver af öðrum upp í vitnastúku til að gefa álit sitt á bókmenntalegu gildi ljóðsins og merkingu hinna og þessara dónalegra setninga („with dreams, with drugs, with waking nightmares, alcohol and cock and endless balls“ – hver er raunveruleg merking þessara orða að þínu mati, prófessor? Og gæti skáldið ekki hafa orðað það öðruvísi?)

Þótt myndin sé kölluð experimental á Wikipediu er þetta allt frekar snyrtilega og skipulega gert og veldur manni engum vandræðum. James Franco er eins og áður segir mjög sætur og túlkar Ginsberg ágætlega, á frekar hógværan hátt. (Ég gat ekki annað en hugsað um þá eldri útgáfu af Ginsberg sem David Cross túlkar svo fallega í I´m not there, keyrandi á golfbíl – svolítið ólíkar, en þó ekki.) Senurnar úr réttarhöldunum eru áhugaverðar (ég geri ráð fyrir að þar sé meira eða minna haft rétt eftir) og sæmilega smekklegar, þótt slík uppsetning bjóði alltaf að nokkru leyti upp á auðvelda drama- og retórík.

Ég naut sérstaklega atriðanna þar sem Ginsberg er í viðtali og situr einfaldlega heima hjá sér og spjallar um skáldskapinn og lífið (þessi atriði eru líka byggð á viðtali eða viðtölum við hann sjálfan). Ginsberg hefur alltaf komið mér fyrir sjónir sem ekki bara flinkt heldur sérlega sympatískt og heiðarlegt skáld – með hippa-gúrú-faðma-lögguna-stælunum og öllu saman – og þetta var gott innlit í hans viðhorf til skáldskaparins almennt. Sumt kannski ekki jafn aðkallandi gagnrýni í dag og það var fyrir meira en hálfri öld, en samt sem áður hvetjandi og fallegt.

En kosturinn við þessa mynd er ekki síst að það er ljóðið Howl, þetta frábæra ljóð, sem fær að vera miðpunkturinn og binda myndina saman. Ég var ekkert yfir mig hrifin af tölvugrafíkinni sem var látin fylgja mörgum köflunum – það er kannski ekki auðvelt að myndskreyta svona ljóð svo vel sé og óhallærislegt, hvað þá í hreyfimynd í lengri tíma – en ljóðið stóð það alveg af sér. Ég má þó til með að gera athugasemd við þýðinguna á myndinni; textinn var oft stirður, með innsláttar- og stafsetningarvillum. Það er ekki öfundsvert verkefni að þýða mynd sem byggir að miklu leyti á merku og frægu ljóði, en þar hefði þýðandinn þó allavega getað haft íslenska þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl á Ýlfri til að styðja sig við. Hana er að finna í bókinni Maíkonungurinn, sem inniheldur einnig fleiri ljóð eftir Ginsberg.

Það eru þrjár sýningar eftir á Howl; í kvöld klukkan átta, annað kvöld klukkan tíu og á laugardaginn klukkan átta. Sjá dagskrána í heild sinni hér. Ég kann forsvarsmönnum Hinsegin daga bestu þakkir fyrir að sýna myndina og hvet alla áhugasama til að skella sér. Ég vildi sko að það væru gerðar myndir um öll ljóð góðra skálda! (Dálítið yfirþyrmandi pæling samt.)

3 ummæli:

Erna Erlingsdóttir sagði...

Alveg sammála, þessi mynd var mjög fín. Mér fannst skemmtileg tilbreyting að sjá mynd sem er fyrst og fremst um ljóð og svo með ívafi af réttardrama og ævisögu en ekki öfugt eins og dæmigerðara hefði verið.

Mér fannst síðan alveg sniðugt að myndskreyta ljóðið þótt teiknistíllinn sem notaður var höfðaði hins vegar ekki til mín.

Sigga sagði...

Einstaklega ánægð með ykkur að fjalla líka um bókmenntatengdar kvikmyndir! :) Ég er sammála þessu nema hvað teiknimyndirnar höfðuðu til mín og mér fannst þær góðar. Sem er sérstakt því slíkt gerist sjaldan. Er yfirleitt svo viðkvæm fyrir slíkum myndskreytingum. James Franco er einn af mínum uppáhaldsleikurum, ekki síst vegna þess hvað leikur hans er yfirleitt lágstemmdur. Þegar ég les þetta er ég hins vegar fegin að hafa séð myndina ótextaða.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég hef ekki séð myndina en hvet alla til að lesa Maíkonung Eiríks Arnar. Það er örugglega hægt að fá hana á spottprís (eins og flestar bækur).