18. október 2012

Hugguleg sænsk glæpaeyja

Steinblóð er þriðja bók svíans Johans Theorin sem þýdd hefur verið á íslensku. Hinar fyrri eru Hvarfið og Náttbál. Þessi bókaflokkur er óvenjulegur að því leyti að lesandinn fylgist ekki með ákveðnum spæjara/lögreglu/blaðamanni í gegnum bækurnar. Þess í stað er það staðsetningin sem bindur bækurnar saman. Lítil eyja undan ströndum Svíþjóðar, Öland, er sögusvið þeirra allra. Reyndar kemur gamall skipstjóri – Gerlof Davidson líka við sögu í bókunum, mismikið þó og er skemmtilegt að fylgjast með þróun þeirrar persónu. Í raun má segja að með hverri bók bætist nýtt púsl í myndina sem lesandinn gerir sér af eyjunni – t.d. er gömul steinnáma sem kom við sögu í fyrri bókum hér aftur sögusvið og smám saman fáum við að vita meira og meira um staðinn og íbúana í gegnum árin.

Þótt reyfararnir gerist allir á sama staðnum tekst höfundi (alla vega hingað til) að komast hjá því að gera þennan litla bæ að einhvers konar sænskum Midsommer (þar sem lögregluforinginn Barnaby leysir gátur í sjónvörpum landsmanna) en fróðum mönnum reiknast til að mannfall í þáttunum slagi upp í íbúatölu staðarins. Theorin kemst hjá þessu með ýmsu móti. Öland er t.d. orðinn sumarleyfisstaður í dag og þannig getur glæpur í stórborg fylgt fólkinu í sumarleyfið á þessa litlu eyju. Svo er líka litið til fortíðar og í fyrstu bókinni – Hvarfinu – er það áratugagamalt barnshvarf sem leitt er lykta. Þannig verður Öland meira sannfærandi sem „glæpaeyja".

Hér er eins og áður sagið ekki um neinn ákveðinn „rannsakanda“ að ræða – Gerlof gamli kemur reyndar að lausn málsins en það er alltaf venjulegt fólk sem er að reyna að púsla saman brotum - með misgóðum árangri. Vitund bókarinnar flöktir milli nokkurra persóna – miðaldra par hefur keypt gamlan bústað og gert upp, fráskilinn tveggja barna faðir flyst inn í nálægan bústað frænda síns og Gerlof gamli ákveður að yfirgefa elliheimilið þar sem hann hefur búið undanfarnar bækur og í gamla bústaðinn sinn. Þegar pabbi hins einstæða föðurs bjargast við illan leik úr dularfullum bruna fer hin eiginlega glæpasaga af stað en hún er þó ekki endilega alltaf í forgrunni. Höfundurinn eyðir ekki síður púðri í fortíðardrauga fólksins sem og erfiðleika þess í núinu – enda tengjast sögur þeirra allra með einum eða öðrum hætti þegar upp er staðið. Það er fleira en skortur á rannsakanda sem greinir bækur Theorin frá öðrum skandínavískum bræðrum og systrum. Þessar bækur eru frekar hægar, fullar af stemningu, veðri og náttúru – enda er hún auðvitað sérlega nálæg á lítilli eyju norður í hafi. Ég er nokkuð hrifin af þessum bókum og vona að fleiri bækur Theorin verði þýddar...eða kannski maður ætti bara að lufsast til að lesa sænsku...

1 ummæli:

Védís sagði...

Áhugavert. Þessu ætla ég að gefa séns.